Rangfærslur VR og ASÍ um áhrif nýrra fjárlaga

Stjórn VR sendi frá sér ályktun í fyrradag þar sem nýjum fjárlögum var harðlega mótmælt. Stjórnin fullyrðir að boðaðar breytingar á virðisaukaskattskerfinu leggist „með næstum tvöfalt meiri þunga á lægsta tekjuhópinn en þann hæsta.“ Þá hefur forseti ASÍ sagt að breytingarnar komi einkum illa við tekjulág heimili og barnafólk. Þessar fullyrðingar eru forvitnilegar því þegar áhrif fjárlagafrumvarpsins á heimilin eru skoðuð í heild kemur önnur mynd í ljós.

Á mynd 1 má sjá hlutfall ráðstöfunartekna sem íslensk heimili eyða í nokkrar tegundir neysluvara. Tekjulægsti hópurinn eyðir hærra hlutfalli tekna sinna í matvæli, sem munu hækka nokkuð í verði við breytingarnar. Stjórn VR fullyrðir með vísan í þessar upplýsingar að hækkun lægra þreps virðisaukaskatts komi verst niður á tekjulægstu heimilunum. Þar með er þó ekki öll sagan sögð.

Það sem ekki kom fram í ályktun VR er að tekjulægstu heimilin eyða hærra hlutfalli ráðstöfunartekna sinna í langflestar neysluvörur. Með öðrum orðum þá er heildarneysla tekjulægstu heimilanna meiri sem hlutfall af tekjum. Þannig verja tekjulægstu heimilin til dæmis mun hærra hlutfalli tekna sinna í sjónvörp og raftæki, sem munu lækka verulega í verði við boðaðar breytingar á skattkerfinu. Þær verðlækkanir munu því gagnast tekjulægstu heimilunum mest.

Ef heildarmyndin er skoðuð, í stað þess að taka sérstaklega út ákveðna flokka neysluvara, má sjá að heildaráhrif boðaðra breytinga á neyslusköttum eru að þau auka kaupmátt heimilanna (mynd 2). Matur og drykkjarvörur hækka vissulega í verði, sem og þjónusta veitingahúsa, en flestir aðrir neysluflokkar lækka í verði og sumir hverjir verulega. Þegar allt er tekið saman kemur í ljós að ráðstöfunartekjur allra heimila munu hækka.

Þar sem tekjulægstu heimilin verja hærra hlutfalli ráðstöfunartekna sinna í neyslu en önnur koma þessar breytingar sér best fyrir þau. Þannig hækka ráðstöfunartekjur tekjulægsta fjórðungs heimila um 0,5% við þessar breytingar, samanborið við 0,4% fyrir meðaltal allra heimila. Fullyrðingar um að boðaðar breytingar komi sér verst fyrir þá tekjulægstu eru því rangar.

Auk þessara breytinga hafa stjórnvöld boðað hækkun barnabóta um 13% til viðbótar við 2,5% verðlagsuppfærslu. Vegna tekjuskerðingar þeirra bóta munu þær breytingar einnig koma sér best fyrir tekjulægstu heimilin. Matvæli og drykkjarvörur vega þyngra í neyslukörfu barnafjölskyldna, en hækkun barnabóta tryggir að þær fjölskyldur beri ekki skarðan hlut frá borði. Viðskiptaráð áætlar að hækkun barnabóta muni auka ráðstöfunartekjur tekjulægsta fjórðungs heimila um 0,6%, samanborið við 0,4% fyrir öll heimili.

Endurskoðun neysluskatta er löngu tímabær. Boðaðar breytingar fela í sér afnám vörugjalda á um 800 vöruflokka, lækkun almenns þreps virðisaukaskatts, breikkun skattstofna og minnkun bilsins á milli efra og lægra þreps skattsins. Allar þessar breytingar eru til þess fallnar að auka skilvirkni virðisaukaskattskerfisins og styrkja grundvöll verðmætasköpunar hérlendis. Þá hafa stjórnvöld útfært breytingarnar þannig að þær komi best út fyrir tekjulægstu heimilin í landinu. Launþegahreyfingar líkt og VR og ASÍ ættu því að fagna boðuðum breytingum, en ekki gagnrýna þær með fullyrðingum sem ekki standast skoðun.

Tengt efni

Allt í botn og engar bremsur hjá sveitarfélögunum?

Um árabil hefur rekstur sveitarfélaga á Íslandi verið ósjálfbær og í aðdraganda ...
6. maí 2022

Sóknarfæri á tímum sjálfvirknivæðingar

Aukinni sjálfvirknivæðingu fylgja áskoranir en um leið ýmis tækifæri
6. apr 2022

Þegar betur er að gáð - Staðreyndir um stöðu heimilanna

Margt bendir til þess að staða heimila sé sterkari en haldið hefur verið fram og ...
11. feb 2022