Samantekt: á Ísland heima við mörk ruslflokks?

Á árlegum peningamálafundi Viðskiptaráðs, sem að þessu sinni bar yfirskriftina „Á Ísland heima við mörk ruslflokks?“, var rætt hvers vegna íslenska ríkið og bankarnir eru enn í neðsta þrepi fjárfestingarflokks lánshæfismatsfyrirtækjanna og einnig litið fram á veginn til þeirra stóru verkefna sem liggja fyrir í peningamálum á komandi árum.

Elín jónsdóttir, framvæmdastjóri VÍB, setti fundinn og bauð Hreggviði Jónssyni, formanni Viðskiptaráðs, að flytja ávarp. Í máli Hreggviðs kom fram að mat Viðskiptaráðs sé að eitt brýnasta viðfangsefnið sé að fyrir liggi skýr framtíðarstefna í peningamálum. Hann sagði að ef skoðun stjórnvalda sé að hægt sé að ná efnahagslegum stöðugleika, frjálsu flæði fjármagns og viðunandi vaxtastigi með íslensku krónuna þurfi heildstæð stefna um slíkt að liggja fyrir. Í því felist meðal annars að fyrir liggi efnahagsáætlun sem styðji við afnám hafta, hagstjórnaraðilar séu samstíga í sínum aðgerðum og samskipti við erlenda aðila séu samræmd og til þess fallin að efla trúverðugleika.

Að ávarpi Hreggviðs loknu tók Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, til máls og flutti aðalerindi fundarins.

Jákvæðar horfur en veigamiklar áhættur

Már hóf erindi sitt á umfjöllun um horfur og áhættur í efnahagsmálum. Spár Seðlabankans gera ráð fyrir hagvexti á næstu þremur árum. Neikvæð hliðaráhrif séu þó að framleiðsluspenna myndist og að viðskiptaafgangur þurrkist út. Þó muni verðbólga haldast við verðbólgumörk á næstu árum, þótt hún geti sveiflast eitthvað til skemmri tíma litið. Helstu áhættuþætti taldi Már vera alþjóðlegar hagvaxtarhorfur, deilur á vinnumarkaði, uppgjör þrotabúa föllnu bankanna og afnám hafta.

Þá fór Már yfir ákvörðun peningastefnunefndar að lækka vexti, en lægri verðbólga hefur gert það að verkum að raunvextir voru orðnir of háir að mati nefndarinnar. Hann taldi þó að ekki hefði mátt gera þetta fyrr; verðbólga hefði einungis dregist saman á allra síðustu mánuðum og alþjóðastofnanir hafi ekki gagnrýnt að vaxtastig hérlendis hafi verið of hátt.

Óvissa vegna vinnumarkaðar

Már sagði að spá bankans liði fyrir óvissu á vinnumarkaði. Hann sagði að á næsta ári yrði erfiðara að standa undir almennum launahækkunum. Þetta orsakaðist m.a. af því að framleiðsluslakinn væri farinn úr hagkerfinu, raungengið hefði styrkst og viðskiptaafgangurinn væri að hverfa. Svigrúm hagkerfisins til að standa undir aukinni einkaneyslu væri því minna en áður.

Til að hagkerfið gæti staðið undir kaupmáttaraukningu sagði Már að brýnt væri að stuðla að tvennu. Annars vegar auknum þjóðhagslegum sparnaði svo unnt væri að halda uppi fjárfestingu. Hins vegar að auka samkeppnishæfni og framleiðni íslenska hagkerfisins samhliða auknum alþjóðaviðskiptum.


Fjármagnshöftin stóra viðfangsefnið

Gestir í pallborði voru Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson, efnahagsráðgjafi hjá GAMMA, Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands og Regína Bjarnadóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka. Í máli þátttakenda kom fram að mikilvægt væri að skapa sátt um nauðsynlegar kerfisbreytingar og horfa til lengri tíma til þess að skapa jafnvægi í íslensku efnahagslífi. Eitt stærsta viðfangsefnið væru fjármagnshöftin sem haldi okkur í brothættu jafnvægi eins og er. Mikilvægt sé að huga að því hvernig eigi að losa um þau án þess að óstöðugleiki fylgi í kjölfarið. Finna þurfi samhljóðan og samstöðu um að byggja upp stöðugt og opið hagkerfi.

Tengt efni:

Tengt efni

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Hver ber ábyrgð á verðbólgunni?

Ávarp formanns Viðskiptaráðs á Peningamálafundi sem fram fór í gær, 24. nóvember ...
25. nóv 2022