Viðskiptaþing: Sameining stofnana er skynsamleg

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, fjallaði á Viðskiptaþingi, sem nú stendur yfir, um góða reynslu sína af sameiningu stofnana. Hann sagði aðdraganda sameininga skattstjóraembættanna hafa verið mjög stuttan. Frumvarpið hafi orðið að lögum 18. desember 2009 og lögin tekið gildi 1. janúar eða 13 dögum seinna. Þá hafi níu sjálfstæð embætti skattstjóra voru lögð niður og störf þeirra felld undir embætti ríkisskattstjóra.

Mannauðurinn er lykilatriði
Skúli sagði að í upphafi hafi starfsmenn almennt verið á móti sameiningu stofnananna og verkefnið hafi verið að vinna þá á band sameiningar. Ræddi hann um að upplýsingamiðlun til starfsfólksins hefði verið mikil og því hefði verið sýnt traust í verki. Þá hafi starfsfólkið tekið þátt í hugmynda- og stefnumótunarvinnu í tengslum við sameininguna.

Skúli sagði að þessi vinna hefði miklu máli skipt, mannauðurinn væri lykilatriði. Lög formreglur og skipurit myndu ekki skila tilætluðum árangri ef vinnumenningin og líðan fólks væri ekki í lagi. Í máli Skúla kom fram könnun sem gerð var árið 2012 hefði leitt í ljós að 98% starfsmanna RSK væru sáttir við sameininguna eins og hún var framkvæmd.

Ávinningur sameiningar mikill
Skúli sagði að í kjölfar sameiningarinnar hefði samræmi í skattframkvæmd aukist og gæði hennar einnig. Þá hafi einnig sparast umtalsverður kostnaður í umsýslu og afgreiðslutími kærumála styst um 69% og afgreiðslutími erinda um 77%. Starfsfólki hafi einnig fækkað um 12% eftir sameininguna með tilheyrandi sparnaði.

Í erindi Skúla kom enn fremur fram að eftir sameiningu hafi ríkisskattstjóri innleitt rafræna stjórnsýslu með samræmi, skilvirkni og hagkvæmni að leiðarljósi. Öll samskipti milli RSK og viðskiptavina séu nú rafræn. Skúli sagði að áherslu ætti að leggja á hagkvæmni viðskiptavinarins en ekki stofnana.

Loks sagði Skúli að sameining stofnana væri skynsamleg. Fjöldi örstofnana í íslensku samfélagi kostaði skattgreiðendur of mikið. Við framkvæmd sameininga skipti þó öllu máli að vanda til verka, bæði í undirbúningi og framkvæmd.

Tengt efni

Andri nýr formaður Viðskiptaráðs – Ný stjórn kjörin

Aðalfundur Viðskiptaráðs Íslands fór fram í dag. Þar var kunngerð niðurstaða úr ...
7. feb 2024

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Endurskoða þarf íþyngjandi ákvæði persónuverndarlaga

Umsögn Viðskiptaráðs, SA, SI, SFS, SVÞ, SAF, Samorku og SFF um frumvarp til laga ...
25. okt 2022