Sameining Þjóðminjasafns og Minjastofnunar fagnaðarefni

Viðskiptaráð fagnar tillögu stýrihóps á vegum forsætisráðherra um sameiningu Þjóðminjasafns Íslands og Minjastofnunar Íslands í eina stofnun. Hvetur ráðið stjórnvöld til að ráðast í frekari sameiningar með það að markmiði að bæta þjónustu og auka hagkvæmni í rekstri stofnanakerfisins hérlendis.

Mat stýrihópsins er að óhætt sé að gera ráð fyrir 10% hagræðingu innan þriggja ára vegna sameiningarinnar. Fjárheimildir til rekstrar stofnananna tveggja nema um 1 ma. kr. í fjárlögum ársins 2016. Sameining stofnananna getur því sparað um 100 m. kr. á ári þegar hún er að fullu gengin í gegn. Viðskiptaráð hvetur því stjórnvöld til að draga úr fjárheimildum sameinaðrar stofnunar sem þeirri upphæð nemur á næstu þremur árum til að tryggja að sameiningin skili þessum rekstrarlega ávinningi.

Tækifæri til samrekstrar safna
Stjórnvöld ættu að ganga lengra og beita samrekstri á sviði opinberra safna. Samrekstur felur í sér sameiningu rekstrareininga án þess að slíkt þurfi að fela í sér breytingu á fjölda starfsstöðva. Þannig geta stofnanir sem eru sjálfstæðar í dag verið reknar sameiginlega og náð þannig fram hagræðingu þegar kemur að stjórnunarkostnaði, stoðþjónustu, samræmdum vinnubrögðum og sérfræðiþekkingu án þess að dregið sé úr umfangi þeirrar kjarnastarfsemi sem rekin er á hverri starfsstöð.

Í dag starfrækir ríkið átta söfn sem hægt væri að reka undir sameinaðri stofnun. Þau eru eftirfarandi:

  • Listasafn Einars Jónssonar
  • Listasafn Íslands
  • Náttúruminjasafn Íslands
  • Hljóðbókasafn Íslands
  • Kvikmyndasafn Íslands
  • Landsbókasafn Íslands
  • Þjóðskjalasafn Íslands

Með því að reka þessi söfn sameiginlega mætti ná fram hagræðingu hvað varðar samrekstur tölvukerfa, stjórnun, umsýslu og skrásetningu skjala og minja. Auk þess myndi sameiginleg rekstrarstofnun veita starfsfólki aukin tækifæri til sérhæfingar í ólíkum hlutverkum og skapa þannig faglegan ávinning. Þetta mætti gera án þess að fækka söfnunum sjálfum eða draga úr þeirri þjónustu sem þau veita.

Miðað við fjárheimildir þessara stofnana í fjárlögum ársins 2016 og 10% hagræðingu, í samræmi við mat stýrihópsins á ávinningi vegna sameiningar Þjóðminjasafns Íslands og Minjastofnunar, myndi samrekstur þessara stofnana spara ríkinu um 300 m. kr. í rekstrarkostnað á ári án þess að skerða þjónustu þessara safna.

Fækka ætti ríkisstofnunum
Þrátt fyrir fámenni halda Íslendingar úti 182 ríkisstofnunum og nokkur hundruð rekstrareiningum til viðbótar á sveitastjórnarstiginu. Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að sníða stakk eftir vexti og einfalda stofnanakerfið enn frekar með sameiningum stofnana á fjölmörgum sviðum.

Í því samhengi hefur ráðið lagt fram 30 tillögur að fækkun ríkisstofnana. Gangi þær eftir myndi ríkisstofnunum fækka um 112 – úr 182 niður í 70. Þannig myndu verulegir fjármunir sparast og þjónusta hins opinbera batna vegna faglegs ávinnings sameininga.

Tengt efni

Meiri pening, takk

„Aðhaldskrafa er ekki byggð inn í stjórnkerfið sem við búum við og þannig hafa ...
19. apr 2024

Þung skattbyrði og mikil verðbólga undirstrika þörf á aðhaldi

„Útgjaldavöxtur síðustu ára hefur kynt undir háa verðbólgu og valdið bæði ...
8. maí 2024

Fjaðramegn ræður flugi

Góð skattkerfi byggja á fyrirsjáanleika. Stöðugleiki skiptir miklu máli þegar ...
28. nóv 2022