Sjálfbærniskýrslur Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna og Play valdar skýrslur ársins

Viðurkenningar fyrir sjálfbærniskýrslur ársins voru veittar fyrr í dag við hátíðlega athöfn á Nauthóli. Að þessu sinni voru flugfélag og lífeyrissjóður talin hafa gefið út eftirtektarverðustu skýrslur ársins.

Festa - miðstöð um sjálfbærni, Stjórnvísi og Viðskiptaráð Íslands veittu fyrr í dag viðurkenningar fyrir sjálfbærniskýrslu ársins. Þetta er í fimmta sinn sem slíkar viðurkenningar eru veittar og að vanda var hátíðleg stemning þegar fulltrúar útgefenda skýrslanna veittu viðurkenningunum móttöku. Viðurkenningin er veitt fyrirtækjum og stofnunum sem birta upplýsingar um sjálfbærni sína og samfélagsábyrgð með markvissum og vönduðum hætti.

Að þessu sinni voru það Lífeyrissjóður Verzlunarmanna og flugfélagið Play sem talin voru hafa gefið út eftirtektarverðustu sjálfbærniskýrslur ársins 2022, fyrir rekstrarárið 2021. Skýrslur Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna og Fly Play hf. voru valdar úr metfjölda tilnefninga en að þessu sinni bárust 48 tilnefningar þar sem skýrslur frá 33 aðilum voru tilnefndar, sem er tæplega 40% fleiri en hlutu tilnefningu árið 2021.

Hnitmiðuð og einlæg framsetning mikilvægra þátta

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir vali ársins segir að sjálfbærniskýrsla Lífeyrissjóðs verzlunarmanna sé gott dæmi um upplýsingagjöf sjálfbærniþátta eins og best verður á kosið en í skýrslunni er farið yfir markmið, árangur og aðgerðir sjóðsins.

„Upplýsingarnar eru mælanlegar, samanburðarhæfar og viðeigandi fyrir starfsemi sjóðsins. Framsetning er skiljanleg og aðalatriði dregin fram á einlægan máta. Lífeyrissjóðir hafa gríðarleg áhrif í íslensku atvinnulífi, og því mikilvægt að aðrir lífeyrissjóðir taki sér upplýsingagjöf Lífeyrissjóðs verzlunarmanna til fyrirmyndar.“

Play er ungt félag og því að stíga sín fyrstu skref í skýrlsugerð. Til þessa var horft við mat skýrslunnar en í rökstuðningi dómnefndar segir að skýrslan sýni skilmerkilega að fyrsta sjálfbærniskýrsla fyrirtækja þurfi hvorki að vera innihaldslítil né gefa sérstaklega til kynna að fyrirtæki séu að stíga sín fyrstu skref í slíkri upplýsingagjöf.

„Sjálfbærniskýrsla Play er hnitmiðuð, beinir ljósum að mikilvægum þáttum fyrir fyrirtækið, í þessu tilviki losun gróðurhúsalofttegunda. Í skýrslunni er einnig farið yfir hvernig fyrirtækið ætlar að beita sér í loftslagsmálum, sem er jákvætt að sjá fyrir fyrirtæki í jafn mengandi iðnaði og flugiðnaðurinn er.“

Hvatning til áframhaldandi góðra verka

Það var Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri, sem veitti viðurkenningunni móttöku fyrir hönd Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna. Guðmundur sagðist taka við viðurkenningunni með stolti og hún væri stjórn, stjórnendum og öllu starfsfólki sjóðsins mikil og góð hvatning til að halda áfram á sömu braut:

„Það krefst góðrar samvinnu og úthalds að breyta starfsháttum og viðteknum venjum. Við gerð skýrslunnar var leitað eftir viðhorfum sjóðfélaga varðandi sjálfbærni í rekstri sjóðsins og kom þar fram rík áhersla þeirra á mikilvægi ábyrgra fjárfestinga og góðra stjórnarhátta.  Með sjálfbærniskýrslu LV kynnir sjóðurinn fyrir sjóðfélögum og öðrum haghöfum stefnumótun, markmið og árangur í sjálfbærnivegferð lífeyrissjóðsins. Opið og upplýst samtal við þá sem hagsmuna hafa að gæta skiptir miklu máli fyrir öflugan rekstur og aðlögun sjóðsins að síbreytilegu rekstrarumhverfi.“

Fyrir hönd Fly Play hf. var það Birgir Jónsson, forstjóri, sem veitti viðurkenningunni móttöku. Birgir sagði að það hljóta viðurkenningu sem þessa á fyrstu metrum flugfélagsins væri fyrirtækinu mikill heiður en ekki síður hvatning:

„Frá fyrsta degi hefur PLAY lagt mikla áherslu á sjálfbærni. Það skiptir okkur máli að sjálfbærni sé hluti af viðskiptamódeli félagsins og þar með hluti af allri ákvarðanatöku. Við höfum nú þegar byggt upp sterkan grunn og sett okkur háleit markmið í þessum efnum. Næstu skref eru að innleiða og fylgja eftir þeim markmiðum og lykilmælikvörðum sem við höfum sett okkur. Við förum tvíelfd inn í þá vegferð eftir að hafa hlotið þessa ánægjulegu viðurkenningu.“

Dómnefnd og nýskipað fagráð

Í dómnefnd ársins sátu þau Reynir Smári Atlason, forstöðumaður sjálfbærnimála hjá Creditinfo sem var formaður fómnefndar, Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður loftslags og umhverfis hjá Landsvirkjun og Stefán Kári Sveinbjörnsson, verkefnastjóri í stefnumótun og sjálfbærni hjá Isavia.

Reynir Smári Atlason, formaður dómnefndar, segir að mörg íslensk fyrirtæki eigi hrós skilið fyrir vandaða upplýsingagjöf:

„Upplýsingagjöf sjálfbærniþátta margra Íslenskra fyrirtækja er nú orðin að sömu gæðum og við sjáum hjá þeim sem standa sig best erlendis,“ sagði Reynir Atli Smárason, formaður dómnefndar og útskýrir að þessi fyrirtæki séu betur undirbúin fyrir komandi regluverk og ákall fjárfesta en þau fyrirtæki sem ekki hafa lagt áherslu á slíka upplýsingagjöf.“

Markmið Festu, Stjórnvísis og Viðskiptaráðs með viðurkenningunni er meðal annars ýta undir notkun mælanlegra markmið og vandaðrar upplýsingagjafar á sviði sjálfbærni. Til að sinna því, samhliða stórauknum fjölda útgefinna sjálfbærniskýrsla, var að þessu sinni sett á laggirnar sérstakt fagráð sem lagði mat á allar þær skýrslur sem hlutu tilnefningu og undirbjó störf dómnefndar.

Fagráðið var skipað þremur nemendum við Háskólann í Reykjavík sem hafa lokið sérstöku námskeiði með áherslu á sjálfbæran rekstur og upplýsingagjöf, þeim Nikólínu Dís Kristjánsdóttur, Ísak Grant og Söru Júlíu Baldvinsdóttur.

Tengt efni

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Nágrannalöndin nýta oftar en ekki undanþágur sem Ísland nýtir ekki

Umsögn SA og Viðskiptaráðs um breytingu á lögum um endurskoðendur og endurskoðun ...
29. mar 2023

Marel hlaut viðurkenningu fyrir sjálfbærniskýrslu ársins

Viðurkenning fyrir sjálfbærniskýrslu ársins var veitt í hádeginu við hátíðlega ...
8. jún 2023