Skiptar skoðanir um virkni lífeyrissjóða sem hluthafa

Morgunverðarfundur Viðskiptaráðs, Nasdaq Iceland og Samtaka atvinnulífsins um samvistir lífeyrissjóða og almennra fjárfesta á hlutabréfamarkaði fór fram á Icelandair hótel Reykjavík Natura fyrr í dag. Í erindum ræðumanna og í pallborðsumræðum komu fram fjölbreytt sjónarmið um hvernig lífeyrissjóðir skuli hegða sér sem hluthafar. 

Í erindi sínu sagði Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, ljóst að lífeyrissjóðirnir séu og munu áfram verða fyrirferðamiklir í íslensku atvinnulífi. Að mati Páls eiga lífeyrissjóðirnir að beita sér af fullum krafti, með sams konar hætti og aðrir fjárfestar, og vernda þar með hagsmuni sína í fyrirtækjum sem þeir eiga hlut í. Á Íslandi er ríflega 40% af markaðsvirði skráðra hlutabréfa í höndum lífeyrissjóða. Páll taldi að miðað við þetta mikla umfang sjóðanna hér á landi væri óraunhæft að ætla þeim að sitja á hliðarlínunni. Hann taldi þó að gera ætti ríkari kröfur til sjóðanna en nú eru gerðar, t.d. með því að auka gagnsæi um stjórnarkjör og settar yrðu skýrar stefnur sjóðanna í samkeppnismálum.

Helga Hlín Hákonardóttir, ráðgjafi hjá Strategíu, fjallaði í kjölfarið um stofnanafjárfesta sem virka hluthafa og ítrekaði í því samhengi mikilvægi þess að gagnsæi ríki um virkni fjárfestisins. Taldi hún óheppilegt að starfsmenn stofnanafjárfesta settust sjálfir í stjórnir rekstrarfélaga. Hins vegar sagði hún stofnanafjárfesta eiga að vera annað og meira en stofuskraut og sagði langtímahagsmuna sé gætt með virkri þátttöku, frumkvæði og samkeppni.

Traust á milli fjárfesta skiptir höfuð máli, en almennir fjárfestar og stofnanafjárfestar geta unnið saman í hlutafélögum svo lengi sem allir fara eftir reglum. Þetta kom fram í erindi Heiðars Guðjónssonar, fjárfestis og hagfræðings. Hann sagði hlutabréfamarkaðinn skipta miklu fyrir atvinnulífið og almenning. Hann gefi kost á öflun nýs hlutafjár, áhættudreifingu og þátttöku almennings í atvinnulífinu.

Í umræðum tóku þátt auk ræðumanna þau Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI og Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA og formaður stjórnar Gildis lífeyrissjóðs og Þóranna Jónsdóttir, forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík. Skiptar skoðanir voru um virkni lífeyrissjóða sem hluthafa en eining var um mikilvægi þess að hafa allt uppi á borðum varðandi forsendur og stefnu lífeyrissjóða sem fjárfesta. Einnig kom fram það sjónarmið að sjóðirnir ættu að birta hvernig þeir greiða atkvæði á hluthafafundum svo að gagnsæi sé ríkjandi.

Glærukynningar:

Myndir frá fundinum má nálgast á Facebook-síðu Viðskiptaráðs

Tengd umfjöllun:

Tengt efni

Annarra manna fé

„Það er engu líkara en að Reykjavíkurborg sé að vinna með kómóreyska franka en ...
3. okt 2023

Erfið samkeppnisstaða einkarekinna fjölmiðla

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um ráðstöfun útvarpsgjalds (mál nr. 129)
15. mar 2023

Marel hlaut viðurkenningu fyrir sjálfbærniskýrslu ársins

Viðurkenning fyrir sjálfbærniskýrslu ársins var veitt í hádeginu við hátíðlega ...
8. jún 2023