Staða efnahagsmála sjaldan verið betri

MárÁrlegur peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun fyrir fullu húsi gesta. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, flutti aðalerindi fundarins undir yfirskriftinni: „Peningastefnan: árangur og endurskoðun?“ Staða í efnahagsmálum ásamt framkvæmd og stefnu í peningamálum voru í brennidepli bæði í erindi seðlabankastjóra og umræðum í kjölfarið. Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, stýrði fundi.

Er sjálfstæð peningastefna of dýru verði keypt?
Fundurinn í ár var haldinn undir yfirskriftinni „Er sjálfstæð peningstefna of dýru verði keypt?“ Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs, flutti opnunarávarp og lýsti þar ástæðum þess að þessi yfirskrift varð fyrir valinu. Hún sagði ýmsa ókosti greinilega við sjálfstæða peningastefnu. Höft séu til staðar bæði á innflæði og útflæði fjármagns frá Íslandi, miðstýringarhlutverk Seðlabankans hafi aldrei verið meira, vaxtastig sé hátt miðað við önnur vestræn ríki, gjaldeyrisforðinn kostnaðarsamur og fljótandi króna standi uppbyggingu alþjóðageirans fyrir þrifum.

Á móti þessum ókostum komi sveigjanleiki þegar kemur að raunlaunum. Íslenska krónan hafi verið þægilegur blóraböggull fyrir stjórnmálamenn og aðila vinnumarkaðarins. Í stað þess að óskynsamleg hagstjórn brjótist fram með atvinnuleysi og launastöðnun hafi leiðréttingar átt sér stað í gegnum gengislækkanir og tilheyrandi verðbólgu. En Katrín Olga spurði hvort þetta sé raunverulegur kostur við sjálfstæða peningastefnu, eða hvort Íslendingar væru betur settir með annað fyrirkomulag sem girðir fyrir þennan freistnivanda.

Már: Staða efnahagsmála sjaldan verið betri
Í erindi sínu sagði Már að staða efnahagsmála á Íslandi hafi sjaldan verið betri. Íslandingar hafi fengið verulega búbót síðustu ár þrátt fyrir að hafa gengið hægar um gleðinnar dyr en oft áður í uppsveiflum. Hann fjallaði í kjölfarið um þrjú efni: vaxtastigið í lengri tíma samhengi, gjaldeyrismarkaðinn og hugsanlegar breytingar á ramma peningastefnunnar.

Ræðu Más í heild sinni má nálgast hér

Pallborðsumræður
Að loknu erindi Más tóku við pallborðsumræður. Þátttakendur í pallborði voru:

Panelumræður

  • Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri
  • Ásgeir Jónsson, dósent við Háskóla Íslands og efnahagsráðgjafi Virðingar
  • Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, fjármálastjóri Advania
  • Iða Brá benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs Arion banka
  • Valdimar Ármann, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA

Upptöku frá pallborðsumræðunum má nálgast á Facebook-síðu Viðskiptaráðs

Ljósmyndir frá fundinum eru jafnframt aðgengilegar á Facebook-síðu Viðskiptaráðs

Tengt efni

Vel sóttur Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun, 23. nóvember. Yfirskrift ...
23. nóv 2023

Hver ber ábyrgð á verðbólgunni?

Ávarp formanns Viðskiptaráðs á Peningamálafundi sem fram fór í gær, 24. nóvember ...
25. nóv 2022

Hæpnar forsendur og ósjálfbær útgjaldavöxtur

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023
12. okt 2022