Til aðstoðar fyrirtækjum með afgerandi hætti

Starfshópur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur lagt fram tillögur í tólf liðum til aðstoðar fyrirtækjum vegna COVID-19

Nýverið skilaði starfshópur Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, skýrslu um hvernig utanríkisþjónustan geti betur stutt við íslenskt atvinnulíf vegna efnahagslegra afleiðinga COVID-19. Meðal annars byggði skýrslan á samtali við Viðskiptaráð og aðra haghafa á sviði atvinnulífsins. Starfshópinn skipuðu Auðunn Atlason, sendiherra, Diljá Mist Einarsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra og Einar Gunnarsson, sendiherra.

Skýrslan ber heitið Saman á útivelli – Framkvæmd utanríkisstefnu Íslands í kjölfar COVID 19, en í henni eru settar fram tólf tillögur í fjórum flokkum. Í fyrsta lagi er um að ræða tillögur sem lúta að efldri aðstoð við íslensk útflutningsfyrirtæki, í öðru lagi tillögur um gerð og rekstur alþjóðasamninga á sviði milliríkjaviðskipta, í þriðja lagi tillögur um almenna meðferð utanríkismála og í fjórða lagi tillögur um starfshætti utanríkisþjónustunnar. Samandregin niðurstaða starfshópsins var að beita mætti utanríkisþjónustunni með afgerandi hætti til aukins stuðnings íslenskum útflutningshagsmunum en um leið þyrfti að leggja áframhaldandi rækt við aðkallandi úrlausnarefni á sviði alþjóðamála sem ætla mætti að myndi magnast upp vegna COVID-19.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, veitti skýrslunni viðtöku síðastliðinn föstudag ásamt Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og Pétri Óskarssyni, framkvæmdastjóra Íslandsstofu.

„Uppbygging útflutningsgeirans er lykillinn að sjálfbærum vexti til framtíðar – nú sem endranær. Þetta var einmitt áhersluatriði í hinni svonefndu skýrslu McKinsey frá árinu 2012 þar sem mjög skýr stefna var mörkuð fyrir Ísland sem heldur enn,“ segir Ásta. Í þessu samhengi er mikilvægt að einfalda alla ferla og gera fyrirtækjum og einstaklingum í viðskiptum auðvelt að eiga í samskiptum við utanríkisráðuneytið og nálgast þjónustu þess. Ég fagna því sérstaklega tillögum um að samnýta aðstöðu utanríkisþjónustunnar til að styðja við fyrirtæki sem eru að fóta sig á nýjum mörkuðum sem og að halda úti viðskiptavakt sem einfalt er að leita til,“ segir hún.

Skýrsluna í heild má finna hér til hliðar.

Tengt efni

Gera þarf breytingar á fjölda og fjármögnunarkerfi sveitarfélaga

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að stefnu í málefnum sveitarfélaga (mál nr. 72/2023).
19. apr 2023

Nauðsynlegt að skapa rétta hvata

Umsögn Viðskiptaráðs og SA um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs ...
31. mar 2023

Stjórn Landspítala verði raunverulegur æðsti ákvörðunaraðili

Umsögn Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins um breytingu á lögum um ...
7. apr 2022