Tilgangurinn helgar meðalið hjá forseta ASÍ

Forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) hefur brugðist við ítrekaðri gagnrýni Viðskiptaráðs á vinnubrögð sambandsins í umræðu um verðlagsþróun. Hann reiðir hátt til höggs og fullyrðir að Viðskiptaráð hafi vondan málstað að verja. Þær efnislegu röksemdir sem fram koma eru þó gallaðar í veigamiklum atriðum. Málflutningur forseta ASÍ kemur verst niður á skjólstæðingum hans, launafólki á Íslandi, sem er ólíklegra til að njóta kjarabóta í framtíðinni fyrir vikið.

Mistök ASÍ öll á sama veg
ASÍ hefur gert afdrifarík mistök í greiningum sínum á verðlagsþróun á síðustu misserum. Mistökin eru ávallt á sama veg. Sambandið ofáætlar hversu mikið vöruverð ætti að lækka og fullyrðir í kjölfarið óverðskuldað að álagning verslana hafi hækkað. Þrjú nýleg dæmi eru eftirfarandi:

  1. Skakkt viðmiðunartímabil. Í maí 2015 fullyrti ASÍ að afnám vörugjalda á raf- og heimilistæki hefði ekki skilað sér til neytenda. Verðlagskönnun frá því í október 2014 var notuð til viðmiðunar til að meta þá lækkun sem hafði átt sér stað. Mánuði áður, í september 2014, höfðu hins vegar leiðandi söluaðilar þegar lækkað vöruverð til samræmis við skattalækkunina. ASÍ vanmat því þær verðlækkanir sem átt höfðu sér stað.
  2. Ímyndaðar vörugjaldalækkanir. Í september fullyrti ASÍ að afnám vörugjalda á byggingarvörur hefði ekki skilað sér til neytenda. Sambandið notaðist hins vegar við verðvísitölu sem inniheldur fjölmargar vörutegundir sem báru aldrei vörugjöld. ASÍ gerði engu að síður ráð fyrir því að allar byggingavörur hefðu átt að lækka í verði sem nam afnámi vörugjalda – sem leiddi til ofmats á áætluðum verðlækkunum.
  3. Bætt kjör launafólks gleymast. Í nóvember fullyrti sambandið að styrking krónunnar hefði ekki skilað sér til neytenda í formi lægra vöruverðs. Í greiningu þess er hins vegar ekki tekið tillit til verulegra kjarabóta starfsfólks á sama tímabili, sem eykur kostnað smásala og dregur þannig úr möguleikum til að lækka vöruverð til samræmis við gengisbreytingar. ASÍ ofmat því þær vöruverðslækkanir sem það taldi neytendur eiga inni.

Tilgangurinn virðist hér helga meðalið hjá Alþýðusambandinu. Vinnubrögðin skipta ekki máli svo lengi sem hægt er að fullyrða að verslanir hafi aukið álagningu sína. Frásögn eins stærsta smásöluaðila raf- og heimilstækja á Íslandi um að sambandið hafi ekki haft áhuga á að skoða upplýsingar um verðlagningu þeirra er önnur vísbending um þetta viðhorf.

Innlendar vörur eru líka seldar í búðum
Í svari sínu fullyrðir forseti ASÍ að í ljósi þess að vöru- og hráefniskostnaður vegi þyngra en launakostnaður í verslanarekstri ættu áhrif gengislækkana að vera sterkari en áhrif launahækkana sem því nemur. Þessi fullyrðing stenst ekki nánari skoðun.

Forseti ASÍ leiðir hjá sér þá staðreynd að verslanir selja ekki bara innfluttar vörur. Til dæmis eru 71-73% af seldri dagvöru framleidd innanlands. Launahækkanir auka framleiðslukostnað innlendra vara og leiða því til hækkunar á 71-73% af vöru- og hráefniskostnaði fyrir smásala á dagvörumarkaði.

Sé ekki tekið tillit til þessara áhrifa verður niðurstaðan veruleg ofáætlun á meintum verðlækkunum – rétt eins og í fyrri mistökum Alþýðusambandsins sem talin eru upp hér að framan.

Vöruverð hefur lækkað
Forseti ASÍ fullyrðir að með nýjustu gagnrýni ráðsins sé sagt að „samningsbundnar launahækkanir hafi þurrkað upp allt svigrúm til verðlækkana – að launafólk hafi tekið allt svigrúmið til sín!“ Það er ekki rétt. Ráðið vakti einungis athygli á því að ASÍ ofáætlaði þær verðlækkanir sem það taldi neytendur eiga inni. Aldrei var fullyrt að verðlækkanir hefðu ekki átt sér stað.

Þvert á móti hefur verð á fjölmörgum vörutegundum lækkað umtalsvert á síðustu tveimur árum. Heimilistæki hafa lækkað í verði um 27% samanborið við almennt verðlag, sjónvörp um 24%, heimilisáhöld um 18%, leikjatölvur um 17% og föt og skór um 8%, svo nokkur dæmi séu tekin.

Lækkun neysluskatta er stærsta ástæðan fyrir þessum verðlækkunum og var því mikið framfaraskref fyrir íslenska neytendur. Sé horft á heildarmyndina er jafnframt ótvírætt að hagfelld þróun í innkaupakostnaði smásala hefur skilað sér í lægra vöruverði til neytenda.

Af framferði og hvötum
Í svari sínu segir forseti ASÍ að Viðskiptaráð hafi „tekið sér þá stöðu að verja það ósvífna framferði verslunarinnar að stinga ábata af lækkun og afnámi tolla og vörugjalda og styrkingu krónunnar í vasann.“ Hann segist jafnframt treysta því að „Alþingismenn setji í framtíðinni spurningarmerki við framgöngu Viðskiptaráðs á þessu sviði og velti fyrir sér hvaða hvatir búa þar að baki.“

Í stað þess að halda sig við efnisleg svör við þeirri gagnrýni sem Viðskiptaráð setti fram fram kýs forseti ASÍ að segja ráðið hafa vondan málsstað að verja og hvetur til þess að litið sé til annars en röksemda í umræðu um verðlagsþróun. Slík skrif segja meira um málstað þess sem slíkt skrifar og með hvaða hætti viðkomandi nálgast umræður.

Að því sögðu eru hvatir Viðskiptaráðs skýrar. Ráðið er frjáls félagasamtök allra þeirra sem stunda rekstur á Íslandi. Lægri skattar á viðskipti eru til hagsbóta fyrir bróðurpart þessa hóps. Það á ekki bara við um verslanir, heldur einnig fyrirtæki og einstaklinga í öllum atvinnugreinum sem kaupa vörur og þjónustu innanlands. Hagsmunir félaga ráðsins og almennings fara því fyllilega saman í þessari umræðu, líkt og í öðrum málum sem varða aukið frjálsræði í viðskiptum.

Erfiðara er að sjá á hvaða vegferð ASÍ er með sínum vinnubrögðum. Ætla mætti að hagsmunir launafólks á Íslandi væru í forgrunni hjá sambandinu. Með óverðskulduðum fullyrðingum um að lækkun skatta á neysluvörur launafólks hafi ekki skilað sér grefur ASÍ hins vegar undan frekari aðgerðum sem auka kaupmátt skjólstæðinga þeirra. Íslenskum launþegum hefði því verið betur borgið ef sambandið hefði haldið sig til hlés í þessari umræðu.

Tengt efni

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Hvalir eru ekki blóm

„Ég skil að það sé freistandi að skrifa fréttir um innkaupakörfu áhrifavalds í ...
1. nóv 2023

Vel sóttur Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun, 23. nóvember. Yfirskrift ...
23. nóv 2023