Úttekt AGS áfellisdómur yfir húsnæðisstefnu stjórnvalda

Stuðningur stjórnvalda vegna húsnæðismála er afar flókinn, hvetur til of hárrar skuldsetningar og umframeyðslu heimila. Þá nær hann illa markmiði sínum um hjálp við þá efnaminni og gagnast fyrst og fremst húsnæðiseigendum en ekki leigjendum. Þetta kemur fram í nýlegri úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á skatt- og bótakerfinu hér á landi. Að mati sjóðsins ættu stjórnvöld að afnema vaxtabætur með öllu og hjálpa efnaminni einstaklingum með beinum fjárhagsstuðningi í stað húsnæðistengdra niðurgreiðslna. Úttekt AGS er því áfellisdómur yfir þeirri húsnæðisstefnu sem er nú við lýði.

Vaxtabætur fá falleinkunn
Vaxtabætur ríkissjóðs fá falleinkunn hjá AGS. Bæturnar eru sagðar ákaflega flóknar (e. extremely complex) og hvetja til of mikillar skuldsetningar heimila. Þá kemur fram að bæturnar endi að þremur fjórðu hlutum hjá tekjuhærri heimilum. Í flestum tilfellum séu bæturnar því ekki að gera einstaklingum kleift að eignast þak yfir höfuðið heldur frekar að kaupa stærra húsnæði en þeir myndu gera ella. Loks kemur fram í úttekt sjóðsins að bæturnar hafi að öllum líkindum áhrif til hækkunar fasteignaverðs, sérstaklega verð á smærri íbúðum, vegna þess hversu almennar þær séu.

Þrjú ólík stuðningskerfi
Í sömu skýrslu eru stjórnvöld gagnrýnd fyrir að starfrækja þrjú ólík stuðningskerfi sem hafa öll sama markmið, þ.e. að tryggja efnaminni fjölskyldum húsnæði. Auk vaxtabótakerfisins útdeila stjórnvöld húsaleigubótum og veita jafnframt húsnæðislán í gegnum Íbúðalánasjóð. Að mati AGS gerir þetta árangur framangreindra stuðningskerfa óljósan og skapar samhliða meiri raskanir á húsnæðismarkaði en ef eitt heildstætt kerfi væri til staðar.

Þá hvetur AGS stjórnvöld til að afnema alfarið útgjaldatengdar húsnæðisbætur. Er það mat sjóðsins stjórnvöld að afnema ætti vaxtabætur smám saman á næstu árum og taka þess í stað upp almennan fjárhagsstuðning sem einskorðast við efnaminni heimili. Eins ættu stjórnvöld að breyta húsaleigubótum með sama hætti. Þannig sé komið í veg fyrir að niðurgreiðslur vaxta- eða leiguútgjalda hvetji til aukinnar skuldsetningar og leiði til hækkunar fasteignaverðs.

Nýtt frumvarp skref í öfuga átt
Nýtt frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um húsnæðisbætur – sem lagt var fram á Alþingi þann 2. desember - gengur þvert á ráðleggingar AGS. Í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins um frumvarpið kemur fram að með því sé umfang núverandi fyrirkomulags aukið um tæplega 7 ma. kr. á ári frá og með árinu 2017. Því er verið að hækka útgjaldatengdar húsnæðisbætur í stað þess að draga úr þeim.

Umsögn ráðuneytisins um frumvarpið endurspeglar þær áskoranir sem AGS hefur bent á í þessu samhengi. Þannig segir eftirfarandi í frumvarpinu: „Við þessar aðstæður eru allar líkur á að stóraukinn ríkisstuðningur í formi niðurgreiddrar leigu muni fljótlega leiða til hækkunar á leiguverði. Þannig má leiða líkur að því að þessi aukni húsnæðisstuðningur muni skila ábata í meiri mæli til leigusala en til leigjenda og að hætt verði við því að staða leigjenda batni ekki að því marki sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, a.m.k. ekki til skemmri tíma litið.“

Hverfa ætti frá áformum um hækkun húsnæðisbóta
Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að hverfa frá núverandi áformum um hækkun húsnæðisbóta. Þess í stað ætti að draga úr slíkum stuðningi og taka fremur upp beinan fjárhagsstuðning sem einskorðast við efnaminni fjölskyldur. Þá ætti að fækka þeim stuðningskerfum sem starfrækt eru á húsnæðismarkaði, líkt og úttekt AGS mælir með. Með þeim hætti mætti spara umtalsverða opinbera fjármuni og tryggja betur að aðgerðir hins opinbera skili tilætluðum árangri.

Tengt efni

Allt að 43% lægra matvöruverð án tolla

Afnám tolla myndi lækka verð á matvörum um allt að 43%. Þetta kemur fram í nýrri ...
8. ágú 2024

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023

Markmiðin göfug, áhrifin öfug

Innviðaráðherra birti grein í Morgunblaðinu í gær og gagnrýndi Viðskiptaráð ...
11. júl 2024