Vopn gegn sameiginlegum óvini

Viðskiptaráð Íslands hefur tekið saman mögulegar aðgerðir og það sem þarf að huga að til að takmarka útbreiðslu og neikvæð áhrif COVID-19. Mikilvægt er að allir taki höndum saman.

Tenglar

  Útbreiðsla COVID-19 er í senn ógn við heilsu landsmanna, daglegt líf og efnahagslífið. Því er mikilvægt að allir taki höndum saman til að hefta útbreiðslu og lágmarka röskun kórónaveirunnar á daglegt líf landsmanna. Í því skyni eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem boðaðar voru í morgun gott fyrsta skref og munu þær, ef vel tekst til, veita viðskiptalífinu nauðsynlegt andrými í fordæmalausum aðstæðum.

  Að sama skapi skortir á að næstu skref séu skýr en það mun skipta sköpum til að lágmarka þá röskun sem veiran hefur. Áhrif kórónaveirunnar á hagkerfið eru nú þegar hafin og því þurfa fyrstu aðgerðir til að sporna gegn því að hefjast strax, sé það gert of seint er aftur á móti hætta á að stjórnvöld ýti undir sveiflur í hagkerfinu. Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að huga hratt og örugglega að næstu skrefum og að aðgerðum verði komið í framkvæmd í tæka tíð eftir því sem framvindan skýrist.

  Verkefnið snýr sem fyrr segir ekki bara að stjórnvöldum heldur líka fyrirtækjum og landsmönnum öllum. Með það í huga hefur Viðskiptaráð tekið saman 12 tillögur og áherslur sem geta verið vopn gegn veirunni og afleiðingum hennar. Tillögurnar snúa í grófum dráttum að okkur öllum, ríkinu og viðskiptalífinu:

  Allir:

  1. Halda haus

  Afar mikilvægt er að feta meðalveg þess að gæta varúðar og um leið láta lífið ganga sinn vanagang eins og hægt er. Ef samfélagið stoppar algjörlega getur það eitt og sér haft alvarlegar afleiðingar og jafnvel ógnað mannslífum. Hingað til hefur verið gott jafnvægi í viðbrögðum og skilaboðum stjórnvalda og viðskiptalífs og nauðsynlegt að reyna að feta áfram þann meðalveg.

  2. Horfa á okkur í stóra samhenginu – ekki bara bundið við Ísland

  Tengt fyrsta atriðinu þá er brýnt að líta ekki einungis inn á við heldur líta á vandann sem sameiginlegan alheimsvanda. Stjórnvöld og viðskiptalífið þurfa því að sjá hlutverk Íslands í alþjóðlegri samvinnu en ekki einangra okkur við þessar fordæmalausu aðstæður.

  3. Tímabundnar slakanir á greiðslum og kröfum ef þörf þykir

  Viðbúið er að með minnkandi veltu geti fjölmörg fyrirtæki og fjármálastofnanir lent í lausafjárþurrð. Hið sama getur því gilt um heimili ef allt fer á versta veg. Þess vegna er eitt af forgangsatriðum fyrirtækja en ekki síður stjórnvalda að veita aukinn slaka í greiðslum reikninga og uppgjörum ef þörf þykir. Hvað varðar hið opinbera er hlutverkið sérlega mikilvægt og hægt væri að dreifa greiðslum á virðisaukaskatti og öðrum gjöldum. Hægt væri að fara sambærilega leið með virðisaukaskattinn og gert var samfara bankahruninu 2008 þegar aukinn greiðslufrestur fékkst tímabundið á þriðjung aðflutningsgjalda.

  4. Ekki missa sjónar á langtímahugsuninni og að þetta mun ganga yfir

  Afar óljóst er hve lengi veiran mun ganga yfir, hversu vel muni takast að berjast gegn henni eða hver efnahagsleg áhrif verða. Það sem er þó víst að hún mun ganga yfir á tiltölulega skömmum tíma og eftir það getur lífið haldið sinn vanagang. Mikilvægt er að stjórnvöld og fyrirtæki missi ekki sjónar á því og hugi nú þegar að aðgerðum til að ráðast í þegar það versta er yfirstaðið. Í því samhengi má nefna fjárfestingar og markaðssetningu t.d. í ferðaþjónustu, en sú grein mun líklega verða hvað verst úti hvað varðar efnahagsleg áhrif. Í því samhengi væri hægt að veita afslætti eða fella niður lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli á nýjum leiðum eða ráðast í sambærilegar aðgerðir til að tryggja að flugsamgöngur raskist sem minnst og komist sem fyrst í fyrra horf.

  Hið opinbera:

  5. Skýr skilaboð um að ríkið geri allt það sem gera þarf í ríkisfjármálum

  Stjórnvöld þurfa ekki einungis að hlúa að aðgerðum í heilbrigðiskerfinu og almannavörnum. Mikilvægt er að bregðast við hinum breytta efnahagslega veruleika og senda þarf skýr skilaboð um að ríkið muni leggja allt sitt af mörkum til að tryggja að efnahagslífið gangi áfram með eins litlum truflunum þó að sett verði á samkomubönn og aðrar hömlur. Afar ólíklegt virðist að forsendur fjármálstefnu ríkisins haldi og því væri gott skref að lýsa því yfir að hún sé felld úr gildi og að forsendur fjárlaga séu breyttar.

  6. Innviðafjárfesting og aðrar beinar aðgerðir

  Liður í því að minnka tímabundin áhrif og tryggja að efnahagslífið komist sem fyrst af stað er að ráðast í arðbærar fjárfestingar og flýta opinberum framkvæmdum. Skuldastaða ríkissjóðs og þau kjör sem ríkissjóði bjóðast leyfa tímabundið svigrúm til þess að gefa hressilega í. Tímasetningar eru hér lykilatriði og því þyrfti að fara af stað með aukningu ekki síðar en strax. Einnig er eðlilegt sbr. fyrri yfirlýsingar að ríkið komi til móts við fyrirtæki sem lenda sérlega illa í sóttkvíum og smitum starfsfólks. Aðrar aðgerðir sem gætu létt undir og mildað höggið eru til dæmis að lækka tryggingargjald sem leggst hvað þyngst að mannaflsfrek og lítil fyrirtæki, skapa skattalega hvata til nýfjárfestinga og skattalega hvata til að ráða nýja starfsmenn t.d. með tímabundnum niðurfellingum tryggingagjalds.

  7. Skýr skilaboð frá Seðlabankanum: Vaxtalækkun strax og boð um frekari aðgerðir

  Seðlabanki Íslands gegnir lykilhlutverki í að milda áhrif COVID-19 á efnahagslífið. Frá bankanum þurfa að koma mun skýrari og afdráttarlausari yfirlýsingar um að þar séu allir tilbúnir að gera það sem þarf. Fyrsta skrefið í þá átt og til að sýna viljann í verki væri vegleg vaxtalækkun. Einnig er mikilvægt að tryggja aðgengi fjármálastofnana að lausafé. Almennt séð þarf að auka svigrúm fjármálakerfisins til að takast á við tímabundinn vanda og snúa vörn í sókn. Þess vegna ætti að vera forgangsatriði að draga úr eiginfjárkröfum og setja sveiflujöfnunarauka niður í 0%. Einnig gæti hraðari lækkun bankaskatts létt undir og stutt við aðrar aðgerðir. Verði ráðist í aðgerðir sem þessar mun það ekki einungis styðja við nauðsynlega fjárfestingu heldur skapa bönkunum svigrúm til þess að hjálpa viðskiptavinum að takast á við minnkandi veltu.

  8. Eftirlitsstofnanir sýni skilning

  Regluverk á Íslandi er skv. alþjóðlegum könnunum meira íþyngjandi hér á landi en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Af þeim sökum er sérstaklega mikilvægt að eftirlitsstofnanir setji ekki fyrirtækjum stólinn fyrir dyrnar til að bregðast hratt við fordæmalausum aðstæðum. Til dæmis má leggja til að Samkeppniseftirlitið leyfi tímabundið samstarf milli samkeppnisaðila án nokkurra tafa. Fyrstu viðbrögð eftirlitsstofnana virðast ekki í takt við þetta samanber tilboð Íslenskrar Erfðagreiningar um að hjálpa til við að skima fyrir veirunni.

  Viðskiptalífið:

  9. Leggja sitt af mörkum til að takmarka smit

  Líkt og hjá öllum er lykilhlutverk viðskiptalífsins að takmarka smit COVID-19 milli manna og því þarf að taka ógninni alvarlega. Mikilvægt er þó að forgangsraða slíkum aðgerðum þannig að sem minnst röskun verði á daglegri starfsemi. Til þess geta fyrirtæki gripið til fjölbreyttra aðgerða. Hér eru nokkur atriði, þó ekki tæmandi:

  • Skilgreina lykilstarfsmenn, sem þarf að gæta að sérstaklega
  • Auðvelda fólki að vinna að heiman eftir fremsta megni
  • Aðskilja teymi og búa til minni hópa
  • Strangari aðgangsstýringu á vinnustöðum
  • Takmarka ferðalög starfsfólks
  • Takmarka fundarhöld, sérstaklega stóra fundi
  • Huga sérstaklega að aðgerðum og takmörkunum í mötuneytum og öðrum opnum rýmum
  • Hvetja til handþvottar og tryggja jafnframt gott aðgengi að sótthreinsandi vörum

  10. Hlúa að starfsfólki og halda því upplýstu

  Fyrir utan beinar aðgerðir til að takmarka smit er mikilvægt að fyrirtæki haldi starfsfólki sínu upplýstu um gang mála. Ekki er síður mikilvægt að fyrirtæki reyni eftir fremsta megni að koma til móts við starfsfólk sem veikist eða þarf að fara í sóttkví. Í því samhengi þarf sérstaklega að hlúa að starfsfólki sem er í áhættuhópi. Að því sögðu gæti það reynst sumum fyrirtækjum, sérstaklega litlum, ómögulegt ef starfsemin liggur niðri vegna forfalla og því eru rök fyrir því að ríkið hjálpi við að bæta starfsfólki tekjumissi í slíkum tilfellum.

  11. Leita leiða til að koma í veg fyrir uppsagnir ef fyrirtæki lenda í tímabundnum vandræðum

  Ef fyrirtæki lenda í þeirri stöðu að þurfa að draga verulega (ekki einungis tímabundið) úr starfsemi eru þau hvött til að leita leiða svo komist verði hjá uppsögnum. Fyrir utan hefðbundnar aðhaldsaðgerðir er í mörgum tilfellum hægt að minnka starfshlutföll tímabundið í stað þess að ráðast í uppsagnir. Þannig verður auðveldara að snúa vörn í sókn þegar veiran hefur gengið yfir og tryggt að byrðunum sé jafnar dreift.

  12. Leita leiða til að viðhalda fjárfestingarstigi

  Að lokum er gríðarlega mikilvægt að fyrirtæki leggi líka sitt af mörkum, líkt og ríkið, til að tryggja að viðspyrnan verði góð. Í því skyni þurfa þau, eigendur og aðrir fjárfestar meðal annars að leita leiða til að halda uppi viðundandi fjárfestingarstigi. Það bæði mildar efnahagsleg áhrif COVID-19 en mun jafnframt tryggja að efnahagslífið jafni sig sem fyrst. Stærstu fjárfestarnir á Íslandi, lífeyrissjóðir, eru hér ekki undanskildir og það er í samræmi við þeirra hagsmuni að tryggja að efnahagslífið verði fyrir sem minnstum skaða með framsæknum fjárfestingum, en ekki einungis flýja í skjól sem ýtir undir neikvæð áhrif á markaði og efnahagslífið í heild. Líkt og fyrr segir geta stjórnvöld stutt við þetta markmið með sérstökum skattalegum hvötum til fjárfestinga.

  Tengt efni

  Umsögn um drög að þingsályktunartillögu um stefnu í neytendamálum til 2030

  Viðskiptaráð Íslands gerir athugasemdir við að þrátt fyrir að eðli máls samkvæmt ...

  Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

  Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
  21. feb 2024

  „Við þurfum raunsæja nálgun“

  Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
  23. nóv 2023