Fyrrum formenn

Garðar Gíslason
Garðar Gíslason, 1917-1921 og 1922-1934

Garðar Gíslason var kosinn fyrsti formaður ráðsins á fyrsta stjórnarfundinum sem haldinn var 21. september 1917. Garðar fæddist 14. júní 1876. Hann stofnaði upphaflega umboðsverslun í Leith í Skotlandi árið 1901 og í kjölfarið setti hann upp útibú í Reykjavík. Árið 1909 fluttist Garðar síðan aftur til Íslandsþar sem hann rak heildverslun. Í lok verslunarferils síns rak Garðar heildverslun í New York en synir hans og tengdasonur ráku verslunina á Íslandi. Helstu áherslumál Garðars voru almennt verslunarfrelsi og réttindi fyrirtækja gagnvart ríkisvaldinu. Hann lét að sama skapi til sín taka í skólamálum og átti hlut að máli þegar Verzlunarskólinn var fluttur á Grundarstíg. Garðar gegndi embætti formanns frá 1917 til 1921 og svo aftur frá 1922 til 1934.

Ólafur Johnson, 1921-1922

Ólafur Johnson var annar formaður ráðsins og gegndi embætti frá 1921 til 1922. Ólafur fæddist 28. maí árið 1881. Hann stofnaði heildsölufyrirtækið Ó. Johnson og Kaaber árið 1906 og starfar fyrirtækið enn þann dag í dag. Hann var sonur merks brautryðjanda í íslenskum verslunarmálum, Þorláks Ó. Johnson, sem flutti hingað til lands ýmsar nýjungar frá Bretlandi. Ólafur dvaldi um tíð í Bandaríkjunum þar sem hann var verslunarerindreki. Hann var stofnandi fyrsta íslenska kvikmyndafélagsins, Ó. Johnson og Co. en hann flutti inn ásamt fleirum fyrstu tækin til kvikmyndasýninga. Ólafur gegndi ýmsum trúnaðarstörfum og var m.a. annar stjórnandi Innkaupanefndar ríkisins. Í formannstíð hans skipti ráðið um húsnæði og flutti í ný húsakynni í húsi Eimskipafélagsins

Hallgrímur Benediktsson
Hallgrímur Benediktsson, 1934-1949

Þriðji formaður ráðsins var Hallgrímur Benediktsson. Hallgrímur fæddist þann 20. júlí árið 1885. Hann var einn af helstu kaupsýslumönnum síns samtíma og kom víða við í stjórnmálum og félagsmlum. Áður en Hallgrímur hóf að stunda viðskipti var hann þjóðkunnur íþróttamaður og glímukappi. Í formennsku Hallgríms var verksið ráðsins mótað í átt til þess sem tíðkaðist í erlendum verslunarráðum. Ennfremur hófust árleg verslunarþing (nú viðskiptaþing) ráðsins í hans stjórnartíð og stendur sú hefð enn. Hallgrímur sat sem formaður ráðsins frá 1934 til 1949 og hefur enginn gegnt formennsku jafnlengi samfleytt.

Eggert Kristjánsson
Eggert Kristjánsson, 1949-1956

Árið 1949 tók við formennsku Eggert Kristjánsson stórkaupmaður. Eggert fæddist 6. október 1897 og var meðal umsvifamestu kaupmanna síns tíma. Hann stofnaði umboðs- og heildverslun árið 1922 og einnig stofnaði hann kexverksmiðjuna Frón ásamt fleirum árið 1926. Hann var formaður Félags íslenskra stórkaupmanna í hátt í tvo áratugi og sat auk þess lengi í stjórn Félags íslenskra iðnrekenda og Vinnuveitendasambands Íslands. Í stjórnartíð Eggerts var haldið uppá aldarafmæli frjálsrar verslunar á Íslandi árið 1955. Við hátíðlega athöfn sem haldin var í Þjóðleikhúsinu af þessu tilefni sagði Eggert m.a.: „Verzlunarstéttin fékk það erfiða hlutskipti að gera einokaða verzlun frjálsa, að gera fábreytta verzlun fjölbreytta, að gera óvinsæla verzlun vinsæla. Verzlunarstéttinni hefur tekist þetta.“

Gunnar Guðjónsson
Gunnar Guðjónsson, 1956-1963

Árið 1956 var Gunnar Guðjónsson skipamiðlari og útgerðarmaður kosinn formaður ráðsins. Gunnar, sem fæddist 26. desember 1909, kom víða við í íslenskum atvinnumálum og stýrði ýmsum fyrirtækjum. Hann var m.a. stjórnarformaður Olíuverslunar Íslands og Sænsk-íslenska frystihússins og sat í stjórn Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar í Reykjavík. Ennfremur var Gunnar fyrsti formaður Stéttarsambands fiskiðnaðarins. Þessi mikla og víðtæka reynsla hefur vafalaust reynst vel í mörgum þeim málum sem til kasta hans komu í stjórn ráðsins. Á þeim tíma er Gunnar sinnti formennsku var m.a. stofnaður Verzlunarsparisjóðurinn (síðar Verzlunarbankinn). Gunnar lét af formennsku árið 1963.

Þorvaldur Guðmundsson
Þorvaldur Guðmundsson, 1963-1965

Þorvaldur Guðmundsson tók við embætti formanns árið 1963. Hann fæddist 9. desember árið 1911. Þorvaldur hefur jafnan verið kenndur við fyrirtæki sitt Síld og fisk sem hann stofnaði árið 1944. Hann kom þó víð við á sínum starfsferli en hann setti m.a. upp rækjuverksmiðjur á Ísafirði og Bíldudal, humarniðursuðuverksmiðju í Vestmannaeyjum og síðar svínabú að Minni-Vatnsleysu. Þorvaldur stofnaði einnig og rak Hótel Holt í Reykjavík og rak árum saman Þjóðleikhúskjallarann. Hann var á sínum tíma formaður bankaráðs Verzlunarbankans, formaður Félags kjötkaupmanna og í stjórn Kaupmannasamtaka Íslands. Fótspora Þorvalds gætir víða í íslenskri viðskiptasögu, enda spannaði ferill hans mörg svið og langan tíma. Þorvaldur lét af embætti formanns ráðsins árið 1965.

Magnús J. Brynjólfsson
Magnús J. Brynjólfsson, 1965-1966

Magnús J. Brynjólfsson tók við embætti sem formaður ráðsins árið 1965. Magnús fæddist 31. ágúst 1899. Eftir nám og störf vestanhafs fluttist hann heim aftur árið 1924 til að vinna við verslun föður síns, Leðurverzlun Jóns Brynjólfssonar, en hún var fyrsta sérverslun landsins með leðurvörur. Árið 1927 tók Magnús yfir rekstur verslunarinnar. Hann hafði einnig látið að sér kveða í menntamálum og var á tímabili formaður skólanefndar Verzlunarskólans. Hann var hvatamaður að stofnun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og fyrsti formaður hans. Hann lét sig miklu varða málefni tengd utanríkisviðskiptum, þá helst í tengslum við verðlags- og tollamál.

Kristján G. Gíslason
Kristján G. Gíslason, 1966-1968

Kristján G. Gíslason var kosinn formaður ráðsins árið 1966. Hann fæddist 5. mars árið 1909. Hann var sonur fyrsta formanns ráðsins, Garðars Gíslasonar. Eftir nám hóf hann störf við fyrirtæki föður síns en árið 1941 stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki. Hann var formaður Félags íslenskra stórkaupmanna og sat í stjórnum ýmissa félaga, m.a. Verzlunarmannafélags Reykjavíkur. Kristján sat einnig í samninganefndum um utanríkisviðskipti, m.a. við Vestur-Þýskaland og Tékkóslóvakíu. Kristján starfaði sem formaður ráðsins til ársins 1968.

Haraldur Sveinsson
Haraldur Sveinsson, 1968-1970

Árið 1968 var Haraldur Sveinsson kosinn formaður ráðsins. Hann fæddist 15. júní árið 1925. Eftir nám hóf Haraldur störf hjá timburversluninni Völundi. Hann varð síðar framkvæmdastjóri þeirrar verslunar en tók svo við sem framkvæmdastjóri Árvakurs hf., útgáfufélags Morgunblaðsins, árið 1968. Haraldur gegndi fleiri trúnaðarstörfum en formennsku í Viðskiptaráði, en hann sat m.a. í sambandsstjórn Vinnuveitendasambands Íslands og var formaður stjórnar Lífeyrissjóðs blaðamanna um árabil. Haraldur var formaður ráðsins til 1970.

Hjörtur Hjartarson
Hjörtur Hjartarson, 1970-1974

Hjörtur Hjartarson tók við formannsembættinu árið 1970. Hjörtur fæddist 6. apríl árið 1915. Hjörtur hóf störf við fyrirtækið J. Þorláksson & Norðmann árið 1939 en hafði áður starfað sem blaðamaður við dagblaðið Vísi. Hjörtur tók síðar við starfi framkvæmdastjóra J. Þorláksson og sat í stjórn fyrirtækisins til ársins 1990. Hjörtur gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum og var m.a. í stjórn og framkvæmdastjórn Krabbameinsfélags Íslands í þrjá og hálfan áratug. Hjörtur var einn aðalhvatamaður þess að Hús Verslunarinnar, núverandi húsakynni ráðsins, var byggt og var formaður bygginganefndar hússins. Hjörtur lét af formennsku ráðsins árið 1974.

Gísli V. Einarsson
Gísli V. Einarsson, 1974-1978

Gísli V. Einarsson var kosinn formaður ráðsins árið 1974. Hann fæddist 14. júní árið 1931. Gísli var tengdasonur Eggerts Kristjánssonar fyrrverandi formanns ráðsins. Eftir nám í Danmörku og Bandaríkjunum starfaði Gísli víða. Hann tók við stöðu framkvæmdastjóra Eggerts Kristjánssonar hf. árið 1966 og gegndi því starfi meðan hann sat sem formaður ráðsins. Síðar stofnaði Gísli fyrirtækið Mata hf. og starfaði sem forstjóri þess. Gísli gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum og var m.a. formaður skólanefndar Verzlunarskólans, í stjórn VSÍ og formaður bankaráðs Verzlunarbankans. Hann átti stóran hlut í sameiningu Verzlunarbankans við Útvegsbanka Íslands, Alþýðubankann og Iðnaðarbankann er þeir sameinuðust undir nafni Íslandsbanka. Gísli var formaður ráðsins til 1978.

Hjalti Geir Kristjánsson
Hjalti Geir Kristjánsson, 1978-1982

Hjalti Geir Kristjánsson settist í formannsstólinn árið 1978. Hann fæddist 21. ágúst árið 1926. Hjalti starfaði lengst af við fyrirtækið Kristján Sigurgeirsson hf., sem hann tók við af föður sínum. Hann var ennfremur stjórnarformaður GKS um árabil. Hjalti sinnti ýmsum trúnaðarstörfum á sínum ferli til viðbótar við aðild sína að ráðinu. Hann er stofnandi FHÍ, félags íslenskra húsgagnaarkitekta, og var formaður þess félags í um áratug. Hann var stjórnarformaður Almennra trygginga hf. í 15 ár og sat í stjórn Félags íslenskra iðnrekenda og Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins. Hjalti Geir lét af störfum sem formaður ráðsins árið 1982.

Ragnar S. Halldórsson
Ragnar S. Halldórsson, 1982-1986

Ragnar S. Halldórsson tók við formannsembættinu árið 1982. Hann fæddist 1. september árið 1929. Ragnar starfaði við ýmis verkfræðistörf og var m.a. framkvæmdastjóri verkfræðideildar hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Eftir að hafa starfað hjá svissneska álfyrirtækinu Alusuisse um tíma tók Ragnar við störfum sem forstjóri ÍSAL. Ragnar mótaði og lagði grunn að uppbyggingu og starfsháttum stóriðju á Íslandi enda álverið í Straumsvík hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Hann varð stjórnarformaður ÍSAL eftir að hann lét af störfum sem forstjóri og gegndi því starfi um árabil. Ragnar var einn af stofnendum Alþjóðaviðskiptaráðsins árið 1993, og sat í stjórn þess í áratug. Hann lét af formannsembætti árið 1986.

Jóhann J. Ólafsson
Jóhann J. Ólafsson, 1986-1992

Árið 1986 tók Jóhann J. Ólafsson við formennsku ráðsins. Hann er fæddur 8. apríl 1935. Jóhann tók við fyrirtækinu Jóhann Ólafsson & Co. af föður sínum. Faðir Jóhanns hafði áður setið í stjórn ráðsins. Jóhann hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum, en hann hefur m.a. setið í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna og í stjórn Félags íslenskra stórkaupmanna. Hann var ennfremur í stjórn Húss Verslunarinnar og formaður stjórnar frá 1983. Jóhann var formaður ráðsins í sex ár og lét af embætti árið 1992.

Einar Sveinsson
Einar Sveinsson, 1992-1996

Einar Sveinsson tók við formannsembættinu árið 1992. Hann fæddist 3. apríl árið 1948. Einar starfaði um árabil hjá tryggingafélaginu Sjóvá-Almennar hf. Þar hóf hann störf sem skrifstofumaður, varð síðar deildarstjóri og að lokum framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Einar sat um árabil í stjórn Glitnis (áður Íslandsbanki) og var stjórnarformaður bankans um langt skeið. Einar hefur gegnt fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum. Hann hefur m.a. setið í stjórn Sambands íslenskra tryggingafélaga og í framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins (sem og framkvæmdastjórn Vinnuveitendasambands Íslands). Einar var ennfremur formaður landsnefndar Alþjóða viðskiptaráðsins (ICC). Hann lét af formennsku sinni fyrir ráðið árið 1996.

Kolbeinn Kristinsson
Kolbeinn Kristinsson, 1996-2000

Árið 1996 var Kolbeinn Kristinsson kosinn formaður ráðsins. Kolbeinn fæddist 11. nóvember árið 1952. Hann kom víða við áður en hann hóf störf sem framkvæmdastjóri Brauðs hf., sem síðar varð Myllan-Brauð en þar tók Kolbeinn við forstjórastarfinu. Hann hefur takið að sér ýmis trúnaðarstörf fyrir verslunarmenn en hann var m.a. í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna um árabil. Kolbeinn var ennfremur formaður Sjálfseignarstofnunar Viðskiptaráðs Íslands um viðskiptamenntun eftir að hann lét af störfum sem formaður VÍ árið 2000.

Bogi Pálsson
Bogi Pálsson, 2000-2004

Bogi Pálsson tók við embætti formanns árið 2000. Hann fæddist 6. desember árið 1962. Bogi var framkvæmdastjóri P. Samúelsson er hann tók við formannsembættinu, en fyrirtækið hafði umboð fyrir Toyota og Lexus bifreiðar. Bogi hefur gegnt stjórnarformennsku hjá fyrirtækinu Flögu Group auk þess að vera stjórnarformaður og aðaleigandi Eignarhaldsfélagsins Stofns. Hann hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum og var m.a. formaður Bílgreinasambandsins í nokkur ár. Bogi var formaður ráðsins til ársins 2004.

Jón Karl Ólafsson
Jón Karl Ólafsson, 2004-2006

Jón Karl Ólafsson settist í formannsstólinn árið 2004. Jón Karl er fæddur 12. september árið 1958. Jón Karl hóf störf hjá Flugleiðum árið 1983 og hefur starfað innan þeirrar fyrirtækjasamsteypu æ síðan. Árið 1999 tók Jón Karl við störfum sem forstjóri Flugfélags Íslands og sex árum síðar gerðist hann forstjóri Icelandair Group. Jón Karl hefur sinnt ýmsum öðrum trúnaðarstörfum og er m.a. núverandi formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Í formannstíð Jóns Karls skipti ráðið um nafn, en það breyttist úr Verzlunarráði Íslands yfir í Viðskiptaráð Íslands. Nýtt nafn þótti endurspegla betur mikla fjölbreytni þeirra fyrirtækja er eiga aðild að Viðskiptaráði. Jón Karl var formaður ráðsins til 2006.

Erlendur Hjaltason
Erlendur Hjaltason, 2006-2009

Erlendur Hjaltason tók við sem formaður ráðsins árið 2006 . Erlendur fæddist 21. nóvember 1957. Hann er sonur Hjalta Geirs Kristjánssonar fyrrum formanns ráðsins. Hann var forstjóri Exista frá árinu 2004 en starfaði jafnframt hjá Eimskip um árabil, meðal annars við að byggja upp starfsemi félagsins erlendis sem framkvæmdastjóri utanlandssviðs. Hann var framkvæmdastjóri Eimskipafélags Íslands frá árinu 2002 til 2004. Erlendur var formaður Viðskiptaráðs til ársins 2009.

Tómas Már Sigurðsson
Tómas Már Sigurðsson, 2009-2012

Tómas Már Sigurðsson, tók við embætti formanns Viðskiptaráðs árið 2009 og gegndi því til ársins 2012. Tómas Már fæddist 1. febrúar 1968. Hann lauk Bs. prófi í byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands og MSc. prófi í skipulagsverkfræði frá Cornell háskóla í Bandaríkjunum. Tómas Már tók við starfi forstjóra HS Orku 2020 en var áður framkvæmdastjóri hjá Alcoa Inc. og þar áður forstjóri Alcoa-Fjarðaáls frá 2004 til 2013.

Hreggviður Jónsson
Hreggviður Jónsson, 2012-2016

Hreggviður Jónsson tók við embætti formanns Viðskiptaráðs árið 2012 og gegndi því til ársins 2016. Hreggviður lauk BA prófi í hagfræði frá Macalester College í St. Paul árið 1987 og MBA gráðu frá Harvard Business School árið 1993. Hreggviður er stjórnarformaður og aðaleigandi Veritas, sem á og rekur fyrirtækin Artasan, Distica, Holdor, MEDOR og Vistor.

Katrín Olga Jóhannesdóttir, 2016-2020

Katrín Olga Jóhannesdóttir varð árið 2016 fyrsta konan til að gegna embætti formanns og gegndi því til ársins 2020. Hún er með Cand. Oecon.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands, M.Sc.-gráðu í viðskiptum frá Odense Universitet og nám í fjármálum fyrirtækja við London Business School. Katrín Olga hefur setið stjórn fjölda fyrirtækja og gegnt margvíslegum stjórnunarstörfum, þar á meðal sem stjórnarformaður og meðeigandi Já hf. og framkvæmdastjóri hjá Símanum.

Ari Fenger, 2020-2024

Ari Fenger tók við embætti formanns árið 2020 og gegndi því til ársins 2024. Hann gekk í Verslunarskóla Íslands og hóf síðan störf sem vörumerkjastjóri hjá Nathan & Olsen. Ari varð síðar forstjóri fyrirtækisins og loks forstjóri móðurfélagsins, 1912 ehf., sem einnig rekur Ekruna og Emmessís.