Látum ekki deigan síga

Það er óhætt að segja að síðustu tvö ár hafi verið ein þau viðburðaríkustu í íslensku efnahagslífi frá stofnun lýðveldis. Í kjölfar mikilla sviptinga á alþjóðlegum fjármálamörkuðum fjaraði undan íslenska bankakerfinu sem að lokum lenti í greiðsluþroti haustið 2008. Þar kom margt til, en auk áðurgreindra aðstæðna á alþjóðamörkuðum er ljóst að áhættusækni banka og viðskiptalífs hafði verið umtalsverð, bankakerfið var of stórt samanborið við hagkerfið, sjálfstæður gjaldmiðill og þensluhvetjandi fjármálastefna gerði vandann enn illviðráðanlegri og að lokum er ljóst að ýmsu var ábótavant í starfi stjórnsýslu og eftirlitsstofnanna.

Í kjölfarið hefur meginverkefni flestra fyrirtækja, heimila og annarra þátttakenda hagkerfisins snúið að því að lágmarka skaðann og leggja grunn að endurreisn hagkerfisins. Starf Viðskiptaráðs Íslands hefur að sama skapi mótast af þessum áherslum. Ásamt því að hafa lagt fram tillögur fyrir stjórnvöld bæði fyrir og eftir fall bankanna þá hefur starfsfólk ráðsins tekið þátt í ýmsum vinnu- og samstarfshópum beint og óbeint tengdum fjármálakreppunni. Auk þessara beinu verkefna hefur almenn starfsemi ráðsins verið löguð að breyttu efnahagsumhverfi með ýmsum hætti.

Reglubundin útgáfa efld
Mikil vinna hefur verið lögð í samskipti við erlenda aðila, t.a.m. fjölmiðla, sendifulltrúa og fjárfesta en samhliða hefur útgáfustarfsemi Viðskiptaráðs á hagnýtu upplýsingaefni á ensku verið aukin til muna. Markmið þeirrar vinnu lýtur fyrst og fremst að því að veita aðildarfélögum aðgengilegar samantektir um hin ýmsu mál sem þeir geta nýtt í samskiptum við erlenda hagsmunaaðila. Reglubundin útgáfa á íslensku var jafnframt efld vegna ástandsins og málefnastarfssemin hefur aldrei verið virkari. Fjöldi funda, útgefinna skoðana og skýrslna hefur verið meiri en nokkurn tíma áður en auk þess hefur ráðið hafið útgáfu á vikulegu fréttabréfi. Málefnavinnan hefur almennt skilað sér vel í umræðuna og verið fylgt eftir með ýmsum hætti.

Þema Viðskiptaþings árið 2009 var í takt við tíðarandann en yfirskrift þess var Endurreisn hagkerfisins: Horft til framtíðar. Á þinginu var lögð áhersla á þá staðreynd að þrátt fyrir yfirstandandi fjármálakreppu og þau mistök sem áttu sér stað í aðdraganda hennar gilda almenn lögmál hagfræðinnar enn á Íslandi. Í því samhengi var rætt um aðkomu hins opinbera að atvinnurekstri, stöðu ríkisfjármála og heppilegt umfang opinberrar þjónustu, mikilvægi athafnafrelsis og alþjóðlegra viðskipta auk fjölda annarra mála. Þá var bent á helstu hætturnar sem fylgja erfiðum fjármálakreppum en þar ber helst að nefna varanlegan flótta fólks og fjármagns.

Rekstrar- og skattaumhverfi íslenskra fyrirtækja
Á Viðskiptaþingi ársins 2010 var síðan lögð áhersla á hagnýt úrlausnarefni fremur en hugmyndafræðilega stefnu stjórnvalda. Þrátt fyrir að ýmislegt hafi færst til betri vegar undanfarið ár er ljóst að rekstrarumhverfi fyrirtækja hefur sjaldan verið verra. Þá hefur almennum lífskjörum hrakað hratt. Við þessu þarf að sporna. Í ár var yfirskrift þingsins Er framtíð fyrir íslenskt atvinnulíf? - Samkeppnishæfni og rekstrarumhverfi og vísaði til þess erfiða rekstrar- og skattaumhverfi sem nú blasir við íslenskum fyrirtækjum og hversu líklegt megi telja að hér muni þrífast öflug og blómleg fyrirtæki til framtíðar.

Yfirstandandi erfiðleikar eru til þess að læra af þeim. Það má þó ekki láta efnahagsörðugleika verða til þess að kreddur um ágæti efnhagslegrar einangrunar, haftastefnu í alþjóðaviðskiptum, verulegra opinberra afskipta eða tortryggni í samskiptum við útlendinga njóti hljómgrunns innan samfélagsins. Við viljum ekki að storminum fylgi algjört logn. Þrátt fyrir að vissulega væri óskandi að hér ríkti meiri festa í efnahagsmálum má ekki rugla stöðugleika saman við stöðnun og afturhvarf. Stór hluti af þeim breytingum sem átt hafa sér stað í íslensku samfélagi undanfarna áratugi hafa verið jákvæðar og stóreflt hér lífsgæði.

Lærum af mistökunum
Í stað þess að við taki logn eigum við að nýta þá sterku innviði sem eru til staðar til að skapa meðbyr. Mannauður, náttúruauðlindir, einkaframtak, einfalt skattkerfi, virk utanríkisviðskipti, alþjóðleg samvinna og innlend samstaða eru lykilatriði í því samhengi. Það er þekkt orðatiltæki að brennt barn forðist eldinn og vissulega á það í einhverjum skilningi við í kjölfar þeirra erfiðleika sem nú er við etja. Þeir mega þó ekki verða til þess að sá eldmóður sem hefur einkennt Íslendinga í gegnum tíðina hverfi og við taki stöðnun, afturhaldssemi og forsjárhyggja.

Árin fyrir hrun reyndu viðskiptalíf og fjárfestar að ná miklum árangri án samsvarandi erfiðis og tóku þar af leiðandi óþarflega mikla áhættu. Af slíkum mistökum þarf að læra. Nú dugar ekkert annað en að láta hendur standa fram úr ermum og vinna hörðum höndum að því að endurreisa íslenskt hagkerfi. Viðskiptaráð mun áfram taka þátt í því starfi með rýni, hugmyndavinnu og hagnýtum tillögum með það að markmiði að hér verði byggt heilbrigt og kraftmikið samfélag þar sem lífskjör verða með besta móti.

Látum ekki deigan síga!
Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Tengt efni

Hagsmunamál að fæla ekki burt erlenda fjárfestingu

Umsögn Viðskiptaráðs um áform um lagasetningu um rýni á erlendum fjárfestingum ...
10. júl 2022

Erlend fjárfesting - nei, takk?

Leggja þarf áherslu á að afnema hindranir og liðka fyrir erlendri fjárfestingu
4. júl 2022

Ísland eftirbátur í beinni erlendri fjárfestingu

Erlend fjárfesting í ólíkum myndum getur haft jákvæð áhrif og aukið samkeppni á ...
17. mar 2021