Ábyrgð Viðskiptaráðs

Í rúm 93 ár hefur Viðskiptaráð Íslands tekið virkan þátt í umræðu um íslenskt atvinnulíf og þá umgjörð sem því er búin. Skýr grunngildi, sem meitluð eru í lög ráðsins, hafa vísað veginn. Þau fela í sér framtíðarsýn um öflugt atvinnulíf byggt á framtaki einstaklinga, lágmörkun ríkisrekstrar, kröftugum markaðsbúskap og alþjóðlegri samkeppnishæfni. Þessi gildi leggja grunn að verðmætasköpun atvinnulífsins og góðum lífskjörum á Íslandi.

Áherslur í starfi
Í langri sögu Viðskiptaráðs hafa störf þess endurspeglað þessi grundvallarsjónarmið. Frá upphafi og fram undir lok síðustu aldar var mælt fyrir afnámi þeirra hafta sem hér ríktu á mörgum sviðum atvinnulífsins, t.d. á innflutningi og gjaldeyrisviðskiptum. Jafnframt var barist fyrir opnun hagkerfisins, aukinni fjölbreytni atvinnulífs, einföldun skattkerfis, alþjóðavæðingu og minni þátttöku ríkisins í atvinnurekstri. Á þessum árum var í raun tekist á um tilverurétt atvinnulífs sem drifið yrði áfram af krafti framtakssamra einstaklinga, að sumu leyti ekki ólíkt því sem aftur virðist þörf á nú.

Samhliða því að tala fyrir bættri umgjörð atvinnulífs lét Viðskiptaráð sig varða innviði þess. Þar má nefna almenna starfshætti, mótun agaðra vinnubragða og bætta lagalega umgjörð er laut að samningagerð, samkeppni, félagaformum og reglum um gjaldþrot. Bætt lánaviðskipti og skilvirkari fjármálamarkaðir voru einnig ofarlega á stefnuskrá. Síðast en ekki síst hefur Viðskiptaráð frá stofnun lagt áherslu á mikilvægi menntunar sem einnar grunnforsendu öflugs atvinnulífs og sýnt þá sannfæringu í verki með stuðningi við rekstur menntastofnana, bæði á framhalds- og háskólastigi. Að baki öllu starfi Viðskiptaráðs liggur sú hugsun að athafnafrelsi atvinnulífs, sem ráðið kallaði eftir í starfi sínu, væri grundvallað á heiðarlegum og heilbrigðum viðskiptaháttum.

Vatnaskil í lok síðustu aldar
Undir lok síðustu aldar hafði margt færst til betri vegar í íslensku samfélagi og viðskiptaumhverfi. Hagkerfið opnaðist fyrir erlendum áhrifum og tengdist margfalt stærri markaði í Evrópu. Virk kauphöll komst á laggirnar, fyrirtæki hurfu úr forsjá hins opinbera, skattkerfið var orðið samkeppnishæft við það sem best gerðist, erlendir fjármagnsmarkaðir opnuðust og háskólaumhverfið tók stakkaskiptum. Í þessu umhverfi breyttust áherslur í starfi Viðskiptaráðs og sérstaklega var horft til þeirra tækifæra sem nýtt og breytt umhverfi atvinnulífs skapaði.

Gagnrýni á störf Viðskiptaráðs
Margir samverkandi þættir stuðluðu að ofvexti íslenska fjármálakerfisins sem endaði með ósköpum á haustmánuðum 2008. Í því hugarfari sem ráðandi var í aðdraganda bankahrunsins er ljóst að margir tóku gagnrýnislítið þátt í að hér varð til kerfi sem ekki tókst að vinda ofan af nema með þeim alvarlegu afleiðingum sem nú eru öllum kunnar. Viðskiptaráð Íslands hefur ekki farið varhluta af gagnrýni á störf þess og áhrif á því tímabili. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er ágæt grein gerð fyrir þessari gagnrýni sem snýr að nokkrum meginatiðum: a) Skýrslum um fjármálakerfið frá árunum 2006 og 2007, b) meintum áhrifum á ákvarðanir löggjafans, c) áherslu á sjálfsprottnar reglur atvinnulífs, d) ofmetnaði í útgáfustarfsemi og e) stuðningi við innihaldslítinn ímyndaráróður.

Fjallað um gagnrýni í nýrri útgáfu
Ítarlega er fjallað um þessi atriði í nýrri Skoðun, sem birt er hér á heimasíðu ráðsins undir yfirskriftinni Ábyrgð Viðskiptaráðs. Þar er tekið undir að ofangreind gagnrýni hafi því miður of oft átt við rök að styðjast, þó að í einhverjum tilvikum hafi hún byggst á misskilningi. Heilt yfir má segja að nýju umhverfi atvinnulífs og auknum hraða hefðu átt að fylgja meiri kröfur um gagnsæi, góða stjórnarhætti og samfélagslega ábyrgð stjórnenda. Hér hefði Viðskiptaráð átt að beita sér af meiri ákveðni, í samræmi við fyrri störf.

Uppgjör nýtt til umbóta
Mikilvægt er að í starfi samtaka á borð við Viðskiptaráð fari fram heilbrigð og hreinskiptin skoðanaskipti og því fagnar ráðið málefnanlegri og rökstuddri gagnrýni á störf þess. Frá hruni hefur slík gagnrýni, sem einnig hefur verið sterk innan ráðsins, verið nýtt til töluverðrar endurskoðunar á störfum þess. Má þar m.a. nefna: a) Nýjar og mun viðameiri leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja og væntanlegar úttektir á því sviði, b) breytt fyrirkomulag stjórnarkjörs, þar sem vægi minni og meðalstórra fyrirtækja er aukið, c) skipan þriggja nýrra stjórnarnefnda, sem fjalla um sjálfbærni atvinnulífs, efnahagsmál og nýsköpun, d) aukna aðkomu stjórnar að innra starfi, t.a.m. vinnulagi við útgáfu og e) umbótaþing Viðskiptaráðs sem haldið var vorið 2010.

Stjórn Viðskiptaráðs mun halda áfram á braut umbóta í starfi ráðsins. Mestu skiptir þó að Viðskiptaráð stuðli að því að íslenskt atvinnulíf tileinki sér til frambúðar stjórnarhætti eins og þeir verða bestir, samhliða því sem tækifæri til sóknar verði nýtt á ábyrgan hátt. Þannig axla Viðskiptaráð og atvinnulífið í heild ábyrgð á þeim mistökum sem urðu í aðdraganda hruns bankanna.

Kapp er best með forsjá
Reynslan sýnir að í uppbyggingu atvinnustarfsemi er kapp best með forsjá. Að því sögðu þá er einnig eðlilegt að draga lærdóm af reynslu Íslands af höftum og þeirri víðtæku opinberu íhlutun sem hér var áður við líði. Mikilvægt er að viðbrögð við efnahagshruninu feli ekki í sér afturhvarf til þess tíma. Vel skipulagður, agaður markaðsbúskapur á grunni athafna framtakssamra einstaklinga mun varða leið út úr núverandi efnahagskreppu. Með bættum innviðum atvinnulífs mun slík áhersla skapa tækifæri til verðmætasköpunar og búa Íslendingum áfram lífskjör í fremstu röð.

Að þessu munu störf Viðskiptaráðs miða næstu misserin og verða afurðir þeirrar vinnu m.a. kynntar á Viðskiptaþingi í febrúar. Málefnastarf Viðskiptaráðs er hins vegar ekki óumdeilt og er ekki til þess ætlast. Stjórn og aðstandendur Viðskiptaráðs leggja engu að síður ríka áherslu á að sem fyrr sé hlutverk ráðsins að stuðla að bættum lífskjörum á Íslandi með dyggri samvinnu atvinnulífs og heimila. Með þeirri samvinnu nýtast þau fjölmörgu tækifæri þjóðarinnar sem byggjast á hugviti, reynslu og auðlindum landsins. Í því liggja lífsgæði til framtíðar.

Eftir Tómas Má Sigurðsson formann Viðskiptaráðs Íslands og Eggert Benedikt Guðmundsson varaformann. Greinin birtist í Morgunblaðinu 19.janúar 2011.

Tengt efni

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Dauða­færi ríkis­stjórnarinnar til að lækka vaxta­stig

Viðureignin við verðbólguna er nú eitt brýnasta verkefnið á vettvangi ...
7. jún 2023

Hæpnar forsendur og ósjálfbær útgjaldavöxtur

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023
12. okt 2022