Burðugt atvinnulíf - betri kjör

Hagstofan hefur nú birt tölur yfir gjaldþrot fyrirtækja á síðasta ári og staðfest þar með grun margra um að endurskipulagningarferlið er of skammt á veg komið. Horfandi á tölur um gjaldþrotamet og nýlega úttekt Creditinfo á alvarlegri stöðu fyrirtækja á landsbyggðinni eru tækifæri til bjartsýni vandfundin. Þá verður seint sagt að þessi vandi hafi aðeins áhrif á viðkomandi fyrirtæki. Þvert á móti þá gætir áhrifanna þvert yfir atvinnulíf og hagkerfi. Frekari tafir á umsvifum sem styðja við vöxt hagkerfisins hafa margfeldisáhrif til framtíðar með enn rýrari horfum á bættum lífskjörum.

Hægt er að tiltaka fjölda ástæðna fyrir þessari stöðu og afleiðingum hennar. Torsótt hefur reynst að koma á sæmilega virku fjármálakerfi eftir hrun, mörg fyrirtæki höfðu reist sér hurðarás um öxl í vexti og skuldsetningu, stjórnvöld hafa vegið að vaxtargrundvelli fyrirtækja með óhóflegum skattahækkunum og röngum hvötum, enn ber á tortryggni erlendra aðila og fælni við áhættu og ákvarðanatöku er orðin of mikil. Fyrir vikið þurfa nú nokkur þúsund fyrirtæki aðstoð, fjölmörg hafa því miður farið í þrot, birgjar misst viðskiptavini, kröfuhafar og hluthafar tapað fé sínu og starfsfólk lækkað í launum eða misst atvinnu sína. Þetta verður þess valdandi að tekjur ríkisins hríðfalla og því þarf að lækka laun, draga úr rekstrarkostnaði stofnana og sækja enn dýpra í vasa skattgreiðenda. Þetta er eitt hringtorg hagsmuna - þar sem núna er ekið í vitlausa átt!

Af þessari stuttu upptalningu má sjá að efnahagslægðin sem slík er tiltölulega einfalt ferli, ef svo má kalla, þó að hún taki á sig margvíslegar myndir. Orsakasamhengið er skýrt og áhrifin á alla aðila samfélagsins sömuleiðis. Þessi samtenging hagsmuna innan hagkerfisins gerir það að verkum að úrvinnsla á skuldavanda fyrirtækja má ekki dragast lengur en orðið er. Það eru hagsmunir allra að umsvif aukist með því að fyrirtæki og einstaklingar standi á ný að fjárfestingu og verðmætasköpun. Jákvæð áhrif þess munu fara sömu leiðir í gegnum hagkerfið og neikvæðu hliðar efnahagsumrótsins - þannig munu allir vinna. Að þessu verður að huga í komandi kjarasamningum þar sem hætt er við að kjarabætur verði hverfular án atvinnulífs sem getur borið þær til lengri tíma. Nú þarf a.m.k. tvennt til svo verði, annars vegar þurfa stjórnvöld að láta af því að halda grunnatvinnuvegum samfélagsins í óvissu og hins vegar þurfa fjármálastofnanir að bretta hressilega upp ermarnar.

Eftir Tómas Má Sigurðsson formann Viðskiptaráðs Íslands. Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 29. janúar 2011.

Tengt efni

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
21. feb 2024

Lífstílsverðbólga stjórnvalda

Lækning lífstílsvanda stjórnvalda er tiltekt og forgangsröðun í útgjöldum ...
23. okt 2023