Trúverðugleiki á kostnað endurreisnar?

Nýlega gaf peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands það út að hugsanlega yrðu vextir hækkaðir á næstunni. Umrædd yfirlýsing kemur að mörgu leyti spánskt fyrir sjónir miðað við núverandi árferði í efnahagslífinu. Framleiðsluslaki hefur nær aldrei mælst meiri, atvinnuleysi er langt umfram það sem eðlilegt getur talist, fjárfesting er sú lægsta í Íslandssögunni og verðbólgan er að stærstum hluta innflutt og utan seilingar Seðlabankans. Raunar bendir Seðlabankinn á þetta sjálfur í nýlegri greinargerð þar segir m.a. að: „Seðlabankinn [hefur] talið meginorsakir vaxandi verðbólgu vera þætti sem eru ýmist tímabundnir eða utan áhrifasviðs peningastefnunnar." Þrátt fyrir það hefur peninganefndin breytt tóni yfirlýsinga sinna frá því að telja líklegra að vaxtalækkanir muni fylgja í að hækkanir gætu verið í kortunum. Þetta er mikið áhyggjuefni, eins og fram hefur komið bæði hjá fulltrúum atvinnulífs og meðlimum peningastefnunefndar.

En verðbólga er farin að láta á sér kræla og ekki ósennilegt að hún muni aukast þegar líður á árið. Vandi Seðlabankans felst í því að takmörkuð tiltrú á bankanum gerir honum (a.m.k. út frá hefðbundnum sjónarmiðum) erfiðara um vik að beita sér gegn verðbólgu með aðferðum sem henta í núverandi ástandi efnahagslegrar stöðnunar. Engu að síður er augljóst að veruleg þversögn felst í því að líta svo á að vaxtahækkun við núverandi aðstæður yrði til að auka trúverðugleika Seðlabankans. Með öðrum orðum, þá getur það ekki verið trúverðugleika seðlabanka nokkurs lands til framdráttar ef aðgerðir hans veikja og seinka efnahagsbata úr kreppuástandi.

Íslensk fyrirtæki glíma nú við margvíslegar og þungar byrðar sem rekja má t.a.m. til nýlegra kjarasamninga, yfirdrifinna skattahækkana, hruns í eftirspurn og tafa á endurskipulagningu skulda. Allt hefur þetta hamlað bata hagkerfisins og stjórnendur eru almennt svartsýnir á rekstrarhorfur næstu mánaða. Vaxtahækkun við þessar aðstæður, sem litlar eða engar líkur eru á að muni slá á verðbólgu, mun aðeins auka byrðar atvinnulífsins og heimila og trúverðugleiki Seðlabanka Íslands myndi rýrna að sama skapi.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs
Greinin birtist í Fréttablaðinu miðvikudaginn 13. júlí 2011

Tengt efni

Skilvirkni og hagkvæmni til lausnar á vanda heilbrigðiskerfisins

Það er mat Viðskiptaráðs að leggja skuli áherslu á að auka hagkvæmni og ...
3. sep 2021

Það er efnahagslífið, kjáninn þinn

Vonandi farnast ríkisstjórn næstu fjögurra ára vel við að treysta undirstöður ...
29. sep 2021

90% af hagkerfinu í lagi? Frekar 10%

Færri störf, minni fjárfesting og minni verðmæti í langflestum atvinnugreinum
9. apr 2021