Raunsær AGS?

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) var nýlega stödd hér vegna sjöttu og síðustu endurskoðunar á efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og sjóðsins. Í kjölfarið sendi nefndin frá sér yfirlýsingu um framgang áætlunar sinnar og stöðu efnahagsmála hérlendis. Þar kveður við jákvæðan tón um endurreisnarstarfið, að fjármálageirinn sé að komast á fætur og fjárhagsleg endurskipulagning heimila og fyrirtækja sé farin að ganga vel.

Það er vel að opinber viðhorf matsaðila, sérstaklega AGS, séu með þessum hætti og vissulega hefur miðað í rétta átt. Annað væri nánast óhugsandi. Í yfirlýsingu AGS kemur reyndar fram að nokkur mál hafa þróast til verri vegar. Þar er m.a. nefnt að gjaldmiðillinn hafi veikst og verðbólga aukist og mögulega sé því tilefni til frekara aðhalds Seðlabankans í formi vaxtahækkana. Ekki þarf annað en að reifa viðfangsefnin sem framundan eru til að draga fýsileika frekara peningalegs aðhalds í efa. Þar má m.a. nefna slakar hagvaxtarhorfur, halla á ríkisfjármálum, þunga stöðu atvinnulífs almennt og óvissu um lykilatvinnugreinar. Þessi viðfangsefni gefa einnig tilefni til gagnrýni á yfirlýsingu AGS nú.

Hagvöxtur og lífskjör
Það markar tímamót að nú horfir til þess að hagkerfið stækki á árinu frekar en að það dragist saman eins og undanfarin ár. Í yfirlýsingu AGS er því spáð að hagvöxtur verði 2,5% á árinu. Varasamt er þó að hampa þeim (vænta) árangri um of því í samanburði við aðrar þjóðir telst vöxturinn afar veikur og það vekur nokkra furðu að slíkt samhengi sé ekki dregið fram af AGS nú. Samkvæmt langtímaspá sjóðsins sjálfs (sjá World Economic Outlook) frá í apríl eru hagvaxtarhorfur einna dekkstar hérlendis, en gert er ráð fyrir 0,8% meðalvexti á árunum 2008-2016. Þetta er níundi lakasti árangurinn af 183 löndum og niðurstaðan breytist lítið ef eingöngu er horft til áranna eftir hrun, þ.e. 2010 til 2013, þegar eftirköst kreppunnar ættu að vera komin fram. Þar sem hagvöxtur og kaupmáttur fylgjast almennt að stefnir að óbreyttu í að lífskjör á Íslandi rýrni áfram í samanburði við aðrar þjóðir. Slíkt telst varla viðunandi.

Markmið ríkisfjármála í hættu
Sjálfbærni ríkisfjármála er ein af meginþáttum í viðsnúningi og endurreisn hagkerfisins eftir bankahrunið. Það er því athyglisvert að í yfirlýsingu AGS er reifaður sá möguleiki að hægt verði á aðlögun í fjármálum hins opinbera á næstu árum. Þessa hugmynd má skoða í ljósi nýgerðra kjarasamninga og þeirrar staðreyndar að í fjárlagafrumvarpi þessa árs var hvorki gert ráð fyrir launahækkunum opinberra starfsmanna né hækkun bóta. Hvort tveggja er þó raunin og því ólíklegt að markmið um afgang af frumjöfnuði þessa og næsta árs nái fram að ganga. Þetta eru veikleikamerki í áætlun stjórnvalda um opinber fjármál og yfirlýsing AGS nú hljómar líkt og fyrirfram réttlæting þess að markmið fjárlaga næstu ára muni ekki nást.

Erfið staða atvinnulífs
Að auki er ástæða til að hafa frekari áhyggjur af stöðu atvinnulífs almennt en AGS virðist gera. Töluverð óvissa er um framtíð mikilvægra atvinnugreina og allar búa þær við afleiðingar hringlanda í skattalöggjöf og reglusetningu síðustu missera. Af nýlegri úttekt Samkeppniseftirlitsins má svo sjá að fáir deila þeirri skoðun AGS að fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja ganga vel. Eftirspurn er enn af skornum skammti og því eru margir uggandi yfir getu fyrirtækja til að standa undir launahækkunum síðustu kjarasamninga. Í raun eru þegar merki þess að þær leiði til samdráttar í atvinnustarfsemi, verðhækkana og aukinnar verðbólgu. Það kemur því ekki  á óvart, sem sjá má í nýlegri könnun SA, að væntingar stjórnenda íslenskra fyrirtækja um rekstrarumhverfi næstu mánaða hafa sjaldan verið lakari.

Raunsæ skilaboð við hæfi
Þessir skuggar umfangsmikilla vandamála vofa enn yfir íslensku efnahagslífi. Ýmislegt hefur þó þróast til betri vegar og því er sjálfsagt að halda til haga eins og AGS gerir. Viðsnúningur er að verða í hagkerfinu sem skilar sér í veikum efnahagsbata á næstu árum. En þó bjartsýni sé almennt heillavænlegra viðhorf en svartsýni þá verður sýn þeirra sem leika lykilhlutverk í endurreisn hagkerfisins, sérstaklega AGS og stjórnvalda, að vera raunsæ og byggja á efnislegu mati á þróun og horfum allra þátta endurreisnarinnar. Ekki eingöngu þeirra sem taldir eru hafa þróast til betri vegar.
 
Bjartsýni AGS nú kemur því mörgum spánskt fyrir sjónir og færa má rök fyrir því að sýn sjóðsins á íslenskt efnahagsumhverfi og framgang áætlunar sinnar sé ögn bjöguð. Eðlilegt hefði verið að fjalla einnig um hættu- og veikleikamerki sem taka þarf á til að hraða viðsnúning hagkerfisins. Þar liggja verkefnin sem athyglin má ekki kvika frá. Það kann að skýra áherslur í yfirlýsingunni að AGS er það mikilvægt að samstarf við íslensk stjórnvöld gangi vel og að þau skilaboð komist skýrt til umheimsins. Spurningar vakna hinsvegar um hvort skilaboðin séu nægilega raunsæ.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu þann 14. júlí 2011

Tengt efni

Engan ærsladraug í Karphúsið

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, fer yfir stöðu mála í kjaraviðræðum aðila ...
29. jan 2024

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023