Arðrán eða ávinningur?

Þótt þjóðir heims séu ólíkar um margt eigar flestar eitt sameiginlegt - að leggja mikið upp úr því að laða til sín beina erlenda fjárfestingu. Ísland er eitt þessara landa, en í samstarfsyfirlýsingu núverandi stjórnarflokka kemur fram að til að unnt sé að ná góðum og jöfnum hagvexti þurfi m.a. að stuðla að beinum erlendum fjárfestingum. Þannig er þetta í öllu falli í orði.

Það skýtur því skökku við hvernig umræða hérlendis um erlenda fjárfestingu virðist iðulega enda í öngstræti, ekki síst á vettvangi stjórnmála. Erlendir fjárfestar geti tæpast haft áhuga á fjárfestingu eða annarri þátttöku í atvinnustarfsemi á Íslandi nema annarleg sjónarmið liggi að baki og hugmyndir um arðrán eða verri tilgang svífa yfir vötnum. Það þarf kannski ekki að undra að hörgull sé á fjárfestingu.

Ísland þarf fjárfestingu
Landsframleiðsla ákvarðast af stigi neyslu í samfélaginu, fjárfestingu og út- og innflutningi. Kaupmáttur og lífskjör ráðast svo að miklu leyti af vexti landsframleiðslu, hagvexti. Vegna þess hve fjárfesting ræður miklu um landsframleiðslu má segja að ef halda á uppi lífsskjörum þá er fjárfesting mikilvæg. Með öðrum orðum, Ísland þarf á fjárfestingu að halda til að viðhalda lífskjörum og því velferðarsamfélagi sem við höfum vanist.

Það sama gildir um erlenda fjárfestingu? Almennt má segja að fjárfesting í þekkingu, tækni, uppbyggingu framleiðslugetu eða fasteignum til atvinnustarfsemi jafngildir fjárfestingu í framtíð verðmætasköpunar, atvinnusköpunar og bættra lífskjara. Til viðbótar því að leggja fram fjármagn getur svo frekari hagur verið af aðkomu erlendra fjárfesta. Í fyrsta lagi fylgir þeim gjarnan þekking sem ekki er til staðar í viðkomandi landi en er þar vel nýtanleg, t.d. á bestu vinnubrögðum í tiltekinni atvinnugrein, vöruþróun, viðskiptatengslum eða markaðsmálum. Í öðru lagi getur aðkoma erlendra fjárfesta hliðrað skattgreiðendum viðkomandi lands (eða einkaaðilum) frá áhættu sem felst í stórum og dýrum verkefnum. Hér er nærtækt að nefna að Ísland hefði tæpast lagt í þá viðamiklu uppbyggingu á orkuinnviðum, sem nú telst eitt af fjöreggjum þjóðarinnar, ef ekki hefði notið við erlendrar fjárfestingar í uppbyggingu álframleiðslu. Að sama skapi er ósennilegt að mikið verði úr áhættusömum fyrirætlunum um olíuvinnslu á íslensku landgrunni án aðkomu erlendra fjárfesta.

Staðan er ekki góð
Þau jákvæðu tímamót verða væntanlega á þessu ári að hagkerfið hættir að dragast saman og fer að stækka. Hagvaxtarhorfur eru hins vegar ekki góðar og Ísland er meðal þeirra landa sem reka lest um 180 landa í spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (World Economic Outlook) um þróun hagkerfa heims til 2016.

Þessi spá AGS er einfaldlega of dökk til að Íslendingar sætti sig við að hún verði að veruleika. Stig fjárfestingar gefur hins vegar ekki nægilegt tilefni til bjartsýni. Sem hlutfall af landsframleiðslu nam fjárfesting 13% á árinu 2010 og hefur ekki áður mælst minni. Þessar tölur þurfa reyndar ekki að koma á óvart þegar horft er til hversu hægt gengur að vinna úr skuldum heimila og fyrirtækja og í ljósi óvissu um framtíðar rekstrargrunn lykilatvinnugreina í íslensku atvinnulífi. Hluta þess vanda geta stjórnvöld reyndar auðveldlega leyst ef viljinn er fyrir hendi.

Hagur beggja er mögulegur
Fjárfestar, íslenskir og útlendir, sækjast eftir heilbrigðri ávöxtun fjármuna og óþarfi að gera sér grillu um annað. Slík ávöxtun er möguleg hérlendis og byggir m.a. á óspilltri og víðáttumikilli náttúru, hreinu vatni, umhverfisvænum orkuuppsprettum, auðlindum sjávar, góðum samfélagslegum innviðum og ágætlega menntuðu, skapandi og duglegu fólki. Það er verkefni stjórnvalda að tryggja að umgjörð um fjárfestingu sé með þeim hætti að hagur fjárfesta og hagur íslensks samfélags sé tryggður. Umgjörðin ætti að vera sanngjörn og gagnsæ og hvorki háð duttlungum stjórnmálamanna né því frá hvaða landi fjárfestir kemur, frekar en litarhætti eða hvers kyns hans er. Í þessu sambandi er ágætt að hafa í huga að áður en fjárfestar geta haft peningalegan ávinning af sinni fjárfestingu, þá þurfa þeir að borga laun, kaupa aðföng af ýmsu tagi, greiða fyrir afnot af auðlindum, borga skatta, o.s.frv.

Hagur erlendra fjárfesta felst í samstarfi um nýtingu ofangreindra styrkleika Íslands í sátt við umhverfi og þjóð. Í því samstarfi felst jafnframt hagur Íslendinga, að taka þátt í heilbrigðum viðskiptum, þar sem báðir aðilar leggja eitthvað af mörkum og báðir hafa hag af.

Væri það svo slæmt?
Samkvæmt úttekt OECD er Kína eina landið sem er með meiri takmarkanir á erlendri fjárfestingu en Ísland. Mat tryggingarfyrirtækisins Aon er á sömu nótum, að hvergi meðal vestrænna ríkja er talið áhættusamara að fjárfesta en hérlendis. Ef markmiðið er raunverulega að laða að beina erlenda fjárfestingu er ljóst að gera þarf betur. Þar mætti, svo eitthvað sé nefnt, líta til skattkerfis, gjaldmiðils og peningastefnu, almenns rekstrarumhverfis, aðkomu stjórnmálamanna að ákvörðunartöku og skilvirkni stjórnsýslu. En við gætum líka byrjað á því að taka fyrstu hugmyndum um erlend fjárfestingarverkefni með öðrum hætti en gjarnan tíðkast. Til dæmis mætti horfa til þess með stolti og jákvæðni að einhver hafi áhuga á að byggja upp atvinnustarfsemi hér frekar en í öðrum löndum. Væri það svo slæmt?

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu fimmtudaginn 22 september 2011

Tengt efni

Fyllt upp í fjárlagagatið

Ef ríkisfjármálin voru á ystu nöf við fjárlagafrumvarpið má velta því upp hvort ...
17. des 2020

Maastricht sem leiðarvísir

Það er lítt umdeilt að framtíðarstefna í peninga- og gjaldmiðilsmálum muni ráða ...
10. sep 2012

Lokaverkefni vinnuvikunnar?

Undanfarin ár hefur Viðskiptaráð hvatt fyrirtæki til að skila ársreikningum ...
5. okt 2012