Eignaskattur og trúverðugleiki

Það er stjórnvöldum á hverjum tíma mikilvægt að til þeirra sé borið traust og því leggja þau almennt töluvert upp úr því að skapa trúverðugleika um störf sín og stefnu. Fátt er mikilvægara viðleitni af þessu tagi, en að orð og athafnir fari saman, þ.e. að stjórnvöld geri það sem þau segjast ætla að gera.

Í frumvarpi til tekjuöflunar ríkisins sem var lagt fram í desember 2009 var boðaður nýr eignaskattur, svonefndur auðlegðarskattur, 1,25% sem lagður var á eignir einstaklinga yfir 90 milljónum og hjóna yfir 120 milljónum. Í greinargerð með frumvarpinu og í umræðum þar sem fyrir því var mælt var áhersla lögð á eignaskatturinn væri tímabundin ráðstöfun til þriggja ára, 2009 til 2011 (álagning 2010 til 2012).

Í fjárlögum fyrir árið 2011 var eignaskatturinn svo hækkaður í 1,5% og fríeignamark lækkað. Í þeim fjárlögum  sem nú liggja fyrir vegna næsta árs er eignaskatturinn gerður þrepaskiptur og enn hækkaður, í 2% á eignir umfram 150 milljónir hjá einstaklingum og 200 milljónir hjá hjónum. Þar kemur einnig fram að til viðbótar álagningu auðlegðarskatts fyrir árin 2009 til 2011 verður skatturinn framlengdur um tvö ár og skal „ljúka við álagningu 2015“.

Ítrekað hefur verið fjallað um skaðleg áhrif auðlegðarskattsins, en hér er látið nægja að vísa til fyrri umfjöllunar Viðskiptaráðs.  Einnig mætti gera alvarlegar athugasemdir við sanngirni skattlagningar sem í raun felur í sér eignaupptöku, þ.e. að skattlagningin nemur meira en 100% þeirra tekna sem eignirnar mynda. Til að setja 2% auðlegðarskatt í samhengi má benda á að raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða  á árunum 2001 til 2010 var að meðaltali 1,6%, sem er töluvert undir efsta þrepi auðlegðarskatts næsta árs samkvæmt frumvarpi fjármálaráðherra.

Efni er til að ræða þessi vandamál í mun meiri smáatriðum en hér er gert, en það bíður betri tíma. Hinsvegar stendur upp úr holur hljómur í loforðum stjórnvalda um tímabundnar skattaálögur þegar þau hafa með fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár gengið á bak fyrri orða sinna um sama efni. Með því stóraukast líkurnar á að skaðleg áhrif álagningar auðlegðarskatts komi fram. Þeir eru ófáir sem sættu sig við eignaupptökuna sem felst í auðlegðarskattinum í takmarkaðan tíma. Nú þegar ljóst er að ekki er mark takandi á fyrirheitum stjórnvalda um tímabil skattlagningarinnar mun einhverja þrjóta örendið og kjósa að greiða skatta í annari lögsögu en þeirri íslensku. Af því getur hlotist skattasparnaður sem er langt umfram kostnað þess að halda heimili annarstaðar en á Íslandi. Um leið myndast gat í opinber fjármál sem brúa þarf með öðrum hætti, líklega enn þyngri skattlagningu á þá sem heima sitja.

Sýnu alvarlegra er þó að þegar orð og athafnir fara ekki saman, þá hverfur traust eins og dögg fyrir sólu. Um leið skerðist geta stjórnvalda til að fylgja eftir þeim erfiðu málum sem hvarvetna blasa við.  Það ætti að vera stjórnmálamönnum umhugsunarefni við afgreiðslu þingmáls númer 195, frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Um annarra manna fé

Fyrir hverja krónu sem heimili og fyrirtæki verja samanlagt, eyðir hið opinbera ...
14. apr 2024

Jón er hálfviti

Það er þetta með fólkið í opinberri umræðu sem elskar afgerandi lýsingarorð og ...
24. feb 2023

Reiðir pennar

Haukur Viðar Alfreðsson, doktorsnemi í skattahagfræði, segir Viðskiptaráð fara ...
15. sep 2022