Af Íslandsálagi

Í gjaldmiðilsumræðunni er gjarnan farið um víðan völl, en oft fer forgörðum að meta kosti og galla ólíkra valmöguleika hvað varðar áhrif þeirra á lífskjör. Í nýlegri skoðun Viðskiptaráðs, Gjaldmiðilsmál: Maastricht viðheldur valfrelsi, má finna tilraun til að bæta þar úr. Er þar m.a. reynt að meta kostnað óbreytts ástands með íslenska krónu og nefnt að árlegur kostnaður íslenska þjóðarbúsins vegna hærra vaxtastigs geti numið á bilinu 130-230 mö.kr. eða á bilinu 1-1,8 m.kr. fyrir hverja fjölskyldu.

Til grundvallar lágu meðalvextir á 10 ára skuldabréfum Íslands m.v. Þýskaland, Bandaríkin, Bretland og Sviss samkvæmt hagvísum Seðlabankans og mið var tekið af árlegum vaxtamun yfir árin 1995-2012. Athugasemdir voru í kjölfarið gerðar við þennan útreikning, til dæmis að samanburðarlöndin séu þekkt fyrir lága vexti og því ekki heppileg til samanburðar, vaxtamunurinn sé tilkominn vegna 3,5% ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna, taka hefði mátt tillit til innlendra lánveitenda sem njóta þessara vaxtakjara og það hvernig tölurnar voru framsettar í samanburði við aðra þætti á borð við Icesave og hallarekstur ríkissjóðs frá hruni, sem eru ekki árlegar heldur uppsafnaðar upphæðir.

Bollaleggingar í þessa veru eru af hinu góða. Hvað þessa þætti varðar má nefna að varasamt hlýtur að vera að miða við þau lönd þar sem vextir eru hvað hæstir þegar reynt er að staðsetja Ísland í alþjóðlegu samhengi, enda vart lönd sem við viljum líkjast hvað viðskiptakjör varðar. Þá telja sumir ákveðnar vísbendingar um að lögbundin ávöxtunarkrafa lífeyrissjóða hafi haft áhrif á þennan vaxtamun. Það bendir hins vegar fremur til ákveðinnar kerfisveilu en að nálgunin hafi verið röng. Eins ef taka hefði átt tillit til innlendra lánveitenda þá mætti segja slíkt hið sama um skatta, þ.e. að í umræðunni ætti að jafna greidda skatta út á móti nýttri opinberri þjónustu. Að lokum þá var íhaldssamt mat notað í samanburðarmynd á stærð vaxtaálagsins enda aðeins um nálgun að ræða, auk þess sem tölurnar voru allar bornar saman á föstu verðlagi.

Svo einfaldar voru þær skýringar, en þær í sjálfu sér skipta ekki öllu máli. Aðalatriðið er að nálgunin vakti fólk til umhugsunar og hvatti til skoðanaskipta á grunni ólíkra en nátengdra sjónarmiða. Það er fyrsta skrefið í átt að niðurstöðu um þetta vandasama úrlausnarefni.

Haraldur I. Birgisson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Tengt efni

Vel heppnað Viðskiptaþing

Viðskiptaþing fór fram fimmtudaginn 8. febrúar síðastliðinn. Yfirskrift þingsins ...
14. feb 2024

Vel sóttur Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun, 23. nóvember. Yfirskrift ...
23. nóv 2023

Ítalska framsóknarleiðin

„Mælistika sem leggja þarf á skatta er hvort þeir séu góð hugmynd til langs ...
29. ágú 2023