Bætt framleiðni besta kosningaloforðið

Á föstudaginn fyrir viku voru hagvaxtartölur síðasta árs birtar ásamt annarri endurskoðun á hagvaxtartölum ársins 2011. Opinberar spár lágu á bilinu 2,2%-2,7% fyrir árið 2012. Nýjustu tölur Hagstofunnar hljóta því að vera veruleg vonbrigði en hagvöxtur síðasta árs mældist 1,6% sem er 0,6-1,1 prósentustigum undir spám (30-40% lægri).

 

Sé litið á upphaflega hagvaxtarspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins árið 2009 er fallið ennþá hærra, en sjóðurinn gerði á þeim tíma ráð fyrir hröðum efnahagsbata. Hefði spá sjóðsins gengið eftir væri landsframleiðsla 87 milljörðum hagstæðari, eða 272 þús. kr. pr. mann, en staðan er í dag eða um 1.795 milljarðar.

Efnahagsbatinn hefur því reynst talsvert hægari en margir gerðu ráð fyrir. Auk þess að hafa veruleg áhrif á lífskjör mun þessi þróun að öllum líkindum hafa áhrif á fjármál ríkissjóðs. Í fjárlögum 2013 var gert ráð fyrir 2,8% hagvexti árið 2012, sem er um 40% hærri en raun varð. Jafnframt var gert ráð fyrir 2,7% hagvexti 2013. Það er því hætt við að ein af grunnforsendum fjárlaga sé brostin og líkur á að áætlun um jákvæðan heildarjöfnuð (án óreglulegra liða) standist ekki sem og að frumjöfnuður verði minni en spáð var.

Ísland er í dag í svipaðri stöðu og árin 2004-2005 horft til landsframleiðslu á mann. Það er því mikilvægt að haldið sé rétt á spöðunum en svo virðist sem jákvæðar hagvaxtartölur ársins 2011 hafi leitt til of mikillar bjartsýni. Hagfelldustu kosningaloforð næstu vikna - fyrir fjölskyldur, fyrirtæki og ríkissjóð - lúta þannig að aðgerðum til að efla hagvöxt og bæta þar með lífskjör með aukinni framleiðni, þ.e. að skapa meiri verðmæti með minni tilkostnaði.

Í nýjustu skýrslu Viðskiptaráðs, Hugmyndahandbók um aukna hagkvæmni, eru settar fram 13 tillögur í þá veru. Vonir Viðskiptaráðs standa til þess að þær geti orðið stjórnmálaflokkunum og öðrum að gagni við mótun hagfelldrar framtíðarsýnar fyrir Ísland.

Haraldur I. Birgisson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...
10. maí 2023

Lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...
21. mar 2023

Hver er þín verðbólga?

Reiknivél Viðskiptaráðs sem gerir hverjum og einum kleift að reikna sína ...
13. mar 2023