Tökum til í regluverkinu

Á nýlegum fundi Viðskiptaráðs um fjármálakerfið fjallaði fyrrverandi bankastjóri og stjórnarformaður Nordea bank, Hans Dalborg, um þann lærdóm sem Svíar drógu af fjármálakreppunni þar í landi á 9. áratug síðustu aldar. Meðal þeirra atriða sem Hans dró fram var mikilvægi þess að hafa nýtt kreppuna til að hrinda í framkvæmd ýmsum kerfislægum breytingum til að búa í haginn fyrir framtíðina, eða eins og hann orðaði það, taka til í bakgarðinum.

Þessi skilaboð um tiltekt og gott skipulag einskorðast ekki við fjármálakerfið, heldur má heimfæra þau á alla þætti hagkerfisins. Áform ríkisstjórnarinnar um endurskoðun á regluverki atvinnulífsins til að auka skilvirkni falla vel að þessum ráðleggingum. Þrátt fyrir að regluverk þjóni afar mikilvægu hlutverki og leiði almennt til samfélagslegs ábata getur það einnig skapað óþarfan kostnað fyrir hið opinbera, fyrirtæki og almenning.

Tiltektin hófst um aldamótin
Hugmyndir um endurskoðun á regluverki eru ekki nýjar af nálinni, hvort heldur hér heima eða erlendis. Má þar nefna að árið 1999 voru lög voru sett um opinberar eftirlitsreglur og sérstök ráðgjafanefnd sett á laggirnar. Þá var átakinu Einfaldara Ísland hleypt af stokkunum árið 2006.

Á grunni þess var ráðist í margs konar umbótavinnu, t.a.m. var gátlisti fyrir frumvörp tekinn í gagnið til að vanda betur undirbúning þeirra, sérstök handbók gefin út um frumvarpasmíð og ráðuneytin settu sér einföldunaráætlanir fyrir gildandi regluverk. Var þar tekið mið af vinnu í öðrum löndum s.s. í Bretlandi, Danmörku og Þýskalandi auk verkefna á vegum ESB og OECD. Þá hafa þjóðir á borð við Holland og Svíþjóð einnig lagt mikla áherslu á þennan málaflokk, með góðum árangri.

Af skiljanlegum ástæðum var frekari tiltekt sett á bið í kjölfar falls fjármálakerfisins, enda önnur meira áríðandi verkefni sem sinna þurfti. Það er fagnaðarefni að ríkisstjórnin hafi nú sett þennan málaflokk aftur á oddinn, en í stefnuyfirlýsingu hennar er jafnframt bætt um betur og sérstök áhersla lögð á að heildaráhrif regluverks þróist í rétta átt.

Magn ekki ávísun á gæði
Þessi áhersla á heildarmyndina er af hinu góða enda benda rannsóknir til þess að óþarflega umfangsmikið og flókið regluverk geti skapað samfélagslegan kostnað umfram þann ábata sem stefnt er að. Regluverk getur t.a.m. hamlað samkeppni sem aftur dregur úr framleiðni og þar með hagvexti og atvinnustigi.

Einfalt og skilvirkt regluverk getur að sama skapi skilað miklum ábata s.s. fyrir starfsskilyrði atvinnulífs, atvinnusköpun, vernd grundvallarréttinda, skilvirka nýtingu auðlinda og frumkvöðlastarfsemi, svo eitthvað sé nefnt. Það kemur því vart á óvart að vinna af þessu tagi hafi notið víðtæks stuðnings þvert á flokka erlendis.

Mögulegur milljarðaábati ár hvert
Í vinnunni framundan er áherslan á að bæta gæði regluverks, en ekki afregluvæðingu eins og umræðan ber gjarnan með sér enda innbúinu iðulega ekki hent þegar taka á til. Reynslan erlendis frá sýnir að það er til mikils að vinna ef vel tekst til.

Þannig benti úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands árið 2004 til þess að árlegur beinn kostnaður af regluverki hérlendis væri á bilinu 5-12 ma. kr. Séu þær forsendur uppreiknaðar til dagsins í dag má áætla að kostnaðurinn geti numið rúmlega 20 mö. kr. Þá er ekki tekið tillit til árlegs framleiðnitaps af völdum regluverks sem Hagfræðistofnun mat á bilinu 7-70 ma. kr.

Samanborið við svipaða erlenda rannsókn á beinum kostnaði vegna reglubyrði í fjölda ríkja er mat Hagfræðistofnunar í varfærnari kantinum. Það er því ekki óvarlegt að áætla að árlegur ábati notenda opinberrar þjónustu af skilvirkara regluverki geti legið á bilinu 4-13 ma. kr. og ábati hins opinbera á bilinu 1-4 ma. kr.

Margar hendur vinna létt verk
Þó þessar upphæðir séu ekki stórar í heildarsamhengi opinberra útgjalda þá munar svo sannarlega um minna. Áætlaður ábati hins opinbera nemur til að mynda allt að áttfaldri þeirri fjárhæð sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður skili í afgang á næsta ári. Þá nemur áætlaður ábati notenda allt að þrettánfaldri þeirri fjárhæð sem lækkun tryggingagjalds á að skila fyrirtækjum á næsta ári.

Þrátt fyrir að hér sé aðeins um gróft mat að ræða þá ættu þessar vísbendingar um ábata samfélagsins af einfaldara og skilvirkara regluverki að duga einar og sér til að stórfjölskyldan á Alþingi, stjórnsýslan, fulltrúar atvinnulífsins og launafólks og aðrir hagsmunaaðilar taki höndum saman í tiltektinni. Sá samhugur sem birtist á nýlegri vinnustofu um verkefnið gefur góð fyrirheit um framvinduna í þessum efnum.

Haraldur I. Birgisson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 24. október, bls. 21.

Tengt efni

At­vinnu­rekstur er allra hagur

„Það er mikið hagsmunamál fyrir launafólk að til séu þeir sem bæði geta stofnað ...
23. feb 2024

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Vel sóttur Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun, 23. nóvember. Yfirskrift ...
23. nóv 2023