Aftur til framtíðar

Skattalækkanir ríkisstjórnarinnar um nýliðin áramót eru fagnaðarefni fyrir margar sakir. Í fyrstu ber að fagna því að staðgreiðsluhlutfall einstaklinga verður á næsta ári orðið lægra en það var þegar staðgreiðslukerfinu var upprunalega komið á fót árið 1988. Í annan stað styrkja þær mann í þeirri trú að fjármálaráðherra hyggist gera gangskör að endurbótum á skattkerfinu. Afnám eignarskatts um áramót er stór áfangi á þeirri vegferð enda höfðu margir barist lengi fyrir afnámi hans.

Nokkrar kannanir á samkeppnishæfni þjóða frá IMD, Heritage-stofnuninni og Wall Street Journal staðfesta styrka stöðu Íslands í alþjóðlegu samhengi. Athygli vekur að Ísland skipar sér ekki í flokk með Norðurlöndunum – sem eru skör neðar – heldur fyllir landið sama flokk og Írland, Lúxemborg, Hong Kong og önnur ríki sem leitt hafa umbætur á skattkerfi og skilvirkri stjórnsýslu. Þannig væri vel til fundið að setja okkur það markmið í stjórnsýslunni að ganga helst aldrei skemur í umbótum en viðmiðunarþjóðir okkar.

Orð eru til alls fyrst

Á Viðskiptaþingi 2006 þann 8. febrúar n.k., lítur Viðskiptaráð til framtíðar enda er yfirskrift þingsins Ísland árið 2015. Í vetur hefur lykilfólk úr íslensku viðskiptalífi fundað á vegum ráðsins og lagt fram hugmyndir sínar um Ísland framtíðarinnar. Það er verk að vinna á mörgum sviðum og við hæfi að Ágúst Guðmundsson, stjórnarformaður Bakkavarar, kynni ásamt forsætisráðherra hugmyndir sínar um framtíð Íslands á komandi  Viðskiptaþingi.

Kvikir skattstofnar

Skattkerfið lýtur sömu lögmálum og annað gangverk samfélagsins og þarf að vera í stöðugri mótun og svara breyttum áherslum atvinnulífs ekki síður en almennings. Frumkvæði fjármálaráðherra að endurskoðun skattkerfisins er gleðiefni. Eitt stendur þó út af borðinu: skilja þarf undan skattlagningu hagnaðar vegna sölu móðurfélags á dótturfélagi. Í þessum efnum er mikilvægt að fylgja þróun á alþjóðavettvangi ef Ísland ætlar ekki að dragast aftur úr öðrum þjóðum. Þróunin er á eina leið enda hafa Svíar, Danir, Belgar, Lúxemborgar, Hollendingar, Þjóðverjar og Ástralir stigið þetta heillaskref til að tryggja rekstrarskilyrði eigin fyrirtækja og bæta stöðu eftirlitsaðila. Enda tryggir breytingin að endanleg skattlagning tekna fari fram í heimalandi og getur laðað að erlenda fjárfesta og eignarhaldsfélög. Ég beini þessu með brosi á vör til fjármálaráðherra og þeirra sem láta sig málin varða.

Sjáumst árið 2015

Við eigum að setja okkur metnaðarfull markmið til framtíðar í skattamálum rétt eins og á öllum öðrum sviðum samfélagsins. Ágætis viðmið er að skoða með opnum huga umbætur annarra þjóða í skattamálum og einsetja okkur að ganga að minnsta kosti ekki skemur en þær gera í umbótum sínum. Að sama skapi þurfum við að vera tilbúin til að breyta lögum og reglum sem reynast illa og vera óhrædd að betrumbæta og gaumgæfa þær í ljósi reynslunnar. Þannig er hálfur sigur unninn ef íslensk stjórnvöld ákveða af stefnufestu  að leiða hópinn í skattamálum í stað þess að sigla í kjölfar annarra þjóða. Það er mikið í húfi að mörkuð sé skýr sýn á framtíðina — enda stendur skrifað að menn komist sjaldan á leiðarenda ef þeir vita ekki hvert þeir stefna.

----

Greinin birtist áður í Markaðnum hjá Fréttablaðinu

Tengt efni

Greiðslumiðlun Schrödingers

„Með frumvarpinu er ekki einungis verið að veita Seðlabankanum heimild til að ...
4. mar 2024

Ítalska framsóknarleiðin

„Mælistika sem leggja þarf á skatta er hvort þeir séu góð hugmynd til langs ...
29. ágú 2023

Kostnaðarsöm leið að göfugu markmiði

Ný greining frá Viðskiptaráði á kostnaði íslenskra fyrirtækja vegna íþyngjandi ...
5. júl 2023