Hvað viltu verða þegar þú verður stór?

Meðfylgjandi grein birtist í Markaðnum miðvikudaginn 30. júlí:

Hvað viltu verða þegar þú verður stór?

Flestir hafa fengið þessa spurningu einhvern tímann á lífsleiðinni. Þegar börn svara henni miðast svarið í flestum tilfellum við þær stéttir sem helst er litið upp til á æskuárunum. Krakkar vilja verða löggur, íþróttaálfar, slökkviliðsmenn eða Solla stirða. Þegar aldurinn færist yfir fara aðrir hlutir að vega þyngra eins og launakjör, starfsréttindi, samfélagsleg virðing og völd. Að sama skapi veltur áhugi fólks á tíðaranda hverju sinni.

Fyrir nokkru síðan voru franskir háskólanemendur spurðir þessarar sömu spurningar, þ.e. hvar þau hefðu áhuga á að starfa í framtíðinni. Niðurstöður könnunarinnar leiddu í ljós að þrír af hverjum fjórum nemendum settu stefnuna á starf hjá hinu opinbera. Þetta kann að hljóma undarlega en þegar betur er að gáð er um tiltölulega skynsamlega afstöðu að ræða. Í Frakklandi eru launakjör opinberra starfsmanna mjög samkeppnishæf samanborið við almennan vinnumarkað auk þess bjóðast þar mun betri fríðindi. Starfsöryggi er meira, lífeyrisréttindi eru betri, vinnutíminn er almennt styttri og opinberir starfsmenn komast fyrr á eftirlaun. Það sem hefur gerst er að kjör opinberra starfsmanna eru orðin of samkeppnishæf.

Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa. Atvinnuleysi í Frakklandi hefur verið viðvarandi í langan tíma á sama tíma og atvinnuþáttaka er lægri en gengur og gerist innan OECD. Fjöldi opinberra starfsmanna sem hlutfall af heildarvinnuafli hefur farið vaxandi og útgjöld hins opinbera hafa aukist hratt. Hvert einasta ár í meir en tvo áratugi hefur hið opinbera verið rekið með halla og skuldir þess hafa aukist samhliða því. Það bendir því flest til þess að fjármálastefna franskra stjórnvalda sé ekki sjálfbær. Ein af veigamestu ástæðunum er sú staðreynd að starfskjör opinberra starfsmanna hafa skekkt stöðu vinnumarkaðarins.

Þetta er vandamál sem íslensk stjórnvöld geta tvímælalaust dregið lærdóm af. Hérlendis hefur atvinnuleysi verið með minnsta móti í langan tíma, hagvöxtur hefur verið mikill og skuldastaða hins opinbera hefur farið batnandi. Blómlegum vinnumarkaði hefur fylgt mikil aukning í kaupmátti hjá öllum starfsstéttum. Þrátt fyrir þetta hafa stjórnvöld ekki nýtt tækifærið og fækkað opinberum starfsmönnum meðan næg störf voru í boði, heldur hefur þeim þvert á móti fjölgað. Þetta geta reynst dýrkeypt mistök nú þegar sverfur að og tekjur hins opinbera taka að rýrna.

Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um fjölda opinberra starfsmanna en hægt er að áætla fjölgun þeirra með því að skoða þá flokka í vinnumarkaðstölum Hagstofu Íslands þar sem starfsmenn eru að megninu til á launaskrá hjá hinu opinbera. Á síðustu 10 árum hefur starfsfólki í þessum flokkum fjölgað um 35% á sama tíma og heildarvinnuafl hefur aukist um 25%. Sérstaka athygli vekur að starfsmönnum í opinberri stjórnsýslu hefur fjölgað um tæplega 50% á umræddu tímabili. Þetta er tvisvar sinnum meiri aukning en á almennum vinnumarkaði.

Jarðvegurinn hérlendis er að ýmsu leyti sambærilegur þeim sem hefur háð Frökkum á undanförnum áratugum. Til að bregðast við mikilli samkeppni um hæft starfsfólk hefur launasvigrúm ýmissa opinberra stofnana verið aukið til muna. Þrátt fyrir að eftirspurn eftir sérfræðingum og vel menntuðu starfsfólki hafi aldrei verið meiri á almennum vinnumarkaði hefur starfsmönnum í opinberri stjórnsýslu fjölgað hratt eins og fyrrgreindar tölur bera með sér. Kjör þeirra hafa því reynst mjög samkeppnishæf á undanförnum árum. Óþarft er að tiltaka sérstakar launahækkanir innan stjórnsýslunnar en ljóst er að af nægu er að taka.

Þrátt fyrir að kaupmáttur hafi vaxið hratt á almennum vinnumarkaði hefur verið mikið um árangurstengdar greiðslur, yfirvinnu og aðrar vilnanir sem eru ekki hluti af föstum launum. Þetta á ekki síst við um þá hæst launuðu. Sveigjanleiki atvinnurekanda til að draga úr þessum greiðslum er mikill og því má búast við mikilli kaupmáttarskerðingu á næstu misserum hjá þessum hópum. Laun innan opinbera geirans, sér í lagi stjórnsýslunnar, eru mun ósveigjanlegri og því afar ólíklegt að brugðist verði við breyttum aðstæðum með lækkun launa.

Þessu til viðbótar eru ýmsir þættir sem gera starf hjá hinu opinbera að enn fýsilegri kosti en ella. Starfsöryggi er meira, lífeyriskjör eru betri þar sem mótframlag atvinnurekanda er hærra en á almennum vinnumarkaði, vinnutími er almennt styttri, eftirlaunaréttindi ákveðinna starfsstétta mjög rausnarleg og svo mætti lengi telja. Það ætti því ekki að undrast ef háskólanemar fara að horfa í auknum mæli til opinberrar stjórnsýslu í framtíðinni.

Það liggur fyrir að laun opinberra starfsmanna eru greidd með sköttum og öðrum innheimtum þjónustutekjum. Fjölgun starfsmanna þýðir því einfaldlega að skattar þurfa að hækka og óvalkvæð þjónustugjöld aukast. Að sama skapi er ljóst að hátt hlutfall opinberra starfsmanna dregur verulega úr sveigjanleika vinnumarkaðar, sem hefur þótt einn helsti styrkleiki íslenska hagkerfisins.

Það er verulegt áhyggjuefni að opinberum starfsmönnum skuli hafa fjölgað hlutfallslega í góðæri síðustu ára, enda hefur reynslan sýnt að einkageirinn er sá hluti atvinnulífsins þar sem framleiðniaukning er mest. Aukin framleiðni er grundvöllur langtíma hagvaxtar og því er nauðsynlegt að þessari þróun verði snúið við sem fyrst. Hluti af þeim viðsnúningi er að koma í veg fyrir að bestu starfskjörin bjóðist í embættismannakerfinu og opinberri stjórnsýslu.

Frosti Ólafsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.

Tengt efni

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Fleiri víti 

„Það þarf að fara varlega með vald, um það þurfa að vera skýrar reglur og ...
31. jan 2024

Góðir stjórnar­hættir - hvernig og hvers vegna?

Tilnefningarnefndir er dæmi um viðfangsefni sem halda þarf áfram að móta til ...
8. mar 2023