Kreppan og leiðin fram á við

Finnur Oddsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands ritaði eftirfarandi grein í Markað Fréttablaðsins í dag:

Þó svo hagfræðingar séu almennt ekki sammála um hvernig skilgreina beri efnahagskreppu, þá má segja að þar sé átti við langdreginn samdrátt efnahagslífs sem einkennist af falli í þjóðarframleiðslu og eftirspurnar, gengisfalli gjaldmiðils, auknu atvinnuleysi, skorti á lánsfé og gjaldþrotum. Þó svo skammt sé liðið á Íslensku kreppuna virðist þetta allt eiga ágætlega við um það ástand sem hér er að skapast. 

Það er eðlilegt að einhverjir spyrji sig af hverju? Af hverju er kreppa? Um það má hafa mörg orð og rekja hagrænan aðdraganda langt aftur í tímann. En til einföldunar má segja að kreppan, og afleiðingar hennar, sé fyrst og fremst til komin vegna þess að trúverðugleiki hagkerfisins hefur rýrnað. Einhverra hluta vegna hafa hagsmunaaðilar viðkomandi hagkerfis ekki sömu trú á því og áður og líta svo á að horfur þeirra til framtíðar hafi versnað. Vantrú af þessu tagi eykur líkur á flótta frá viðkomandi hagkerfi sem getur tekið á sig mismunandi myndir. Þetta getur átt við um flótta fólks, sem leitar betri lífsskilyrða annarstaðar, flótta fjármagns, í leit að öruggari ávöxtun og jafnvel fyrirtækja, sem leita hagfelldara rekstrarumhverfis og betri vaxtarskilyrða. Ekkert af þessu er viðkomandi hagkerfi hagstætt. Ávallt er þörf á góðu fólki, fjármagni og fyrirtækjum sem er efniviður verðmætasköpunar og um leið grunnstoðir þess velferðarkerfis sem flestir þjóðir leitast við að skapa.

Viðhorf eins og lýst er hér á undan, væntingar um verri framtíð, er stærsti vandi íslensks samfélags í dag. Í því kristallast verkefnið framundan, sem er að sannfæra alla þá sem eiga hagsmuni undir íslenska hagkerfinu, innanlands og utan, um að Ísland sé land tækifæra en ekki hnignunar. Þar kemur til kasta allra þeirra sem hér ráða för, sérstaklega stjórnvalda. 

Skilvirkasta leið stjórnvalda að þessu marki er að skapa eftirsóknarverða en trúverðuga sýn sem felur í sér áherslur og markmið til lengri tíma. Slík framtíðarsýn þarf að svara áleitnum spurningum um afstöðu stjórnvalda til afar mikilvægra málaflokka á borð við utanríkis- og peningamála, opinberra fjármála, áherslur í atvinnuuppbyggingu og umsvifa hins opinbera á atvinnumarkaði. Hvernig verður varanlegum efnahagslegum stöðugleika komið á? Á að halda krónunni eða skipta um gjaldmiðil?  Hvaða gjaldmiðil? Verður sótt um aðild að Evrópusambandinu? Hvernig á að koma á jafnvægi í fjármálum hins opinbera? Hvar og hversu mikið verður skorið niður? Hvaða áherslur verða í skattlagningu á fyrirtæki og einstaklinga? Hvert á umfang þjónustu hins opinbera að vera og hver eiga umsvif þess að vera á atvinnumarkaði? Er eðlilegt að opinber fyrirtæki keppi við einkafyrirtæki? Er ríkið heppilegur eigandi fyrirtækja í atvinnurekstri?

Svör við þessum spurningum hafa áhrif á væntingar fólks og fyrirtækja til framtíðar á Íslandi. Hvort sem svörin fela í sér eftirsóknarverðar horfur eður ei, skiptir höfuðmáli að eyða sem fyrst þeirri umtalsverðu óvissu sem nú ríkir um ofangreind mál. Þannig er Íslendingum gert kleift að leggjast á árarnar af meiri vissu en annars er hægt og leggja þannig grunn að þeirri góður framtíð sem auðlindir Íslands gefa færi á.

Það er eðlileg krafa að stefna stjórnmálaflokkanna í ofangreindum málum liggi fyrir í aðdraganda kosninga í apríl. Vissulega er þægilegt að ganga óbundinn til kosninga, en það væri hreinlega óheiðarlegt gagnvart kjósendum og á skjön við þá lýðræðisvakningu sem nú er krafa um í samfélaginu. Viðskiptaþing í ár er haldið undir yfirskriftinni Endurreisn hagkerfisins – horft til framtíðar. Þar verður leitast við að fá svör við ofangreindum spurningum, frá sjónarhóli atvinnulífs og stjórnmála. Svörin eru mikilvæg, því þau marka upphaf ferlis aðgerða sem trúverðugleiki stjórnvalda og endurreisn hagkerfisins mun byggja á.

Finnur Oddsson
Framkvæmdastjóri
Viðskiptaráð Ísland


 

Tengt efni

At­vinnu­rekstur er allra hagur

„Það er mikið hagsmunamál fyrir launafólk að til séu þeir sem bæði geta stofnað ...
23. feb 2024

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni. Þau hafa aftur á móti mikil áhrif á ...
26. jún 2023