Hvert er förinni heitið?

Nú eru rúmlega tvær vikur til kosninga og lýkur þá störfum 80 daga stjórnarinnar, a.m.k. þar til niðurstaða kosninga liggur fyrir. Á þeim níu vikum sem liðnar eru frá því að ný stjórn tók við völdum hefur lítið miðað í úrlausn erfiðra skammtímavandamála. Vextir eru enn í hæstu hæðum, gjaldeyrishöft hafa verið þrengd frekar, atvinnuleysi haldið áfram að vaxa, engar markvissar lausnir eru í farvatninu hvað varðar skuldavanda heimila og fyrirtækja, gjaldþrotum fjölgar hratt og bankakerfið er enn í lamasessi. Það virðist því litlu hafa breytt um framgang mikilvægra mála að skipt hafi verið um ríkisstjórn.

Það sem vekur enn frekari áhyggjur er það viðhorf sem stjórnmálamenn úr öllum flokkum virðast hafa gagnvart vandanum. Í stað þess að einbeita sér í sameiningu að brýnum málum er varða hagsmuni heimila og fyrirtækja hefur tími og orka Alþingis þess í stað farið í þref og deilur um pólitíska hugmyndafræði. Með þessu er þingið að sýna öllum þeim sem standa frammi fyrir gjaldþroti, atvinnuleysi eða öðrum erfiðleikum vegna stöðu hagkerfisins bæði skeytingarleysi og vanvirðingu. Á tímum eins og þeim sem nú ganga yfir er ekki ósanngjarnt að krefjast þess að stjórnmálamenn einbeiti sér að því að greiða úr þeim aðkallandi vanda sem heimili og fyrirtæki standa frammi fyrir og leggja samhliða grunn að endurreisn hagkerfisins.

Annað vandamál í ranni stjórnmálanna er algjör skortur á málefnalegri framtíðarsýn flokkanna. Það liggur fyrir að framundan eru erfiðar ákvarðanir sem koma til með að hafa afgerandi áhrif á lífskjör allra landsmanna. Þessar ákvarðanir snúa að framtíðarstefnu í utanríkis- og peningamálum, stefnu í fjármálum hins opinbera og verkaskiptingu hins opinbera og einkaaðila. Afstaða til þessara grundvallarþátta ætti að sjálfsögðu að vera skýrt mörkuð í stefnu allra flokka. Svo virðist þó ekki vera og því renna kjósendur blint í sjóinn fyrir þessar mikilvægustu kosningar í áratugi. Kosningar eiga að snúast um val á samfélagsgerð og efnahagsstefnu, ekki flokkaþras og hnútukasti.

Framundan eru erfiðir tímar þar sem mikilvægar og í mörgum tilfellum sársaukafullar ákvarðanir þurfa að koma til framkvæmda. Stjórnmálaflokkar eiga ekki að veigra sér við því að gefa upp framtíðaráætlanir sínar og treysta á skynsemi kjósenda fremur en að spila á tilfinningar þeirra með lýðskrum og neikvæðni. Með það í huga hvetur Viðskiptaráð Íslands flokka landsins til að gera grein fyrir stefnumörkun sinni í áðurnefndum grundvallarmálum með eins gagnsæjum, málefnalegum og skýrum hætti og frekast er unnt.

Tengt efni

Góðir stjórnar­hættir - hvernig og hvers vegna?

Tilnefningarnefndir er dæmi um viðfangsefni sem halda þarf áfram að móta til ...
8. mar 2023

Eigum við að drepa fuglana?

Þegar við grípum inn í flókin kerfi getur það haft ófyrirséðar afleiðingar, ...
31. ágú 2022

Það verður að vera gaman

Hvers vegna er svona mikil­vægt að hafa gaman í vinnunni?
25. maí 2022