Góð ráð dýr

Þegar horft er til þess tíma sem liðinn er frá hruni bankanna má sjá bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar á þeirri þróun sem hefur átt sér stað. Hvað hið fyrra varðar, má segja að staðan nú sé skárri en hún hefði auðveldlega getað orðið. Samdráttur efnahagskerfisins hefur verið minni en spáð var, hluti bankakerfisins er þegar kominn úr beinni ríkiseign og gróska er í nýsköpunarstarfi. Hvað neikvæðu hliðina varðar stendur upp úr það mikla sundurlyndi, hnútukast og skotgrafahernaður sem hefur gegnsýrt umræðu frá októbermánuði árið 2008 og komið í veg fyrir hraðari og þróttmeiri endurreisn hagkerfisins.

Það er eðli stjórnmálanna að setjast á rökstóla og skiptast á skoðunum um þær mikilvægu ákvarðanir sem ráðamönnum þjóðarinnar er ætlað að taka. Samhliða því eiga almenningur og stofnanir samfélagsins að leggja lóð sín á vogarskálarnir með þátttöku í umræðu líðandi stundar. Eðlilegt er að ekki séu allir sammála. Aftur á móti þá er engum til gagns að sóa tíma í tilgangslitla orðræðu sem að mestu gengur út á að rægja þær lausnir sem lagðar eru fram án þess að sýnt sé fram á betri kosti.

Hverjum er leyfilegt að koma með tillögur til úrbóta?
Það er því miður að slík orðræða hefur einkennt pólitíska umræðu og virðast stjórnmálamenn um of fastir í hjólförum pólitískrar fortíðar sem erfitt virðist að sveigja frá. Í stað uppbyggilegrar og lausnadrifinnar umræða hefur verðmætum tíma og orku verið sóað í pólitískt þras og sjálfhverfa umræðu. Þetta á reyndar við um fleiri, því svo virðist sem fæstum sé leyfilegt að koma með tillögur til úrbóta, framfara og endurreisnar án þess að hugmyndirnar séu rægðar á miður málefnalegan hátt. Sjaldnast er lagt til atlögu við hugmyndirnar sjálfar heldur er í æ ríkari mæli lagt upp með að tortryggja flutningsmenn (eða stofnanir) þeirra. Þannig er sneitt framhjá málefnalegri rökræðu um gildi viðkomandi tillagna.

Ljóst má vera að slíkt eðli þjóðfélagsumræðu dregur verulega úr vilja fólks til þátttöku. Ef persónulegar árásir og ómálefnalegar mótbárur eru óumflýjanlegur fylgifiskur þess að leggja fram tillögur að lausnum eða gagnrýni á fyrirliggjandi aðgerðir gæti fólk farið að líta svo á að góð ráð séu þeim einfaldlega of dýr. Fáir kæra sig um þátttöku í slíku leikriti. Þannig er hætt við því að Íslendingar verði fangar fortíðar sinnar, þar sem meira skiptir hvaðan hugmyndir koma en hversu góðar þær eru. Þetta er skaðleg þróun enda sjá augu betur en auga og fámenn þjóð líkt og Ísland má illa við að fækka enn frekar í þeim hópi sem getur lagt lóð sín á vogarskálar uppbyggingar. Aukinn sáttatónn á öllum sviðum samfélagsins er því grundvallarþáttur í efnahags og samfélagslegri uppbyggingu landsins. Neikvæðni, hefnigirni, rætni og niðurrifsstarfsemi mun aftur á móti leiða til áframhaldandi efnahagslegrar hnignunar samhliða enn frekari samfélagslegri sundrung.

Tíma og orku sé varið til uppbyggilegra verka
Með þessum orðum er ekki átt við að ábyrgðarmenn þeirra ófara sem dunið hafa yfir landið eigi ekki að standa skil á verkum sínum. Þeim málum hefur verið komið í farveg sem vonandi skilar sanngjarnri niðurstöðu og almennri samfélagslegri sátt. Þangað til sú niðurstaða liggur fyrir er aftur á móti nauðsynlegt að verðmætum tíma og orku sé varið til uppbyggilegra verka.

Við stöndum á slíkum tímamótum að nú verða hagsmunir heildarinnar að ráða för. Minna verður til skiptanna og ekki verður komist hjá almennri lífskjaraskerðingu. Umræðan þarf því fyrst og fremst að snúast um hvernig hægt sé að lágmarka fyrirsjáanlegan skaða og ekki eiga að gilda önnur þátttökuskilyrði í endurreisn íslenska hagkerfisins en vilji til góðra verka. Málefnalegur ágreiningur er eðlilegur en svo fremi sem virk og upplýst skoðanaskipti eiga sér stað er líklegt að skynsamleg niður staða náist í erfiðum málum. Viðskiptaráð mun halda áfram að leggja sín lóð á vogarskálarnar með lausnadrifinni umræðu um framtíð íslensks atvinnulífs. Nú eru góð ráð dýr og því nauðsynlegt að enginn láti sitt eftir liggja í endurreisn hagkerfisins. Víðtækt samráð við hagsmunahópa og almenning, uppbyggilegt samstarf stjórnmálaflokka, áhersla á heildarhagsmuni og málefnaleg umræða eru vörður sem ætti að fylgja á þeirri vegferð.

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu mánudaginn 18. janúar og er skrifuð af Finni Oddssyni, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs. Greinina má jafnframt nálgast í Fréttablaðinu, sjá hér.

Tengt efni

Samkeppnishæfni Íslands minnkar á milli ára

Ísland fellur um eitt sæti milli ára í samkeppnishæfni og situr í 17. sæti af 67 ...
20. jún 2024

Verðmæti fólgin í menntun og hæfni

Að mati Viðskiptaráðs er það hagur innflytjenda og samfélagsins að hæfni og ...
21. jún 2024

Ríkið herðir hnútinn á leigumarkaði

Frumvarp um breytingar á húsaleigulögum er enn einn rembihnúturinná leigumarkaðinn
31. ágú 2023