Að laga kerfi

Óskað eftir alvöru lausnum og færri fáliðunardögum.

Mér hefur einhvern veginn alltaf fundist mikilvægt að laga þjónustu að fólki sem þarf hana en ekki öfugt. Þannig hef ég til dæmis horft á leikskóla, sem þótt þeir séu fyrsta skólastigið, gegna líka mikilvægu þjónustuhlutverki við foreldra.

Ég átti börn með hléum á leikskólum borgarinnar í tæpa tvo áratugi. Dætur mínar voru t.d. á einum alveg frábærum sem veitti þá fáheyrðu þjónustu að hafa opið allt sumarið og auðveldaði okkur skipulag sumarfrís. Starfsmannavelta var lítil og vel mannað, enda man ég ekki eftir að hafa þurft að taka það sem nú heitir fáliðunardagur.

Fáliðunardagur er þegar ekki tekst að manna deild á leikskóla og hluti barna þarf því að vera heima. Þetta hefur gerst ítrekað í haust og skapar mikið vesen, bæði hjá foreldrum og vinnuveitendum.

Í viðtali við leikskólastjóra í vikunni segir að ástæður manneklunnar séu t.d. veikindi, sóttkví, erfiðleikar við að ráða og vinnutímastytting. Lausnin sem leikskólastjórinn sér er m.a. að stytta leyfilegan dvalartíma barna, auk þess að loka leikskólum í vetrar-, jóla- og páskafríum.

Þótt ég skilji vanda stjórnenda og starfsfólks á leikskólum er þetta lausn fyrir kerfið en ekki foreldra. Þeir eiga fæstir margar vikur á lausu til að vera frá vinnu eða námi og færri stundir í vistun er lúxus sem fólk í fullri vinnu getur varla leyft sér. Þarna væri álaginu í raun velt af þeim sem á að veita þjónustuna yfir á þá sem eiga rétt á henni.

Ábyrgðin er hjá stjórnmálamönnum sem móta stefnu og gera fjárhagsáætlanir. Í áætlun Reykjavíkurborgar fyrir 2022 er reyndar gert ráð fyrir að starfsfólki fækki milli ára á leikskólum borgarinnar. Það horfir furðulega við, þótt ekki væri nema í ljósi vinnutímastyttingar.

En allavega, alvöru lausn fyrir foreldra og færri fáliðunardagar óskast.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu, 11. nóvember 2021.

Tengt efni

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Fermingaráhrifin

Svanhildur Hólm fer yfir fermingaráhrif í efnahagslegu samhengi.
12. apr 2024

Gera þarf breytingar á fjölda og fjármögnunarkerfi sveitarfélaga

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að stefnu í málefnum sveitarfélaga (mál nr. 72/2023).
19. apr 2023