Að setja varalit á þingsályktun

Gallinn við fræðin er að þau geta verið flókin. Gallinn við sérfræðinga er að þeir eiga oft erfitt með að útskýra fræðin fyrir öðrum en sérfræðingum á sama sviði. Sérstaklega á einfaldan hátt. Þetta býður hættunni heim. Snákaolíusölumenn sneru upp á læknavísindin og seldu remedíur og undralyf við alls kyns sjúkdómum, fullmeðvitaðir um að þau gerðu ekkert annað en að fylla vasa þeirra. Þeir sem vilja snúa út úr öðrum fræðum geta gert það með jafnsannfærandi hætti við þau sem kunna ekki fræðin. Lögfræðin er engin undantekning.

Útúrsnúningur í orkupakkaendaleysunni eru skrif Ólafs Ísleifssonar þar sem hann heldur fram að forseti Íslands geti beitt 26. grein stjórnarskrárinnar til að synja undirritun þingsályktunartillögu og þannig lagt þinsályktunartillöguna sem Miðflokksmenn hafa sett Íslandsmet í að þrasa um í dóm þjóðarinnar. Þetta er augljóslega rangt.

26. grein stjórnarskrárinnar á ekki við um þingsályktanir eða nokkuð annað en lagafrumvörp. Flóknara er það ekki. Spilaborgin sem byggir á að forsetinn vísi þingsályktun til þjóðarinnar er fallin og restin af þessari grein því tímasóun. En áfram skröltir hann þó.

Margrét Einarsdóttir, sami dósent í lögfræði við Háskólann í Reykjavík og Ólafur vísar í í grein sinni, ritaði: „Það mun koma í hlut Alþingis að taka ákvörðun um afléttingu hins stjórnskipulega fyrirvara við 3. orkupakkann og forseti Íslands hefur ekki stjórnskipulegar heimildir til annars en að staðfesta þá þingsályktun.“

Það er sama hvað þú setur mikinn varalit á þingsályktun, hún verður ekki lagafrumvarp. Allt tal um að forsetinn geti vísað henni til þjóðarinnar er marklaust og byggir annaðhvort á grundvallarmisskilningi eða vísvitandi rangfærslum. Vonandi því fyrrnefnda.

Vangaveltur um þetta ekkihlutverk forsetans hljóma því eins og að málþófsmennirnir séu að reyna að bora sér bakdyr úr pontu Alþingis til að geta bent á að einhver annar hafi brugðist þegar baklandið þeirra spyr hvers vegna þeir hættu málþófinu.

Gunnar Dofri Ólafsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. ágúst 2019

Tengt efni

Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
21. feb 2024

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023

Óorð í ýmsum stærðum 

„Þegar íslensk stjórnvöld ákveða að innleiða EES-reglugerðir með íþyngjandi ...
4. okt 2023