Að spá fyrir um það sem hefur aldrei gerst

Sé kíkt undir húddið sést að atvinnuleysi er sá þáttur sem ræður einna mestu um þróun einkaneyslu.

Sum orð fanga tíðarandann hverju sinni betur en önnur. Þegar kemur að „Kóf-kreppunni“, sem Ísland siglir hratt inn í, eru sennilega tvö orð sem koma upp í huga flestra: Fordæmalaust og sviðsmyndir. Eins ofnotuð og þreytt og þau kunna að vera, þá ramma þau vel inn það sem hagfræðingar og allir þeir sem reyna að spá í spilin eru að kljást við. Staðan og óvissan eru jú fordæmalaus, en við getum spáð í hver þróunin verður miðað við mismunandi sviðsmyndir. 

Þetta var kveikjan að því að við hjá Viðskiptaráði birtum einfalt sviðsmyndalíkan í síðustu viku þar sem hægt er stilla upp forsendum um hagþróun, t.d. einkaneyslu, fjárfestingar og utanríkisverslun, til ársins 2030. Þannig má til dæmis sjá hverju það breytir að hnika til forsendum, hve djúp kreppan getur orðið og hversu fljótt hagkerfið getur náð sér aftur. Meðfylgjandi mynd sýnir þetta svart á hvítu. Í ljósi þess mikilvæga starfs sem unnið er á einum stærsta vinnustað landsins, Landspítalanum, er gagnlegt að setja kreppuna í samhengi við rekstur hans til að gera sér grein fyrir umfangi vandans. Til dæmis nemur uppsafnað tap landsframleiðslu frá 2019 rekstri Landspítalans í 16 ár í grunnsviðsmynd, sem taka skal fram að er ekki endilega líklegri en hver önnur. 

Hefðbundin líkön eða sviðsmyndir? 

Þó líkan sem þetta geti verið ganglegt við fádæma óvissu er það í sjálfu sér takmarkað hagfræðilega þar sem það tekur ekki tillit utanaðkomandi áhrifaþátta og sambands undirliða eins og innflutnings og einkaneyslu. Því ber að nálgast það sem út úr líkaninu kemur með varfærni og einhverjir myndu segja að gagnlegra væri að nálgast stöðuna með hefðbundnari spálíkönum. Engu að síður eru einnig góðar ástæður til að nálgast hefðbundnar spár með varfærnum hætti við núverandi aðstæður. 

Í fyrsta lagi, einmitt vegna þess að staðan er gjörsamlega fordæmalaus, höfum við einfaldlega ekki söguleg gögn sem ná utan um hvað gerist þegar heimshagkerfi nútímans er stoppað með handbremsu vegna heimsfaraldurs. Í öðru lagi, sem er tengt framangreindu, vitum við ekki hvernig fólk mun bregðast við í aðstæðum sem það hefur ekki áður verið í. Hvað munu neytendur gera? Vilja þeir ferðast? Verða stjórnendur fyrirtækja áhættufælnir og hætta að fjárfesta eða sjá þeir tækifæri út úr krísunni? Hvað með stjórnmálamenn? Hvaða „trump-i“ taka þeir upp á? 

Í þriðja lagi ná hefðbundin líkön illa utan um svo óvænta og gríðarlega áhrifamikla atburði – líkönin gera almennt ekki ráð fyrir „feitum hölum“ (e. fat tail). Ekki aðeins eiga líkön erfitt með það heldur líka við mannfólkið, líkt og Nassim Taleb, höfundur bóka eins og Black Swan og Fooled by Randomness hefur bent á, sem gerir það að verkum að við erum berskjaldaðri fyrir hinu óvænta en við gerum okkur grein fyrir. Þess má geta að Taleb varaði við skelfilegum afleiðingum kórónaveirunnar í janúar síðastliðnum og var afar gagnrýninn á áhættustýringu fjármálafyrirtækja fyrir fjármálakreppuna. 

Breytir gallað líkan Svörtuloftum í Björtuloft? 

Í ljósi efnahagsstöðu sem enginn gat ímyndað sér er áhugavert að skoða líkan Seðlabankans (QMM) -  líkans sem vaxtaákvarðanir og önnur stefna bankans byggir á að miklu leyti. Stefna og vaxtaákvarðanir þar sem skiptir öllu máli að byggt sé á eins tímanlegum upplýsingum og unnt er.  

Þær sviðsmyndir sem Seðlabankinn hefur birt hafa vakið athygli fyrir fremur mikla bjartsýni, þrátt fyrir að hafa orðið dekkri frá fyrstu birtingu í mars. Til dæmis virðist „dekkri sviðsmynd“ sem birtist í apríl gera ráð fyrir að ferðamenn taki að streyma aftur til landsins með haustinu þrátt fyrir að öllum ætti að vera ljóst að það gæti liðið lengri tími þangað til. 

Annað sem stingur í stúf er hóflegur samdráttur einkaneyslu, um 2% til 4% skv. síðustu sviðsmyndum, á sama tíma og atvinnuleysi er komið langt fyrir ofan óþekktar hæðir, væntingar fara hríðlækkandi og möguleikar á stórum hluta einkaneyslu eru einfaldlega ekki til staðar. Sé kíkt undir húddið sést að atvinnuleysi er sá þáttur sem ræður einna mestu um þróun einkaneyslu. Það er út af fyrir sig skiljanlegt, en gallinn er sá að horft er til atvinnuleysis skv. vinnumarkaðsrannsókn, þar sem þeir 36 þúsund einstaklingar sem eru í skertu starfshlutfalli teljast ekki atvinnulausir. Því virðist sem atvinnuleysi sé vanmetið og einkaneyslan þar með ofmetin. 

Aðalatriðið við ákvarðanatöku í Kófinu 

Allar bollaleggingar um það sem er í vændum eru viss samkvæmisleikur en hafa þegar upp er staðið þann tilgang að stuðla að upplýstri ákvarðanatöku. Þess vegna er mikilvægt að gera sér í hugarlund hvernig Kófið fer með hagkerfið og samfélagið. Til þess eru sviðsmyndagreiningar gagnlegar. Aðalatriðið er að ákvarðanir sem byggja á slíkum siðsmyndum, hvort sem það eru ákvarðanir stjórnvalda, atvinnulífs eða heimila, hafi það markmið að gera það besta úr stöðunni – að lágmarka skaðann. Á sama tíma má ekki fresta því óumflýjanlega eða missa sjónar af langtímahugsun. Það er flókið og erfitt, en er ekki allt sem er einhvers virði í lífinu erfitt? 

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands 

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Lesskilningur Landverndar

Engin óvissa ríkir um efnahagslegar afleiðingar orkuskiptasviðsmyndar ...
2. mar 2023

Reiðir pennar

Haukur Viðar Alfreðsson, doktorsnemi í skattahagfræði, segir Viðskiptaráð fara ...
15. sep 2022