Aðför gegn upplýstu samfélagi

Þegar forseti Bandaríkjanna slær um sig með heimatilbúnum „staðreyndum“ og falsfréttum til að sannfæra samlanda og heimsbyggðina um ágæti stefnu sinnar eða, sem er kannski algengara, sitt eigið ágæti, þá stendur ekki á kjánahrolli. Í upplýstu samfélagi eins og á Íslandi þar sem frelsi fjölmiðla er almennt talið gott og fréttaflutningur trúverðugur er ólíklegt að við gleypum við slíkum falsfréttum.

Það kemur því á óvart að ekki glennist augu fleiri af undrun þegar forystumaður í verkalýðshreyfingu landsins staðfestir í sjónvarpsútsendingu að hann hafni tölfræði og staðreyndum sem koma frá alþjóðlegum stofnunum á borð við OECD (Efnahags- og framfarastofnuninni) og Eurostat (Hagstofu ESB). Hann telur réttmætara að horfa til „raunverulegra dæma“ líkt og hagdeild VR hefur tekið saman og vitnar í rannsókn á vegum hagdeildar VR þar sem strætóbílstjórar í Svíþjóð og á Íslandi eru bornir saman. Staðan er víst „svört og hvít“ – slíkur er kjaramunur þessara einstaklinga.

Opinberar hagtölur, þar með talið meðaltöl og dreifing tekna, eru skástu heildrænu samanburðarmælikvarðarnir á skiptingu gæða sem við höfum. Þær sýna að sjálfsögðu ekki þau einstöku dæmi sem falla undir útreikninginn og segja ekki alla söguna ein og sér. Því var ekki úr vegi að kanna hvort þessi nýja staðreyndarnálgun myndi varpa nýju ljósi á aðra sambærilega hópa milli landa. Forstjórar hafa verið í kastljósinu að undanförnu vegna gífurlegra launahækkana. Því mætti kanna hvernig samanburður á launakjörum þeirra og forstjóra í Svíþjóð kæmi út. Til að tryggja nógu sterkt raundæmi voru forstjórar í kauphöllum landanna teknir fyrir. Þeir íslensku eru með um 4,7 milljónir króna að meðaltali á mánuði í heildarlaun á meðan miðgildi grunnlauna kauphallarforstjóra í Svíþjóð var um 7 milljónir íslenskra króna á mánuði. Við það bætast kaupaukagreiðslur Svíanna og annað sem getur auðveldlega tvöfaldað grunnlaunin og gefið þeim heildarlaun upp á rúmlega 14 milljónir króna á mánuði. Íslenskir kauphallarforstjórar eru því með töluvert lægri laun en þeir sænsku. Hér er staðan kannski ekki „svört og hvít“ – en klárlega aftur Svíum í hag.

Ofangreint er kannski óheppilegt dæmi þar sem kjör íslenskra forstjóra koma illa út í þessum samanburði milli landa. Færu forstjórar landsins að taka upp aðferðafræði að þessari fyrirmynd í sínum samningaviðræðum er hætt við að mörgum þætti nóg um.

Alþjóðlegar hagtölur og staðlar, sem aflað er og settar fram eftir skýrum reglum, hafa m.a. verið nýttar til að bera saman milli landa stóru drættina í efnahagsmálum. Til að gæta hlutleysis og jafnræðis hafa óháðar stofnanir séð um útreikninga af þessu tagi þar sem sama aðferðarfræði er notuð þvert á lönd og hópa. Sé ætlunin að hafna alfarið slíkri viðurkenndri aðferðafræði en treysta fremur á heimagerðar rannsóknir á sérvöldum og hentugum hópum verður ekki annað séð en að búið sé að taka ákvörðun um að kasta fyrir róða upplýstri umræðu, en taka í staðinn upp ósiðina úr amerískri pólitík.

Opinberar hagtölur eru ekki heilagar, og engin ein rannsókn eða tölfræði segir alla söguna. Það er hins vegar galin hugmynd að hafna með öllu að nýta sér bestu mögulegu samanburðargögn, jafnvel þótt þau henti ekki málstaðnum. Ef við getum ekki sammælst um að nýta okkur alþjóðlegar samanburðatölur um hagvöxt, kaupmátt, jöfnuð o.s.frv. þá gætum við allt eins hætt að telja mörkin í fótboltaleikjum og látið bara tilfinninguna segja okkur hvort við erum að vinna eða tapa.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 10. maí 2018

Tengt efni

Fimm skattahækkanir á móti hverri lækkun

Frá áramótum 2022 hafa verið gerðar 46 breytingar á skattkerfinu, þar af hafa ...
31. maí 2023

Viðskiptaráð styrkir afreksnema á erlendri grundu

Styrkþegar í ár eru Gunnar Þorsteinsson, Helga Kristín Ólafsdóttir, Ísak Valsson ...
24. feb 2023

Tölur í tóma­rúmi og tíma­bundni banka­skatturinn

Skýrasta tækifærið til að bæta kjör landsmanna er að lækka bankaskattinn enn ...
16. maí 2023