Ástæða til bjartsýni í heimi bölsýni

Tíu ára áskorunin sem hefur tröllriðið samfélagsmiðlum síðustu vikur er sér skemmtilegar og jafnvel furðulegar birtingarmyndir. Sumir hafa fengið grá hár, aðrir misst hárið. Einhverjir hafa bætt á sig á meðan aðrir hafa með hjálp ketó eða grænkerafæðis misst nokkur aukakíló. Flest höfum við þó þroskast og í sjálfu sér ætti útlitsbreytingin á 10 árum ekki að koma á óvart.

Tíu ára áskorun íslensks efnahags- og atvinnulífs bregður þó upp mynd sem fáir hefðu trúað. Fyrir 10 árum var stemningin slík að flestir bjuggust við ansi gráhærðu, skuldaþungu og hrörlegu Íslandi um langa tíð. Staðreyndin er aftur á móti sú að Ísland hefur jafnað sig efnahagslega eftir fjármálakreppuna og gott betur hefur skuldabumba Íslands við útlönd aldrei verið minni enda eru Íslendingar nú orðnir nettó lánveitendur við heiminn.

Eftir mikinn árangur landsmanna á síðustu árum er þó ekki hægt að sitja með hendur í skauti. Gríðarstórar áskoranir eru handan við hornið eða beint fyrir framan okkur. Til dæmis þurfum við að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda og bregðast við breytingum á aldurssamsetningu þjóðarinnar.

Önnur áskorun sem er jafnvel ennþá nær er að venjast því að hér fjölgi ekki ferðamönnum um tugprósentur á hverju ári með tilheyrandi gjaldeyrisinnstreymi og ná um leið að verja árangurinn sem hefur skilað fleiri aurum, sem geta keypt meira, í buddur langflestra landsmanna eins og tekjusagan.is sýnir svart á hvítu. Eins augljós og þessi áskorun virðist vera er stór hópur fólks í verkalýðshreyfingunni sem sér þetta ekki alveg svona.

Settar hafa verið fram kröfur sem þýða meðal annars tugprósenta hækkun launakostnaðar fyrirtækja á ári, sem allir sem setja upp skynsemisgleraugun sjá að gengur ekki upp. Einnig eru kröfur um skattfrelsi lágmarkslauna sem felur í sér að fyrir hverjar 100 krónur sem fólk aflar sér umfram lágmarkslaun myndu 60-70 krónur fara í skatt ef ekki á að skera niður í opinberri þjónustu. Rúsínan í pylsuendanum er svo að þessar tillögur byggja á því að enginn skuli vera undir dæmigerðu neysluviðmiði félagsmálaráðuneytisins sem felur beinlínis í sér að enginn á Íslandi skuli hafa minna á milli handanna sá sem er við miðgildi. Á mannamáli þýðir það að enginn skuli hafa minna á milli handanna en meðal-Jón og -Gunna. Skynsemisgleraugun afhjúpa að slíkt er ekki hægt.

Rétt eins og bölsýni var alltumlykjandi í janúar 2009 er auðvelt að vera bölsýnn núna í janúar 2019 þegar horft er á yfirstandandi kjaraviðræður og hvernig hefur þykknað upp í efnahagslífinu. Þá er gott að hugsa til þess að það rættist betur úr síðustu 10 árum en flestir þorðu að vona. Engin ástæða er því til annars en að vera bjartsýnn um að næstu 10 ár verði góð, sérstaklega ef skynsamlegar ákvarðanir fólks, fyrirtækja og stjórnvalda halda áfram að verða ofan á.

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Austurglugganum, þann 31. janúar 2019.

Tengt efni

Ekkert sérstakur vaxtastuðningur 

„Þótt margir gleðjist eflaust yfir því að fá millifært úr ríkissjóði er hér um ...
13. jún 2024

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023