Bless 2020

Það má sem sagt segja ýmislegt um þetta ár. Kannski var það öðru fremur ár ríkisins. Það var alls staðar.

Þetta ár. Það er svo margt sem hægt er að segja um það. Fyrst og síðast hefur það verið óvenjulegt og reynt á þolrifin á ýmsan máta. En þrátt fyrir allt hefur þetta ár kennt mér þakklæti. Ekki síst vegna þess að við höfum borið gæfu til þess að forðast popúlisma og öfgar. Íslenskt samfélag hefur staðið saman í gegnum þetta ástand og gert það með ótrúlegu jafnaðargeði og í raun með miklu æðruleysi. Skilaboðin sem gefin voru út í upphafi, um að við værum öll í þessu saman, að gera skyldi meira en minna og að brugðist yrði við eftir því sem aðstæður breyttust, hafa skipt miklu.

Það er ekki þar með sagt að þetta hafi verið auðvelt. Atvinnuleysi í sögulegum hæðum, heil atvinnugrein í dvala og atvinnurekendur að takast á við algjörlega nýjar aðstæður á vinnustöðum. Ekki hentar öll starfsemi til heimavinnu og sóttvarnahólf urðu allt í einu eitt helsta tólið til að halda rekstri gangandi.

Já, þetta ár hefur verið lærdómsríkt og meðal þess sem ég hef lært er að skrýtnir hlutir venjast. Að grímur séu staðalbúnaður og að það verði ósjálfrátt viðbragð að skima eftir sprittbrúsanum í öllum verslunum. Og talandi um verslun, netverslun er sennilega einn af sigurvegurum ársins. Það eru því vonbrigði að stjórnarflokkunum takist ekki að afgreiða frumvarp dómsmálaráðherra um að leyfa íslenska netverslun með áfengi til jafns við erlenda. 

Það er ýmislegt sem má nefna úr íslensku viðskiptalífi þetta erfiða ár. Eitt af stóru málunum var vel heppnað hlutafjárútboð Icelandair í haust, sem fór fram úr björtustu vonum. Við munum þurfa á öflugri ferðaþjónustu að halda til að rífa upp hagvöxtinn og þar skipta greiðar flugsamgöngur öllu. En þrátt fyrir að við treystum áfram á hefðbundnar atvinnugreinar, verður reynslan af þessari kreppu vonandi til þess að við leggjum enn meiri áherslu á rannsóknir, þróun og nýsköpun til þess að fjölga stoðunum undir íslensku efnahagslífi. Í því samhengi er gaman að minnast á fyrirtæki sem fáir höfðu heyrt um í upphafi þessa árs, íslenska nýsköpunarfyrirtækið Controlant. Controlant hefur á rúmum áratug farið úr því að vera hugmynd í 17 milljarða fyrirtæki sem gegnir lykilhlutverki við að dreifa bóluefni við kórónuveirunni um heiminn.

Það má sem sagt segja ýmislegt um þetta ár. Kannski var það öðru fremur ár ríkisins. Það var alls staðar. Að styrkja, lána peninga, greiða hlutabætur, grípa rekstur í frjálsu falli, banna og leyfa á víxl, ákveða fjöldatakmörk og fjarlægð milli fólks. En það sem við þurfum að hafa í huga er að þetta er óvenjulegt og má ekki verða venjulegt. Aðstoð hins opinbera var og er vissulega enn nauðsynleg, enda mun hún stytta tilhlaupið að næsta hagvaxtarskeiði. Vonandi gera þó flestir sér grein fyrir að sjóðir hins opinbera eru ekki ótæmandi, - og hver greiðir reikninginn á endanum. Og þótt úrræðin eigi að renna út má samt sem áður búast við að eitt af hitamálum kosningaársins 2021 verði hvenær og hvernig ríkið stígi til baka.

Að síðustu verð ég að nefna að ef þetta ár hefði verið bíómynd hefði ég ekki keypt miða.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.
Greinin birtist fyrst í Markaðnum í Fréttablaðinu 30. desember 2020

Tengt efni

Jafna þarf stöðu innlendra áfengisframleiðenda

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum.
24. mar 2022

Getum við allra vinsamlegast gyrt okkur?

Við hefðum ekki getað rekið íslenskt samfélag og atvinnulíf síðastliðna áratugi ...
26. maí 2022

Hvar er kaup máttur?

Ísland er vissulega dýrt en tekjurnar eru líka með þeim hæstu svo að kaupmáttur ...
27. jan 2021