Eigum við að drepa fuglana?

Þegar við grípum inn í flókin kerfi getur það haft ófyrirséðar afleiðingar, meira að segja þótt ásetningurinn sé góður. Kínverska þjóðin fékk að reyna það á eigin skinni eftir að stjórnvöld höfðu fyrirskipað útrýmingu trjáspörsins.

Áróðursmynd kínverskra stjórnvalda sem sýnir unglingsstrák drepa trjáspör.
Kínverskir kommúnistar fyrirskipuðu útrýmingu trjáspörsins til að vernda kornuppskeru þjóðarinnar. Það hafði ófyrirséðar afleiðingar í för með sér.

Árið 1958 hrinti kínverska kommúnistastjórnin áætluninni um Stóra stökkið fram á við (e. The Great Leap Forward) úr vör. Stóra stökkinu var ætlað að koma á kommúnísku þjóðskipulagi og framleiðsluháttum í Kína.

Hluti byltingarinnar var stríð gegn meindýrum sem breiddu út sjúkdóma og herjuðu á landbúnaðarframleiðslu þjóðarinnar. Sjónir stjórnvalda beindust meðal annars að trjáspör (l. Passer montanus), enda áætlað að hver þeirra æti um fjögur kíló af korni árlega. Safnast þegar saman kemur.

Áróðursplakat kínversku kommúnistastjórnarinnar í fuglastríðinu.
Áróðursplakat kínversku kommúnistastjórnarinnar í fuglastríðinu.

„Allir [Kínverjar] verða að taka þátt í baráttunni af ákafa og hugrekki; við verðum að þrauka með þrautseigju byltingarmanna.“ Með þessum orðum kínverskra stjórnvalda hófst slátrun spörfuglanna. Kínverska þjóðin hófst því handa við að eyðileggja hreiður, brjóta egg og drepa unga. Trjáspör var drepinn hvar sem til hans sást. Tilgangurinn var að útrýma þessum mikla vágest og þar með stórauka kornframleiðslu fyrir kínversku þjóðina. Fyrirmæli stjórnarinnar báru árangur. Trjáspör var nær útrýmt í Kína. Hvað gæti mögulega farið úrskeiðis?

Í upphafi skyldi endinn skoða

Afleiðingarnar voru hins vegar ekki alveg þær sem stefnt var að. Þannig háttaði til að fuglarnir átu ekki bara korn heldur líka mikið magn skordýra, ekki síst engisprettur. Fuglastríðið skapaði ójafnvægi í náttúrulegum vistkerfum og engisprettur fjölguðu sér gríðarlega. Þær átu síðan kornuppskeruna með bestu lyst.

Við tók ein versta manngerða hungursneyð sögunnar. Talið er að 15 til 55 milljónir Kínverja hafi soltið til dauða næstu þrjú árin. Kínversk stjórnvöld fyrirskipuðu því lok fuglastríðsins og neyddust til að flytja inn 250.000 spörfugla frá Sovétríkjunum.

Fuglastríð Kínverja kennir okkur einkum tvennt. Í fyrsta lagi það að mannleg inngrip í flókin kerfi hafa afleiðingar. Í öðru lagi mikilvægi þess að glöggva sig á afleiðingunum áður en haldið er af stað, því stundum er betra heima setið en af stað haldið. Þetta er mjög mikilvægt og gildir meira að segja þegar ásetningurinn er góður

Í beinni frá Berlín

Annað dæmi um feita pælingu sem gengur ekki upp er leiguþak. Berlínarbúar eru nýlega búnir að reyna það á eigin skinni. Það hafði borið á miklum húsnæðisskorti í borginni (líkt og víða í Evrópu). Leiguverð hafði því hækkað mikið. Hagsmunasamtök leigjenda og popúlísk stjórnmálaöfl í Berlín töldu sig hafa fundið lausnina. Gráðugir leigusalar voru að féfletta Berlínarbúa og það eina rétta í stöðunni væri koma á leiguþaki. Þann 18. júní 2019 var leiguverð íbúða byggðar fyrir 2014 fryst. Tilgangurinn var að tryggja Berlínarbúum leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði.

Hvað gerðist? Framboð á leiguhúsnæði hrundi um 60%. Þeir sem voru með leigusamninga sátu á þeim eins og ormar á gulli. Aðrir komu að tómum kofanum. Þeir síðarnefndu gátu því annað hvort leigt nýrri og dýrari íbúðir sem féllu ekki undir leiguþakið eða fundið sér húsnæði á svörtum markaði. Nú, eða þá flutt eitthvert annað.

Leiguþakið gagnaðist þeim sem voru með leigusamninga, en lokaði leigumarkaðnum fyrir aðra. Ekki síst ungt fólk. Leiguþakið dró að auki úr áhuga til nýbygginga vegna óvissu um hvort það yrði líka látið gilda um þær. Lausnin leysti ekki vandamálið, heldur gerði það verra. Leiguþakinu var síðan hrundið með niðurstöðu stjórnlagadómstóls Þýskalands.

Ekki kaupa snákaolíu

Leiguþak Berlínarbúa var lestarslys í beinni útsendingu. Fjöldi hagfræðinga og annarra höfðu bent á að leiguþak væri þaulreynd aðferð sem hvergi hefði leyst vandamál, heldur búið þau til. Popúlistar létu varnaðarorðin sem vind um eyru þjóta.

Þrátt fyrir allt er enn verið að reyna að selja okkur snákaolíu. Formaður Eflingar ítrekaði ákall félagsins um leiguþak í Sprengisandi um síðustu helgi. VR og LÍV krefjast leiguþaks í komandi kjarasamningum. Formaður Samtaka leigjenda gerði það einnig nýverið og oddviti Flokks fólksins kveðst vilja skoða lausnina.

Eina raunverulega lausnin gegn hækkandi leiguverði og húsnæðisskorti er aukið framboð. Þar má helst skoða úthlutun lóða, skipulagsmál og fjármögnun. Drepum ekki fuglana. 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 31. ágúst 2022.

Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023

Ríkið herðir hnútinn á leigumarkaði

Frumvarp um breytingar á húsaleigulögum er enn einn rembihnúturinná leigumarkaðinn
31. ágú 2023