Ekkert víst að þetta klikki – án gríns

Líklega er auðveldara að finna einstaklinga sem notast við takkasíma heldur en þá sem voru ekki dálítið fegnir þegar SA og stærstu stéttarfélög landsins lönduðu kjarasamningum í síðustu viku. Sitt sýnist hverjum um innihald samninganna og þær aðgerðir stjórnvalda sem hafa verið boðaðar, en eftir hörð átök og mikla óvissu um nokkurt skeið er loks búið að leggja línurnar fyrir komandi misseri. Aflétting óvissunnar ein og sér er jákvæð fyrir fólk og fyrirtæki enda eykur óvissan möguleika á slæmum ákvörðunum, ef ákvarðanir eru teknar yfir höfuð. Framundan eru svo miklu stærri áskoranir sem munu hafa mun meiri áhrif en kjarasamningar til nokkurra ára og verður nú hægt að beina sjónum að í meira mæli. Hröð öldrun þjóðarinnar, loftslagsbreytingar, tæknibreytingar og nauðsyn þess að auka útflutning þjóðarinnar eru dæmi um slíkar áskoranir.

Niðurstaða lífskjarasamninganna er ekki bara góð vegna minni óvissu heldur felast í samningunum efnisleg atriði sem gefa von til framtíðar. Þar má nefna allavega tvennt. Annars vegar hafa samningsaðilar tekið meira tillit til stöðunnar í hagkerfinu en útlit var fyrir um tíma. Það birtist í því að miðgildi heildarlauna mun hækka um innan við 3% í ár ef lífskjarasamningurinn setur tóninn fyrir launaþróun í heild sinni, en að hækkanirnar verði svo meiri þegar frá líður. Í ljósi stöðunnar í ferðaþjónustu og fleiri atvinnugreinum er einfaldlega minna til skiptanna í ár en oft áður. Á hinn bóginn er full ástæða til þess að horfa bjartsýnum augum á að það ástand sé tímabundið líkt og lífskjarasamningurinn endurspeglar.

Staða efnahagsmála getur og mun vonandi þróast til enn betri vegar þannig að enn meira verður til skiptanna og þá komum við að hinu atriðinu sem er svokallaður hagvaxtarauki. Lífskjarasamningurinn tryggir þannig með beinum hætti að eftir því sem hagvöxtur á mann verður meiri að þá verði meiri launahækkanir á næstu árum. Heyrst hafa mótbárur um slíka útfærslu til dæmis þar sem þjóðhagsreikningar eru gjarnan endurskoðaðir með mikilli töf. Sumar hugmyndir eru þó það góðar að þær eru þessi virði að ráðast í framkvæmd á þrátt fyrir álitamál um útfærslu. Þegar búið er að beintengja hagsmuni allra við að verðmætin sem eru til skiptanna ráði kjarabótum þá er um slíka hugmynd að ræða, því þegar upp er staðið mun ekkert annað ráða kjörum landsmanna.

Þó gott sé að samningum hafi verið landað og að mörg jákvæð skref hafi verið stigin væri barnalegt að halda því fram að hér muni smjör sjálfkrafa drjúpa af hverju strái og að verðbólgudraugurinn og minna þekktur bróðir hans, atvinnuleysismóri, hafi verið særðir á brott fyrir fullt og allt. Sumt er utan áhrifasviðs okkar flestra en einn helsti áhættuþátturinn er það hins vegar ekki: Launaskrið.

Lífskjarasamningurinn felur í sér 5-10% hækkanir lægstu launa á ársgrundvelli miðað við 1% hagvöxt á mann, sem er í flestu samhengi mikil hækkun. Augljóst er að almennt svigrúm er talsvert minna án þess að verðbólga og atvinnuleysi láti undan. Því ríður á að aðrar stéttir, atvinnurekendur, stjórnvöld og aðrir sem taka ákvarðanir um kaup og kjör landsmanna sitji á sér og haldi aftur af launahækkunum á næstu misserum. Það virðist vera samfélagsleg sátt um að hækka lægstu laun nú, sem er skiljanlegt því mikil hækkun húsnæðisverðs hefur bitnað hvað harðast á þeim lægst launuðu. Sú sátt er hins vegar hjómið eitt ef bráðlega berast fréttir af miklum prósentuhækkunum launa hjá öðrum stéttum.

Þrátt fyrir að launaskrið og verðbólga hafi oft leikið vinnumarkaðinn og hagkerfið grátt er alls ekkert víst að þetta klikki að þessu sinni. Það er, sem betur fer, að mestu leyti í okkar höndum.

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Viðskiptamogganum 10. apríl 2019.

Tengt efni

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023

Frumvarp til breytingar á raforkulögum þarfnast talsverðar endurskoðunar

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr. ...
15. mar 2023

Lifandi hundur er öflugri en dautt ljón

„Efnahagsvandi okkar Íslendinga er fólginn í þeirri fáránlegu skoðun ...
26. sep 2022