Engan ærsladraug í Karphúsið

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, fer yfir stöðu mála í kjaraviðræðum aðila vinnumarkaðarins.

Undanfarnir mánuðir hafa verið undirlagðir af umfjöllun um framgang kjaraviðræðna. Þegar þessi lota fór af stað vonuðu flestir að sjálfsögðu hið besta, en á sama tíma var erfitt að trúa því að útkoman í ár yrði með einhverjum hætti öðruvísi en í fyrra, og árin þar á undan. Frost er komið í viðræður og hefur deilunni verið vísað til Ríkissáttasemjara á þeim grundvelli að Samtök atvinnulífsins hefðu hafnað tilboði um kjarasamninga á grunni hófsamra krónutöluhækkana. Þetta sjá sennilega flestir í gegnum og má hæglega gera ráð fyrir því að blekið væri löngu þornað, ef slíkir samningar hefðu á einhverjum tímapunkti staðið Samtökum atvinnulífsins til boða. 

Það er gott að enn virðist samstaða um meginmarkmið samninganna, að ná niður verðbólgu og vöxtum, en skilningurinn á leiðunum sem færa okkur nær þeim markmiðum er ekki endilega sá sami. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Gjarnan eru nefndar upphæðir sem eiga að rata í vasa launþega en atvinnurekendur vita vel að endanlegur kostnaður kjarasamninga er margfaldur á við þann sem minnst er á í kvöldfréttum tengt kjaraviðræðum. 

Síðustu kjarasamningar voru dýrir skammtímasamningar og þar á undan voru gerðir dýrir langtímasamningar. Almennt hækkuðu grunnlaun um tæp 7% en þó ekki meira en 66.000 kr., að minnsta kosti frá sjónarhóli þeirra sem fá launin greidd. Ofan á það bætist svo launaskriðið, sem vafalaust er afrakstur þeirrar stefnu að hækka lægstu launin hlutfallslega umfram önnur. Á síðasta ári hækkuðu laun um tæp 10% að jafnaði og því má áætla að skriðið hafi verið um 3-4% ofan á kjarasamningsbundnar hækkanir. 

Útborguð laun skipta starfsmenn vitaskuld mestu máli. Vinnuveitendur horfa hins vegar á heildarkostnað vegna launa og launatengdra gjalda. Bilið þar á milli er ansi breitt og þeim sem greiða út launin er skylt að innheimta flest þessara gjalda. Til að geta boðið starfsmanni 685 þúsund krónur í grunnlaun, sem voru meðalgrunnlaun ársins 2022, þarf að leggja út ríflega milljón á mánuði. Eftir lögboðnar skatta- og lífeyrisgreiðslur starfsmanna fær viðkomandi starfsmaður því innan við helming af launakostnaði útgreiddan, eða 484 þúsund krónur. 

Að ofangreindu virtu kemur ekki á óvart að upplifun þessara tveggja aðila sé ólík. Þeir semja um sitt hvorn hlutinn. Að mati Viðskiptaráðs eru sjónarmið atvinnurekenda gjarnan fyrir borð borin í umræðunni og sá kostnaður sem þeim er gert að innheimta fyrir hönd annarra of hár. Jafnframt leynast þar víða tækifæri til að vænka hag launþega án þess að storka enn frekar samkeppnishæfni og verðstöðugleika. Það má gera með því að draga úr þeim fleyg sem rekinn er á milli starfsmanna og atvinnurekenda og hækka grunnlaun um sem því nemur. Í tilfelli meðalgrunnlauna ársins í fyrra nemur fleygurinn um 550 þúsund krónum. 

Í fyrsta lagi mætti lækka tryggingagjaldið, sem er einfaldlega skattur á að hafa fólk í vinnu. Í öðru lagi mætti lækka tekjuskatt og útsvar sveitarfélaga. Svo að aðgerðirnar skili sér í raunverulegum kjarabótum þarf þeim að fylgja samstaða um að hið opinbera dragi úr útgjöldum á móti. Það myndi stuðla að því að ná fyrr tökum á verðbólgunni en það ætti að vera sameiginlegt keppikefli okkar allra að skapa umhverfi þar sem vextir og verðbólga geta tekið að lækka. 

Sé vel haldið á spilunum er því ekkert til fyrirstöðu að verðbólgan náist niður hratt og örugglega. Það er í það minnsta til mikils að vinna svo verðbólgudraugnum verði ekki umbreytt ærsladraug í Karphúsinu. 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. janúar 2023.

Tengt efni

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Vel sóttur Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun, 23. nóvember. Yfirskrift ...
23. nóv 2023