Erlend fjárfesting - nei, takk?

Leggja þarf áherslu á að afnema hindranir og liðka fyrir erlendri fjárfestingu

Elísa Arna Hilmarsdóttir

Í krafti alþjóðavæðingarinnar hefur viðskiptum og fjármagnsstreymi milli landa vaxið ásmegin undanfarna áratugi. Liður í þeim vexti er bein erlend fjárfesting en henni fylgja ýmsir kostir og aragrúi tækifæra sé vel haldið á spöðunum.

Óþrjótandi tækifæri beinnar erlendrar fjárfestingar

Tengsl beinnar erlendrar fjárfestingar og hagvaxtar eru ótvíræð en fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að bein erlend fjárfesting auki bæði framleiðni og hagvöxt. Fjárfestingunni fylgir alþjóðleg þekking og tækni, sem skilar sér í útbreiðslu nýjunga og nýrra framleiðsluhátta sem og aukinni framleiðni heima fyrir.

Þá er bein erlend fjárfesting talin leiða til aukinnar samkeppni á fjármálamörkuðum, bæði innanlands og utan, sem eykur skilvirkni samfara betri nýtingu framleiðsluþátta. Aðkoma erlendra fjárfesta skapar almennt tækifæri til aukinnar innlendrar fjárfestingar og uppbyggingar. Fjármagnsflæði til íslensku sprotafyrirtækjanna í fyrra rennir stoðum undir þá kenningu, en þar komu erlendir fjárfestar að nærri níu af hverjum tíu fjármögnunarlotum.

Með beinni erlendri fjárfestingu má jafnframt ná fram aukinni þjóðhagslegri áhættudreifingu þar sem erlendir fjárfestar taka á sig hluta af rekstraráhættu atvinnulífsins. Geta þeir því síður hörfað í skjól þegar harðnar á dalnum, sem eykur þanþol hagkerfisins þegar illa árar. Innstreymi vegna beinnar erlendrar fjárfestingar er því hvorki talið ógna fjármálastöðugleika né leiða til þjóðhagslegs ójafnvægis, andstætt þeirri hættu sem getur skapast af spákaupmennskuflæði og öðru kviku fjármagnsflæði.

Betur má ef duga skal

Í ljósi ofangreinds skyldi engan undra að vöxtur beinnar erlendrar fjárfestingar sé keppikefli þjóða. Þó vottar fyrir því að annað sé uppi á teningnum hér á landi. Umfang alþjóðlegra fjárfestinga er talsvert minna hér en meðal samanburðarþjóða, sér í lagi umfang beinnar erlendrar fjárfestingar. Hlutfall beinnar erlendrar fjárfestingar inn í landið af vergri landsframleiðslu, sem var ríflega 30% í fyrra, mælist svo lágt að Ísland skipar þar 61. sæti af 63 ríkjum í úttekt IMD háskólans á samkeppnishæfni ríkja fyrir árið 2022. Til samanburðar var hlutfallið um 56% að meðaltali innan OECD og 48% í heiminum öllum.

Hlutirnir hafa jafnframt þróast til verri vegar undanfarin ár en bein erlend fjárfesting inn í landið sem hlutfall af landsframleiðslu hefur dregist saman á Íslandi. Fjárfestingin nam að meðaltali um 35% af vergri landsframleiðslu á árunum 2017-2021, samanborið við 62% hlutfall 2010-2015.

Takmarkaða erlenda fjárfestingu má meðal annars rekja til smæðar hagkerfisins, fjarlægðar frá mörkuðum og fábreyttra útflutningsgreina. Ekki verður þó litið fram hjá þeirri staðreynd að bein erlend fjárfesting sætir hér víðtækari hindrunum en víðast hvar annars staðar en takmarkanir og séríslenskar reglur draga úr aðdráttarafli fyrir erlenda fjárfesta.

Heimild: OECD. 1: FDI Restictiveness-vísitala OECD fyrir árið 2020. Vísitalan er hærri eftir því sem hinranir eru víðtækari, gildið fer hæst í 100.

Miklar hömlur á beina erlenda fjárfestingu

Aðeins tvö OECD-ríki búa við meiri hömlur á beina erlenda fjárfestingu en Ísland. Það eru Nýja-Sjáland og Mexíkó, samkvæmt OECD. Að nokkru leyti skýrist það af verulegum takmörkunum í ákveðnum atvinnugreinum. Hindranirnar eru t.a.m. mestar í sjávarútvegi þar sem eignarhald erlendra aðila í útgerðum má ekki fara umfram 25%. Þá mega erlendir fjárfestar ekki eiga meira en 49% í innlendum flugrekstri, þótt á því séu undanþágur. Hér er þó ekki öll sagan sögð. Hömlur á erlenda fjárfestingu hér á landi eru um þrefalt meiri en gengur og gerist meðal OECD-ríkja. Jafnframt ríkja meiri hömlur hér á landi í öllum atvinnugreinaflokkum, að fjölmiðlum undanskildum.

Inn með fjárfestingu – út með hömlur

Það er deginum ljósara að stjórnvöld þurfa að kortleggja hvernig draga megi úr þessum hindrunum með skipulegum hætti. Augljós tækifæri til úrbóta felast í því að stjórnvöld hverfi frá þeirri tilhneigingu að innleiða EES regluverk með meira íþyngjandi hætti en nauðsynlegt er. Forðast ætti eftir fremsta megni að innleiða séríslensk ákvæði sem gera íslenskum fyrirtækjum erfiðara um vik að keppa við fyrirtæki í nágrannalöndum okkar.

Samkeppnis- og aðgangshömlur eru að jafnaði meiri hér en í öðrum iðnríkjum. Sem dæmi má nefna að þá er flóknara að hefja hér atvinnurekstur og eiga viðskipti en í nágrannalöndum okkar samkvæmt Alþjóðabankanum. Slíkar hindranir eru fælandi fyrir erlenda fjárfesta.

Áhrif þessara takmarkana teygja anga sína víða. Hlutdeild erlendra aðila er um 5% af markaðsvirði skráðra bréfa í kauphöllinni, en hlutfall erlendra fjárfesta í viðskiptum hinna Nasdaq Nordic kauphallanna er um 72%. Leiða má líkur að því að séríslenskar reglur og hömlur hafi sitt að segja.

Horfir til betri vegar

Til að laða að erlenda fjárfestingu þurfa stjórnvöld fyrst og fremst að sýna vilja í verki. Þrátt fyrir bersýnilegan ávinning af slíkri fjárfestingu var litlu púðri eytt í umfjöllun um málefnið í stjórnmálasáttmála ríkisstjórnar. Það er þó mikið fagnaðarefni að lögð hafi verið aukin áhersla á ívilnanir vegna rannsókna og þróunar vegna grænna fjárfestinga í kjölfar þess að lög um almennar ívilnanir nýfjárfestinga runnu út 2020. Það er þó verk fyrir höndum en leggja þarf áherslu á að afnema hindranir og liðka fyrir erlendri fjárfestingu. Að öðrum kosti er hætt við því að samkeppnishæfni Íslands verði teflt í tvísýnu með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á lífskjör almennings.

Elísa Arna Hilmarsdóttir, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði.
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 30. júní 2022 og á vb.is 4. júlí 2022.

Tengt efni

Ógnar nýsköpun þjóðaröryggi?

Hagsmunir af því að fæla ekki enn frekar burt erlenda fjárfestingu eru ...
21. nóv 2022

Hagsmunamál að fæla ekki burt erlenda fjárfestingu

Umsögn Viðskiptaráðs um áform um lagasetningu um rýni á erlendum fjárfestingum ...
10. júl 2022

Leiðin að samkeppnishæfasta ríki heims

Niðurstöður úttektar IMD viðskiptaháskólans í Sviss á samkeppnishæfni ríkja ...
5. júl 2022