Mun lesskilningur skipta litlu í framtíðinni því að allt verður matað ofan í okkur? Verður þekking á grundvallaratriðum um hvernig náttúran og heimurinn virkar gagnlítil? Og jafnvel þó þetta skipti máli er þá til einhvers að mæla árangurinn?
Af orðum nýkjörins formanns Félags grunnskólakennara, Þorgerðar Laufeyjar Diðriksdóttur, að dæma í Kastljósi fyrr í vikunni virðist sem svarið við þessum spurningum sé já. Þar sagði hún: „Það á að felast í menntun að auka og ydda mennskuna. Það hvort að við séum að koma vel út í einhverri þekkingarleit eða PISA-prófum er þekking sem getur jafnvel orðið úrelt á morgun eins og bensínbílarnir eða eitthvað annað“. Þó að tilgangur menntunar sé fjölbreyttur og oft illmælanlegur má gera athugsemdir við orð forystumanns grunnskólakennara um mikilvægi hefðbundinnar þekkingar og mælikvarða á við PISA könnunina.
Lakur árangur í PISA könnunum er staðreynd
Auðvitað kemur það illa við okkur að standa neðarlega á heimslistum þar sem við horfum á nágrannalöndin langt fyrir ofan okkur. En þýðir það að við getum leyft okkur að horfa fram hjá niðurstöðunni og sagt hana ómarktæka? PISA er rannsókn á vegum OECD sem mælir færni 15 ára grunnskólanemenda í yfir 70 löndum í lestri, stærðfræði og náttúruvísindum. Þó að PISA sé takmörkunum háð og segi ekki alla söguna um gæði menntunar er hún engu að síður öflugt tæki til að bera saman árangur grunnskólamenntunar milli landa og yfir tíma. Árið 2015 voru íslenskir grunnskólanemendur undir meðaltali OECD og jafnaldra sinna á Norðurlöndunum í fögunum þremur. Þegar kemur að læsi á náttúruvísindi voru íslenskir nemendur í 29. sæti af 33 og hafa fallið niður um sjö sæti á einum áratug. Árangurinn í stærðfræði og lesskilningi er litlu betri. 24. sæti í stærðfræði og 27. sæti í lesskilningi, sem hvort tveggja er lakari frammistaða en árið 2006 . Með öðrum orðum er árangur Íslands slakur og fer versnandi. Á tímum þar sem samkeppni um öflugan og vel menntaða mannauð fer sífellt harðnandi er ábyrgðarleysi að skella skollaeyrum við slökum niðurstöðum.
Grunnfögin úrelt á morgun?
Verður þekking á borð við stærðfræðikunnáttu, lesskilning og vísindalæsi úrelt og óþörf á næstu árum? Samkvæmt könnun Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) á hvaða færni sé mikilvæg á tímum yfirstandandi tæknibyltingar er ljóst að kunnátta og djúpur skilningur í grundvallarfögum er nauðsynlegur. Efst á listanum eru „færni til að leysa flókin vandamál“ og „gagnrýnin hugsun“. Erfitt er að færa rök fyrir því að þessi tveir þættir krefjist ekki grundvallargetu í lestri, stærðfræði og náttúruvísindum, þó að auðvitað séu aðrir þættir sem spili inn í. Tækniframfarir byggjast á djúpum skilningi einstaklinga á grundvallarfræðum sem þeir geta byggt ofan á með hjálp frekari tækni og vísinda. Að ýja að því að mikilvægi PISA greina sé takmarkað því þau geti „jafnvel orðið úrelt á morgun“ er eins og að hætta að mæta í ræktina í dag vegna óskhyggju um að í framtíðinni komi fram tækni sem gerir okkur öll hraust og heilbrigð án nokkurrar hreyfingar.
Mætum vel undirbúin á mótið
Sjálfsagt má aðlaga próf á borð við PISA betur að breyttum heimi og taka niðurstöður þess með eðlilegum fyrirvara – en leiðin upp á við er að hætta að kvarta yfir dómaranum og rífa liðið í gang. Lítum á dræmar niðurstöðu prófanna sem tækifæri til þess að gera betur. Hugum að aðstöðu og umhverfi kennara jafnt sem nemenda. Látum ekki viðvörunarbjöllur sem vind um eyru þjóta og setjum menntun í forgang.
Höfundur er hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist fyrst í Kjarnanum þann 24. janúar 2018.