Fjórir viðbótar milljarðar á mánuði

Að skapa aukin verðmæti á hverja vinnustund

Það er alþekkt að við Íslendingar erum vinnusöm þjóð. Enda er leið okkar til að brúa framleiðnibilið sem er á milli okkar og nágrannaþjóðanna (þ.e. verðmætasköpun á hverja vinnustund) að verja lengri tíma í vinnunni. Þá takmörkuðu framleiðniaukningu sem orðið hefur á Íslandi undanfarin ár, má fyrst og fremst rekja til betri nýtingar fjármagns en ekki aukinnar framleiðni vinnuafls. Vinnuframlag okkar Íslendinga hefur aukist undanfarin ár samanborið við nágrannalöndin, en aukningin hefur fyrst og fremst verið í atvinnugreinum með lága framleiðni. En þó að framleiðniaukning okkar sé ekki ný í umfjöllun um hvernig tryggja megi hagvöxt til lengri tíma hér á landi, virðist sem lítið eða nánast ekkert fari fyrir þeirri umræðu í samfélaginu – hvað þá hjá stjórnmálamönnum.

Fjölbreyttari stoðir hagkerfisins

Það er okkur eflaust í blóð borið að sveiflast með gangi náttúrunnar þar sem um 80% af útflutningi landsins byggir á náttúruauðlindum í formi sjávarútvegs, orkunýtingar og ferðaþjónustu. Takmarkandi eðli þessara greina setur vexti þeirra skorður og því þarf að huga að uppbyggingu fleiri greina sem geta staðið undir vexti í útflutningstekjum Íslands til lengri tíma. Til þess að hér ríki áframhaldandi hagvöxtur þurfum við að huga að sjálfbærum útflutningi til lengri tíma í formi hugvitsdrifinna greina. Þetta eru greinar sem byggja á hugviti en ekki staðbundnum náttúruauðlindum. Sökum þessa eru slík fyrirtæki hreyfanlegri á milli landa en fyrirtæki auðlindageirans. Fréttir af störfum sem tapast hafa í tiltölulega nýtilkomnum þekkingariðnaði landsins t.a.m. hjá CCP og Össuri, eru meðal annars afleiðing óhagstæðra skilyrða hér á landi fyrir fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni. Það er slæmt að sjá hvernig stjórnvöld virðast líta í hina áttina á meðan við missum þessa mikilvægu starfsemi og þekkingu úr landinu.

Fjórir milljarðar á mánuði

Ef við ætlum að viðhalda 3% hagvexti að meðaltali næstu 20 árin þurfum við að auka útflutningstekjur okkar um 940 milljarða – eða um 4 milljarða á mánuði. Það er auðséð að slíkt verður ekki gert með auknum umsvifum í auðlindardrifinni starfsemi heldur með viðskiptum sem byggja á þekkingu og færni sem hægt er að margfalda án takmarkandi náttúruauðlinda. Menntun, nýsköpun, þróun og frumkvöðlastarf eru hér lykilatriði. Leiðandi alþjóðafyrirtæki í dag eru einungis með brotabrot af þeim starfsmannafjölda sem áður þurfti til að ná ákveðnu tekjustigi og markaðsstærð. Tæknivæðing og vettvangur internetsins hafa gjörbylt viðskiptum og stóraukið framleiðni – bæði fjármagns og vinnuafls. Alþjóðleg samkeppni um hæft starfsfólk og frumkvöðla harðnar með degi hverjum. Ljóst er að við Íslendingar þurfum að huga að langtímastefnu okkar: Hverju viljum við vera góð í og hvernig ætlum við að halda í og laða til okkar færasta fólkið? Á sama tíma þurfum við að huga að undirstöðu sterks mannauðs hérlendis, sem er öflugt og sveigjanlegt menntakerfi sem mætir þörfum síbreytilegs samfélags og alþjóðlegrar samkeppni.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Greinin birtist fyrst í riti Frjálsrar verslunar „300 stærstu" (desember 2017)

Tengt efni

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

Samkeppnishæfni Íslands stendur í stað

Niðurstöður úttektar IMD háskóla á samkeppnishæfni ríkja voru kynntar á fundi ...
20. jún 2023