Fyrir kerfið - gegn almenningi

Af reynslunni er ljóst að með aðkomu einkaaðila á viðeigandi sviðum er hagsmunum sjúklinga vel borgið sem og fjármunum hins opinbera.

Viðbrögð heimsbyggðarinnar við heimsfaraldri COVID-19 hafa sýnt sérstaklega vel fram á kosti öflugs samstarfs hins opinbera og einkaframtaksins þar sem bóluefni hafa verið þróuð og framleidd af lyfjafyrirtækjum á mettíma, í góðu samstarfi við opinbera aðila. Hvorugur aðilinn hefði getað náð þessum árangri á jafnskömmum tíma án hins. Nærtækt dæmi hér á landi er samstarf Íslenskrar erfðagreiningar við heilbrigðisyfirvöld.

Hið opinbera og einkaaðilar eiga að vera bandamenn um árangur. Það sem skiptir máli er að þjónusta við almenning sé góð og skilvirk og að hún sé veitt eins mikið á forsendum notandans og hægt er. Íslendingar eru sammála um að hér á landi eigi að vera öflugt heilbrigðiskerfi, en hvað er það sem einkennir slíkt kerfi? Í slíku kerfi hafa allir aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Hagsmunir sjúklinga eiga að vera í fyrsta sæti; kerfið þjónar fólkinu, en ekki öfugt. Heilbrigðisráðherra virðist hafa aðra sýn á málið og setur hagsmuni kerfisins í forgang. 

Ráðherra svaraði á dögunum gagnrýni á fyrirhugaða reglugerð sína um þjónustu sérgreinalækna og lýsti yfir skýrum vilja til að ná samningum milli ríkisins og læknanna. Ekki væri þó hægt að koma til móts við kröfur lækna sem hefðu séð sig tilneydda til að rukka aukagjöld til hliðar við gjaldskrá SÍ. Læknar hafa bent á að þessi gjaldskrá taki ekki mið af raunkostnaði þjónustunnar. Í grein sinni vísar ráðherra ítrekað til heilbrigðisstefnu sem Alþingi samþykkti 2019. Í þeirri sömu stefnu er einmitt fjallað um að Sjúkratryggingar Íslands hafi ekki gert fullnægjandi mat og greiningar við kaup á þjónustu. Er þá skrýtið að læknar haldi því fram að greiðslur til þeirra taki ekki mið af kostnaði?

Hagsmunir almennings

Því verður ekki haldið fram að kerfið sé gallalaust. Í heilbrigðisstefnunni er raunar fjallað um annmarka sem eru á fyrirkomulagi  þjónustu sérgreinalækna, eins og að kaup ríkisins á þjónustu sérgreinalækna hafi ekki stuðst við greiningu á þörfum sjúklinga og að sérgreinalæknar fái greitt eftir afköstum sem feli í sér hvata til að veita þjónustuna sem oftast og skapi þannig hættu á ofnotkun.

Þessa galla má laga, en með því að víkja sér undan að sníða vankantana af núverandi kerfi og efla samstarf hins opinbera og einkaaðila, stuðlar heilbrigðisráðherra að verri þjónustu við sjúklinga. Þannig munu þeir sem hafa ekki fjárhagslega burði til að nýta sér þjónustu sérgreinalækna ekki eiga neitt val, heldur verða að leita til ríkisrekinna heilbrigðisstofnana með tilheyrandi töfum. Samhliða tapar öll þjóðin þar sem við takmörkum frelsi heilbrigðisstarfsfólks til að velja sér vinnustað og sitjum á endanum eftir í alþjóðlegu kapphlaupi um hæfileikaríkt fólk.

Af reynslunni er ljóst að með aðkomu einkaaðila á viðeigandi sviðum er hagsmunum sjúklinga vel borgið sem og fjármunum hins opinbera. Þar má til dæmis benda á vel heppnaðað aðgerð sem fólst í samningum ríkisins við einkareknar heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu, sem einmitt skora hæst í ánægjukönnunum notenda. Þær hafa hvorki reynst dýrari fyrir einstaklinginn, né hið opinbera.

Ætlun heilbrigðisráðherra er að flytja þjónustu sérgreinalækna á sjúkrahús og heilsugæslustöðvar. Þar með hundsar hún kosti samstarfs við einkaaðila sem felur í sér betri nýtingu fjármuna, styttri biðlista og valfrelsi sjúklinga og starfsfólks. Samstarf sem leiðir til betra heilbrigðiskerfis þar sem hagsmunir almennings eru í öndvegi.

Agla Eir Vilhjálmsdóttir – lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. maí 2021.

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Þarf þetta að vera svona?

„Hérlendis má aftur á móti ætla að læknar þurfi að meðaltali að biðja ...
14. des 2023

Leysa peningar allan vanda?

Heilbrigðiskerfið á að snúast um sjúklingana, fjármagn ætti að fylgja þeim í ...
16. ágú 2021