Fyrirtæki eiga að skila arði

Þrátt fyrir að efnahagsumræða sé oft á tíðum flókin er grundvallarstarfsemi hagkerfa harla einföld. Vinnuafl og fjármagn skapa vörur og þjónustu sem ganga kaupum og sölu á markaði. Fyrir vinnuframlag greiðast laun og fyrir fjárfestingar greiðist arður. Hluta virðisaukans sem verður til á almennum markaði er síðan ráðstafað til samneyslu í gegnum skattkerfið. Á þessum megingrunni byggja öll vestræn hagkerfi. Umræða síðustu vikna bendir til að ýmsir telji rétt að Íslendingar víki frá þessu fyrirkomulagi og hætti að veita eðlilegt endurgjald fyrir fjármagn.

Þannig mættu nýlegar arðgreiðslur skráðra fyrirtækja á hlutabréfamarkaði mikilli gagnrýni frá neytendum, stjórnmálamönnum, fjölmiðlamönnum og jafnvel fulltrúum þeirra samtaka sem standa að rekstri lífeyrissjóða landsins. Málefnaleg gagnrýni og sterkt neytendaaðhald eru heilbrigð einkenni markaða. Sú umræða sem fylgdi áðurnefndum arðgreiðslum fellur því miður ekki í þá flokka.

Skipting kökunnar
Til að unnt sé að skapa verðmæti þarf bæði fjármagn og vinnuafl. Á Íslandi hefur sparnaðar- og fjárfestingarstig verið lágt samanborið við Norðurlöndin þrátt fyrir að hlutfall skyldusparnaðar sé hæst hérlendis. Hvata til fjárfestinga virðist því skorta. Á sama tíma hafa launagreiðslur sem hlutfall af heildarvirðisauka verið háar í alþjóðlegum samanburði. Íslenska þjóðarkakan skiptist því fremur launþegum en fjárfestum í hag. Til lengri tíma getur lágt fjárfestingastig reynst dragbítur á framleiðni og því ástæða til að efla umhverfi til fjárfestinga frekar en að gera það fjandsamlegra.

Eðli fjármagnsmarkaða
Fjárfestar geta valið um ólíkar leiðir þegar kemur að ávöxtun fjármagns. Innstæður á bankareikningum og skuldabréf skila öruggri en hlutfallslega lágri ávöxtun. Fjárfesting í þessum eignum skilar sér til baka með greiðslu vaxta. Fjárfestingar í hlutabréfum fyrirtækja eru áhættusamari valkostur og skila sér til baka í gegnum arðgreiðslur. Þær eru jafnframt mikilvægustu fjárfestingarnar þegar kemur að verðmætasköpun. Fjármögnun samneyslu og greiðsla launa á sér ekki stað nema með arðbærum fyrirtækjum og án þeirra væri grundvöllur efnahagskerfisins numinn á brott. Þetta vita stjórnmálamenn, fjölmiðlar og fulltrúar þeirra samtaka sem eiga aðkomu að rekstri lífeyrissjóða landsins. Það er eðlileg krafa að umræddir aðilar fjalli um arðgreiðslur með framangreindar staðreyndir í huga.

Hverra hagsmuna er verið að gæta?
Lífeyrissjóðirnir eru langstærstu fjárfestar landsins og ávöxtun þeirra skiptir sköpum fyrir afkomu Íslendinga. Þá eru hlutabréf í skráðum félögum meðal bestu fjárfestingakosta sjóðanna, enda vænt langtímaarðsemi tiltölulega há og upplýsingaskylda umræddra fyrirtækja mikil. Það skýtur því skökku við þegar lífeyrissjóðir og aðstandendur þeirra standa í vegi fyrir arðgreiðslum skráðra fyrirtækja í þeirra eigu. Með því er samhliða dregið úr væntri ávöxtun umræddra fyrirtækja og almennum hvata fyrirtækja til að skrá hlutabréf sín á skipulagðan verðbréfamarkað. Hvort tveggja skapar tjón fyrir hagkerfið og vegur að hagsmunum sjóðfélaga lífeyrissjóðanna.

Upplýst umræða er öllum í hag
Tæknilegar afkomutilkynningar veita oft ófullnægjandi svör við spurningum neytenda og annarra hagsmunaðila. Gagnsæi og virk upplýsingamiðlun eru því mikilvægar forsendur trausts. Fyrirtæki landsins þurfa í auknum mæli að laga sig að kröfu um slíka hegðun, einkum stórfyrirtæki á neytendamarkaði. Á sama tíma er óásættanlegt að stjórnmálamenn, fjölmiðlar og aðstandendur lífeyrissjóða fjalli um arðgreiðslur með jafn óábyrgum hætti og raun ber vitni. Heilbrigð fyrirtæki eiga að skila ásættanlegum langtímaarði. Öðruvísi verður ekki staðið undir þeim lífskjörum sem Íslendingar vilja búa við.

Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í Fréttablaðinu, fimmtudaginn 17. mars 2016

Tengt efni

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf - H1 2024

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja útgáfu af The Icelandic Economy. Skýrslan ...
30. apr 2024

Eignarhald íslenska ríkisins á skjön við önnur vestræn ríki 

„Að mati Viðskiptaráðs á hið opinbera ekki að stunda atvinnurekstur sem aðrir ...
12. mar 2024

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic ...
21. ágú 2023