Fyrsta bylgjan lendir á utanríkisverslun

Veruleg lækkun varð milli ára í öllum liðum vöruskipta við útlönd frá 16. mars. Samanlagt dróst útflutningur saman um 17% og innflutningur um 28% á föstu gengi.

Hvert mannsbarn á Íslandi veit að erlendir ferðamenn eru farnir og um þriðjungur gjaldeyristekna landsins er horfinn. En hvað með áhrif Kófsins á önnur utanríkisviðskipti? Á mánudaginn fengum við innsýn inn í fyrstu áhrif á vöruskiptin þegar Hagstofan birti bráðbirgðatölur.

Meðfylgjandi mynd, sem er unnin úr þeim gögnum, er ekki sérlega glæsileg og sýnir breytinguna eftir að samkomu- og ferðabönn skullu á. Veruleg lækkun varð milli ára í öllum liðum hvort sem horft er til útflutnings eða innflutnings. Þó að áhrif á ferðaþjónustugreinar séu mest og áþreifanlegust sýnir þetta að áhrif Kófsins koma fram víðar. Samanlagt dróst útflutningur saman um 17% og innflutningur um 28% á föstu gengi. Þannig minnkaði vöruskiptahallinn um tæpa 14 milljarða króna, sem vegur á móti algjöru hruni í gjaldeyristekjum af ferðaþjónustu.

Rétt er að nefna að bæði inn- og útflutningur tóku við sér þegar leið á apríl. Vikuna 19.-26. apríl var innflutningur t.a.m. einungis 3% minni en sömu viku 2019. Raunverulegur viðsnúningur eða svikalogn? Tíminn mun leiða svarið í ljós.

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í „Ráðdeildinni“ í Markaðnum 6. maí 2020.

Tengt efni

Auknar ráðstöfunartekjur í heimsfaraldri

Útlit er fyrir að tekjujöfnuður hafi staðið í stað á síðasta ári en dregið hafi ...
5. júl 2021

90% af hagkerfinu í lagi? Frekar 10%

Færri störf, minni fjárfesting og minni verðmæti í langflestum atvinnugreinum
9. apr 2021

17.000 störf til að útrýma atvinnuleysi

Jafnvel þótt horfur séu góðar í baráttunni við kórónuveiruna er enn nokkuð í ...
23. feb 2021