​Hið góða, hið slæma og hið ófrýnilega

Þegar fram líða stundir verður forvitnilegt að vita hvort árið 2019 verði í minnum haft sem ár einstakrar sumarblíðu, óvissu í ferðaþjónustu eða e.t.v. ár lífskjarasamningsins? Í þá var lögð mikil vinna og allir aðilar sýndu ábyrgð og hugkvæmni um lausnir. Óvissa er þó um endanlega niðurstöðu og horfa má á stöðuna út frá eins konar þríleik; hinu góða, hinu slæma og hinu ófrýnilega.

Hið góða

Í upphafi árs voru blikur á lofti þegar horft var til krafna verkalýðshreyfingarinnar sem voru í besta falli í litlu samræmi við hinn efnahagslega raunveruleika. Margir spáðu hörðum vinnudeilum og áskorunin var að glopra ekki niður þeim góða árangri sem aðilar vinnumarkaðar höfðu náð á undangengnum árum og áratugum. Fall WOW air hristi rækilega upp í viðræðunum og var án efa stór þáttur í því að skynsamleg lending náðist.

Niðurstaðan er að kaupmáttur launa, þ.e. hversu mikið fólk fær í raun og veru fyrir launin sín, virðist ætla að aukast í fyrsta sinn í niðursveiflu síðan árið 1991, þ.e. á mælikvarða vísitölu kaupmáttar launa fyrir fyrstu tíu mánuði ársins. Ísland státar af einum hæstu launum í heimi og eru þau óvíða jafnari. Atvinnurekendur hafa lagt mikið á sig til þess að geta mætt þessum launahækkunum án þess að hækka vöruverð. Spurningin er þó hvenær þolmörkum er náð. Á heilum áratug hefur launakostnaður á framleidda einingu hér á landi hækkað um 27% á raunvirði – slík þróun er ekki vænleg fyrir þá sem standa í hagnaðardrifnum rekstri.

Enn sem komið er virðast þó forsendur kjarasamninga ætla að halda og þar er lykilatriði að vextir hafa lækkað um 1,5 prósentustig á árinu.

Hið slæma

Engin er rós án þyrna. Þrátt fyrir að tekist hafi að auka kaupmátt á árinu er engu að síður niðursveifla og atvinnuleysi hefur verið að aukast. Á síðustu mánuðum hefur skráð atvinnuleysi farið stigvaxandi; úr 2,5% í nóvember á síðasta ári í 4,1% nú í nóvember. Nú er svo komið að í nóvember voru 7.617 einstaklingar sem vilja og geta unnið en fá ekki störf. Það eru um 3.000 fleiri en á sama tíma í fyrra. Hagræðingaraðgerðir fyrirtækja á undanförnum mánuðum, sem birtast í þeim tölum, hafa ekki farið fram hjá neinum. Óskhyggja trompar ekki efnahagslögmálin, svo ef niðursveiflan dregst á langinn og kemur ekki fram í verðbólgu, og þar með raunlaunalækkun, mun hún á endanum koma fram í auknu atvinnuleysi.

Hið ófrýnilega

Hinn vafasama titil; hið ófrýnilega, hlýtur staða mála á opinbera vinnumarkaðnum að þessu sinni. Þar virðist enn vera nokkuð í land og ljóst að t.a.m. BHM er ekki á því að fallast á krónutöluhækkanir líkt og lífskjarasamningurinn gengur út á. Á sama tíma er það staðreynd að atvinnuleysi meðal háskólafólks hefur aukist jafnt og þétt, en í október síðastliðnum voru samtals 1.983 háskólamenntaðir einstaklingar skráðir án atvinnu miðað við 1.213 á sama tíma í fyrra, skv. tölum Vinnumálastofnunar. Forsenda þess að lífskjarasamningarnir haldi er að þeir nái til alls vinnumarkaðarins. Ábyrgð samtaka opinberra starfsmanna er því mikil. Opinberir starfsmenn njóta meira starfsöryggis en þeir sem starfa á einkamarkaði. Á tímum niðursveiflu er starfsöryggi dýrmætt þeim sem þess njóta. Full ástæða er til að höfða til þeirrar ábyrgðar í þeirri stöðu sem nú er uppi.

Hvort árið 2019 verði ár lífskjarasamningsins eða einhvers annars má eiginlega segja að sé í höndum hins opinbera en ljóst er að fara þarf af varúð með þá jákvæðu en viðkæmu stöðu sem íslenskt samfélag er í.

Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum 27. desember 2019

Tengt efni

Hversu vel þekkir þú hið opinbera? 

Viðskiptaráð kynnir nýjan spurningaleik um hið opinbera. Hvað eru margar ...
20. feb 2024

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

Skýrsla Viðskiptaþings 2024 - Hið opinbera: Get ég aðstoðað?

Í skýrslunni er fjallað um hið opinbera og hvernig megi bæta þjónustu þess til ...
8. feb 2024