Græn prik og gráar gulrætur

Mikil tækifæri eru til að bæta úr beitingu grænna skatta og ívilnana, og þannig takast á við eitt stærsta úrlausnarefni samtíma okkar, ef ekki það stærsta, á sem skynsamlegastan máta.

Allt frá barnauppeldi, yfir í mannauðsstjórnun í stórum fyrirtækjum og víðar í samfélaginu eru flestir sammála um að einhverskonar blanda af aga og hvatningu sé vænlegust til árangurs. Jafnvel heldur meira af því síðarnefnda. Það er til dæmis mikilvægt að hvetja börn áfram til dáða í því sem er vel gert, en að sama skapi mikilvægt að setja skýr mörk um hvað má ekki. Svo við þýðum enska samlíkingu, þá þarf bæði „gulrót og prik“ til að hvetja okkur til góðra verka.

Prik og gulrætur í loftslagsmálum

Það er kannski óhefðbundið en þó merkilega nærtækt að hugsa um aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum í þessu samhengi. Mikill samhljómur er um að við sem þjóð og heimsbyggðin öll þurfi að ráðast í markvissar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hluti af lausninni er efnahagslegir hvatar, eins og rakið er í nýlegri Skoðun Viðskiptaráðs, „Í grænu gervi: Grænir skattar og aðgerðir í loftslagsmálum“.

Skatturinn sem á að eyða sér sjálfur

Í Skoðuninni er einkum horft til þess hvað þurfi að hafa í huga við græna skattlagningu, en með hæfilegri einföldun má segja að allavega tvennt sé lykilatriði. Grænir skattar, eins og t.d. kolefnisgjald, eru eðlisólíkir öðrum sköttum að því leyti að þeir eiga fyrst og fremst að hafa áhrif á hegðun. Áhrifin á hegðun eiga raunar þegar upp er staðið að draga úr skattbyrðinni og í einhverjum tilfellum útrýma skattinum, t.d. kolefnisgjaldi ef kolefnishlutleysi er náð. Þess vegna er í fyrsta lagi mikilvægt að ekki sé litið á græna skatta sem hverja aðra tekjuöflun ríkisins til að auka opinber umsvif heldur sem markvisst tól til að ýta okkur í átt að umhverfisvænni tækni og athöfnum.

Samspil hvata

Við vitum þó að ógnun með priki og neikvæðir hvatar á við skatta nægja ekki endilega einir og sér til að ná fram markmiðum okkar. Við þurfum líka gulrætur og umbun fyrir að vinna í átt að markmiðum um samdrátt CO2 losunar og því er í öðru lagi nauðsynlegt að horfa einnig til ívilnana og skattalækkana. Eins og gert er í fyrrgreindri Skoðun er einfalt að sýna fram á að ef grænir skattar fjármagna markvissar ívilnanir geti áhrifin á hegðun verið mun meiri þar sem ívilnanir auka enn frekar á fjárhagslega hvatann til þess að kaupa t.d. rafbíl frekar en bensínbíl.

Hægt er að ná sambærilegum áhrifum einfaldlega með almennum skattalækkunum. Það er raunar í takt við tilmæli OECD frá 2015 um að grænir skattar geti fært skattbyrði frá öðrum og meira raskandi skattstofnun. Þar að auki sýna rannsóknir að líklegra sé að sátt skapist um græna skatta og þeir öðlist brautargengi ef aðrir skattar lækka til mótvægis.

Tekjuhlutleysi er töfraorðið

Ef við tökum saman þessi tvö lykilatriði, markmiðið með grænum sköttum og hvata í víðara samhengi, er niðurstaðan óhjákvæmilega sú að tekjuhlutleysi er það einstaka atriði sem skiptir mestu máli við setningu grænna skatta. Tryggja þarf að grænir skattar séu ekki enn einn tekjustofn ríkisins og auki heildarskattbyrði. Ekki einvörðungu til þess að halda aftur af skattbyrði í háskattaríki eins og Íslandi heldur einnig, og það sem er mikilvægara í þessu samhengi, til að markmiðið með grænum sköttum séu líklegri til að nást.

Mikil tækifæri til úrbóta

En hvernig er þessu háttað hér á landi? Það er nokkuð erfitt að ná utan um það enda skilgreiningar á grænum sköttum og útgjöldum í umhverfismálum ekki ætíð þær sömu. Vísbendingar eru þó um að hið opinbera sé aðallega umhugað um græn „prik“ á meðan „gulræturnar“ eru gráar. Það sést t.d. á myndinni hér að miðað við skilgreiningu OECD á grænum sköttum eru tekjur af þeim meira en tvöfalt hærri en útgjöld til umhverfismála alls, að meðtöldum skattastyrkjum á við ívilnanir vegna vistvænna bíla.  Þá er skortur á gagnsæi því ekki er samræmi í hvernig horft er á útgjöld til umhverfismála milli ríkisreiknings og hagstofugagna.

Í öllu falli er ekki að sjá að stjórnvöld séu nægilega meðvituð um ofangreind sjónarmið og hafi tekjuhlutleysi í fyrirrúmi. Það er ekki vænlegt til árangurs, en undirstrikar hversu mikil tækifæri eru til að bæta úr og takast á við eitt stærsta úrlausnarefni samtíma okkar, ef ekki það stærsta, á sem skynsamlegastan máta.

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í fylgiriti Viðskiptablaðsins 13. febrúar 2020: Viðskiptaþing - Á grænu ljósi

Tengt efni

Fullt hús á námskeiði Viðskiptaráðs og LOGOS

Helga Melkorka Óttarsdóttir og Arnar Sveinn Harðarson fjölluðu um breytingar á ...
10. mar 2023

Námskeið um breytt regluverk

Viðskiptaráð og LOGOS standa fyrir námskeiði um breytingar á regluverki á sviði ...
28. feb 2023