Hækkun bankaskatts er bjarnargreiði

Hver greiðir raunverulega bankaskattinn?

Að undanförnu hefur talsverð umræða átt sér stað um mikinn hagnað íslensku bankanna en í henni hefur samhengi hlutanna farist fyrir. Mikið eigið fé er bundið í starfsemi bankanna og eru kröfur um slíkt lögbundnar, ólíkt því sem þekkist í öðrum atvinnugreinum. Engin önnur atvinnugrein hefur álíka mikið eigið fé bundið í rekstri og því er eðlilegt að meta hagnaðinn í hlutfalli við það eigið fé, frekar en að horfa á afkomutölurnar einar saman. Arðsemi eigin fjár bankanna árið 2021 var að meðaltali 12,6% en að frádregnum einskiptisbreytingum í virðisrýrnun og að teknu tilliti til verðlagsþróunar var raunávöxtun eigin fjár aðeins um 5,3% að meðaltali. Slíkt getur vart talist ofurhagnaður.

Samhliða þessari umræðu heyrast einnig hugmyndir um að hækka hinn svokallaða bankaskatt, en það er skattur sem leggst á heildarskuldir banka umfram 50 ma.kr. Bankaskatturinn hér á landi er nú þegar mun hærri en í samanburðarlöndum og heyrir hann t.a.m sögunni til í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Ítalíu svo fáein ríki séu nefnd. Þá ber auk þess að nefna að í heild eru þrenns konar sérstakir skattar lagðir á fjármálafyrirtæki en slíkt þekkist ekki meðal annarra vestrænna ríkja. Það liggur því í augum uppi að frekari hækkun á bankaskattinum er til þess fallin að draga úr samkeppnishæfni íslensku bankanna á alþjóðavettvangi. Það hlýtur hins vegar að vera keppikefli bæði stjórnvalda og landsmanna að auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, þ.m.t. bankanna, sem er ein af grundvallarforsendum hagsældar.

Bankaskatturinn skekkir auk þess samkeppnisstöðu bankanna á innlendum lánamarkaði þar sem skattlagningin hækkar fjármögnunarkostnað þeirra en ekki allra lánveitenda. Bankarnir standa í beinni og harðri samkeppni við lífeyrissjóði á húsnæðislánamarkaði en tilvist bankaskattsins dregur úr möguleikum bankanna til að keppa við þau vaxtakjör sem lífeyrissjóðir geta boðið. Þá gera lífeyrissjóðir almennt kröfu um hærri útborgun og þar með lægra veðhlutfall en þekkist hjá bönkunum sem leiðir til þess að hinir efnaminni hafa síður tök á því að taka lífeyrissjóðslán. Þessir sömu einstaklingar bera því skarðan hlut frá borði þegar skattar á banka hækka á meðan þeir sem hafa möguleika til lántöku hjá lífeyrissjóðum njóta betri kjara. Það kann varla góðri lukku að stýra.

Einnig hefur borið nokkuð á umræðu um aukinn vaxtamun bankanna hér á landi. Vaxtamunur er munurinn á þeim vöxtum sem bankarnir greiða heimilum og fyrirtækjum fyrir innlán sín og vöxtum sem þeir leggja á útlán. Staðreyndin er hins vegar sú að vaxtamunur hefur ekki verið lægri síðan 2008 og er nú að meðaltali 2,5%. Rétt er að nefna að vaxtamunur íslensku bankanna er þó talsvert meiri en þekkist meðal annarra norrænna banka. Skýrist það að stórum hluta af þeirri stærðarhagkvæmni sem næst erlendis og vegur þungt í rekstri banka en auk þess leiða hinir sérstöku íslensku skattar á fjármálafyrirtæki einnig til aukins vaxtamunar.

Í umræðunni hefur lítið farið fyrir þeirri staðreynd að hærri bankaskattur leiðir af sér hærri útlánavexti og rýrir ávöxtun sparnaðar heimila og fyrirtækja. Skatturinn er því til þess fallinn að reka fleyg milli útlánavaxta og innlánsvaxta sem eykur vaxtamun enn frekar og skilar sér í verri kjörum til heimila og fyrirtækja, þvert á markmið ríkisstjórnarinnar. Kostnaði vegna skattlagningarinnar er því velt yfir á almenning. Honum er þannig enginn greiði gerður með hærri bankaskatti, andstætt því sem haldið hefur verið fram. Skýrasta tækifærið til að draga úr þeim vaxtamun sem er til staðar og koma þannig til móts við almenning er að lækka bankaskattinn enn frekar eða afnema hann að fullu. Hugmyndir um hærri bankaskatt ásamt ríkjandi kröfu um lægri vaxtamun er ósk sem að öðru óbreyttu fæst vart uppfyllt í náinni framtíð. Það er jú ógerlegt að eiga kökuna og borða hana líka.

Elísa Arna Hilmarsdóttir er hagfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands.

Grein birtist fyrst á vb.is þann 17. febrúar.

Tengt efni

Ítalska framsóknarleiðin

„Mælistika sem leggja þarf á skatta er hvort þeir séu góð hugmynd til langs ...
29. ágú 2023

Ríkið herðir hnútinn á leigumarkaði

Frumvarp um breytingar á húsaleigulögum er enn einn rembihnúturinná leigumarkaðinn
31. ágú 2023

Frumvarp til breytingar á raforkulögum þarfnast talsverðar endurskoðunar

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr. ...
15. mar 2023