Hugvit leyst úr höftum

Fáar skýrslur hafa haft jafn mikil áhrif á efnahagsumræðu hér í landi og skýrsla McKinsey & Company „Charting a Growth Path for Iceland“ sem kom út árið 2012. Hlutleysi einkenndi skýrsluna en fyrirtækið vann hana án afskipta innlendra aðila og án endurgjalds. Að mati McKinsey fólust helstu sóknarfæri Íslendinga í aukinni framleiðni og hugvitsdrifnum útflutningi. Skilaboðin náðu áheyrn víða og hafa verið til umræðu síðustu ár.

Í síðustu viku gaf Viðskiptaráð út rit undir heitinu „Leiðin að aukinni hagsæld“. Þar er lagt mat á efnahagslega framvindu frá því að McKinsey skýrslan var gefin út og helstu greiningar hennar uppfærðar. Sterkur hagvöxtur hefur einkennt síðastliðin fjögur ár en ólíkt því sem McKinsey lagði áherslu á má einkum rekja hagvöxtinn til aukins vinnuframlags fremur en vaxandi framleiðni. Með öðrum orðum er verðmætasköpun á hverja vinnustund ekki að aukast.

Alþjóðageirinn hefur átt undir högg að sækja
McKinsey benti jafnframt á að takmarkað eðli náttúruauðlinda reisi vaxtarmöguleikum þeirra útflutningsgreina sem tilheyra auðlindageiranum skorður, þ.e. ferðaþjónustu, orkufrekum iðnaði og sjávarútvegi. Því þurfi að efla útflutning sem byggir ekki á beinu aðgengi að náttúruauðlindum heldur marki samkeppnisstöðu sína á hugviti og sérhæfingu. Umrædd fyrirtæki spretta oft á tíðum upp innan auðlindageirans í gegnum vörur og þjónustulausnir sem nýtast fleiri þjóðum en Íslandi. Að mati McKinsey ætti þessi hluti hagkerfisins, sem nefndur var alþjóðageirinn, að standa undir stigvaxandi hlutfalli af útflutningstekjum á komandi áratugum. Aðeins þannig væri unnt að skapa bæði kröftugan og sjálfbæran hagvöxt til margra áratuga.

Alþjóðageirinn hefur hins vegar átt undir högg að sækja og nánast ekkert vaxið frá árinu 2011. Á sama tíma hefur sterkur vöxtur ferðaþjónustunnar knúið hagkerfið áfram og stuðlað að þeim mikla efnhagslega viðsnúningi sem Íslendingar hafa upplifað undanfarin ár. Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur reynst mikill búhnykkur en til lengri tíma er brýnt að útflutningur byggi á fleiri stoðum. Til að svo megi verða þarf innlent rekstrarumhverfi að standast alþjóðlegan samanburð.

Loksins, loksins
Höft á fjármagnsflæði og gjaldeyrisviðskipti hafa verið helsti þrándur í götu alþjóðageirans frá hruni bankakerfisins. Alþjóðageirinn óx um 8% á ári yfir það 15 ára tímabil þar sem frjálst flæði fjármagns ríkti en frá því höftum var komið á hefur vöxturinn horfið. Að mati undirritaðs ræður skert aðgengi innlendra nýsköpunarfyrirtækja að erlendum fjárfestum og fjármálamörkuðum þar mestu. Þannig hafa gjaldeyrishöft að miklu leyti staðið í vegi fyrir erlendum samstarfsverkefnum, yfirtökum og annarri viðskiptaþróun. Allt eru þetta grundvallarþættir í þroskaferli þeirra fyrirtækja sem sækja á alþjóðlegan markað með vörur sína og þjónustu.

Í þessu ljósi er frumvarp um losun hafta stórt og tímabært skref fyrir framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á Íslandi. Heimild innlendra fyrirtækja til beinnar erlendrar fjárfestingar er þar sérstakt fagnaðarefni. Til að tryggja kröftugan útflutningsvöxt til lengri tíma, sem byggir jafnframt á fjölbreyttum grunni, er mikilvægt að frumvarpið nái fram að ganga og að fullt afnám hafta fylgi í náinni framtíð. Samhliða öðrum umbótum í rekstrarumhverfi innlendra fyrirtækja skapast þannig sterkar forsendur fyrir kröftugum og sjálfbærum hagvexti til lengri tíma. Í slíkum áherslum felst leiðin að aukinni hagsæld á Íslandi.

Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs
Greinin birtist í Fréttablaðinu þriðjudaginn 30. ágúst 2016

Tengt efni

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023

Lífstílsverðbólga stjórnvalda

Lækning lífstílsvanda stjórnvalda er tiltekt og forgangsröðun í útgjöldum ...
23. okt 2023

Ákvörðun sem kostað hefur íslenskt atvinnulíf 9,8 milljarða

Að innleiða regluverk, sem sniðið er að milljóna manna þjóðum, með meira ...
2. okt 2023