Hvað eiga Ísland, Mósambík og Kongó sameiginlegt?

Þá séu svo einfaldir útreikningar fremur til þess fallnir að kasta ryki í augun á fólki heldur en að varpa ljósi á stöðuna eins og hún raunverulega er.

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur

Ísland framleiðir mest af raforku í heimi miðað við íbúafjölda. Framkvæmdastjóri Landverndar birti nýverið grein sem dregur upp dökka mynd af stöðu orkumála á Íslandi. Af skrifunum að dæma mætti telja að um sé að ræða svartan blett á safni „höfðatöluheimsmeta“ Íslands en svo er ekki. Engin önnur þjóð hefur jafn hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku. Engin önnur þjóð framleiðir jafn mikið af grænni orku á íbúa. Engin önnur þjóð er jafn nálægt fullum orkuskiptum.[1]

Í greininni sem um ræðir er því haldið fram að ábati af íslenskri raforkuframleiðslu sé afar slakur. Nánar tiltekið segir að „samkvæmt úttekt tímaritsins Economist er Ísland með fjórðu verstu verðmætasköpun í heiminum á orkueiningu (verg þjóðarframleiðsla á gígavattstund)“. Út frá því er sú ályktun dregin að mistekist hafi með öllu að tryggja að raforkusalan skili sér í ábata fyrir íslenskt samfélag. En mælikvarði er ekki sama og mælikvarði, eins og ég kem að hér síðar.

Framsækni í fyrri tíð að þakka

Fullyrðingar Landverndar stangast á við almennt viðurkenndan ávinning af framsækni Íslendinga í orkumálum. Um miðja síðustu öld stefndi í orkuskort á Íslandi en fjárfesting í virkjunum var framþung og kostnaður við aukna orkuöflun hefði reynst okkur um megn. Þá var gripið til þess ráðs að para saman virkjanir við stórnotendur raforku. „Þannig að með sölu á orku til nýrrar stóriðju var bæði hægt að koma á nýjum útflutningsiðnaði og tryggja ódýra raforku fyrir innlendan markað um langa framtíð“ sagði Jóhannes Nordal heitinn, fyrrverandi seðlabankastjóri og stjórnarformaður Landsvirkjunar.[2]

Þó svo að orkukrísa hafi valdið ríkjum Evrópu verulegum búsifjum undanfarin tvö ár búum við svo vel á Íslandi að hafa ekki fundið fyrir áhrifunum í hærri rafmagns- eða húshitunarreikningum. Áætla má að íslensk heimili hefðu þurft að greiða um 20 milljörðum meira fyrir hita og rafmagn ef verðþróun hér á landi hefði verið sambærileg við Evrópu.[3] Þennan ávinning eigum við framsækni í fyrri orkuskiptum að þakka. Þá er sú staðreynd ótalin að stóriðjan er ein af fjórum meginstoðum útflutnings Íslands og aflaði um þriðjung útflutningstekna fyrstu 9 mánuði ársins 2022.[4]

Samhengislaus samanburður

En hvað þá með mælikvarðann sem framkvæmdastjóri Landverndar notar í grein sinni til að rökstyða að við Íslendingar fáum svona lítið út úr allri þessari orku sem við framleiðum? Á vef Bandarísku Orkustofnunarinnar segir að mælikvarðinn orkukræfni (e. energy intensity) mæli hlutfallið milli orkunotkunar og vergrar landsframleiðslu (VLF). Þar segir að mælikvarðinn sé þýðingarlítill þegar litið er á hagkerfi í heild sinni. Þá séu svo einfaldir útreikningar fremur til þess fallnir að kasta ryki í augun á fólki heldur en að varpa ljósi á stöðuna eins og hún raunverulega er. [5] Skoðum nánar hvað veldur.

Ísland á það sameiginlegt með þróunarríkjunum Mósambík og Kongó að hafa fremur lágt hlutfall landsframleiðslu á móti orkunotkun. Þetta hafa hagsmunasamtökin Landvernd áður fjallað um. Eftir minni bestu vitund hefur Ísland aldrei áður verið í samanburðarhópi þessara ríkja þegar kemur að verðmætasköpun, hagsæld íbúa eða stefnumarkandi ákvörðunum í orkumálum. Þegar kafað er dýpra í þennan einfalda mælikvarða sést enn betur hvers vegna hann leiðir af sér gallaðan samanburð.

Kómoreyjar hafa hæsta hlutfall verðmætasköpunar á orkunotkun, fremst meðal þjóða á þennan mælikvarða. Eyríkið þakkar ekki þennan árangur framsækni í efnahags- eða orkumálum. Þvert á móti er þjóðin meðal fátækari ríkja heims og hafa aðeins um 8% íbúa aðgang að raforku. [6] Ástæðan fyrir því að þjóðin hefur svo hátt hlutfall á þennan mælikvarða, þrátt fyrir sérstaklega litla landsframleiðslu, er að orkunotkun er með því minnsta sem gerist. Kómoreyjar skapa sem sagt mjög lítil verðmæti úr nánast engri orku. Það er ekki árangur sem við stefnum að, ef árangur mætti kalla.

Þegar mælikvarðinn er settur í samhengi við landsframleiðslu á íbúa skýrist vandinn. Hann segir lítið sem ekkert til um verðmætasköpun hagkerfis né orkunotkun heldur einskorðast hann við hlutfall stærðanna tveggja. Þegar er komið á daginn er verðmætasköpun á Íslandi er ekki aðeins hærri í Mósambík og Kongó heldur einnig á Kómoreyjum. Hér er auðvitað ekki um nein ný tíðindi að ræða.

Engin lausn fólgin í því að flytja vandann annað

Það eru fleiri ástæður að baki því að landsframleiðsla á móti orkunotkun er minni á Íslandi en gengur og gerist. Íslenskt hagkerfi er háð hlutfallslega fáum stoðum útflutnings og því gegnir orkusækinn iðnaður veigamiklu hlutverki í gjaldeyrisöflun hagkerfisins. Mikilvægi atvinnugreinarinnar er hlutfallslega meira en í öðrum ríkjum og af þeim sökum mælist orkukræfni íslensks hagkerfis meiri. Þessu orsakasamhengi má ekki snúa á hvolf og halda því fram að vegna mikilvægis greinarinnar skili hún litlu í þjóðarbúið.

Þá er enn einn galli mælikvarðans ótalinn en OECD segir að orkukræfni geti lækkað vegna tilfærslu orkufreks iðnaðar á borð við málmframleiðslu til annarra landa. Slík útvistun geti því aukið á umhverfisvandann þegar framleiðslan færist þangað sem hún er óskilvirkari – og óhreinni. [7] Hafa þarf í huga að ál sem framleitt er hérlendis er með um tífalt lægra kolefnisfótspor en það sem framleitt er með kolaorku í Asíu. Með öðrum orðum er til lítils að draga úr losun á einum stað, ef það þýðir að hún verði margföld á öðrum. Þessi varnarorð mætti Landvernd gjarnan taka til sín en þeirra framtíðarsýn í orkuskiptum gerir ráð fyrir því að verulega verði dregið úr vægi stóriðju hér á landi. [8]

Umræða um stefnur og ákvarðanir í atvinnu-, umhverfis- og/eða loftlagsmálum á alltaf rétt á sér en hún þarf að vera reist á traustum grunni. Að öllu virtu stenst það enga skoðun að halda því fram að fjárhagslegur ábati af raforkusölu sé sá lægsti í heiminum og mælikvarðinn sem Landvernd leggur því til grundvallar er í besta falli villandi.

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði

Greinin birtist fyrst á Vísi 5. apríl 2023

Tengt efni

Hver er þín verðbólga?

Viðskiptaráð hefur sett upp reiknivél sem gerir hverjum og einum kleift að ...
17. ágú 2022

Hver er þín verðbólga?

Reiknivél Viðskiptaráðs sem gerir hverjum og einum kleift að reikna sína ...
13. mar 2023

Hver er þín verðbólga?

Viðskiptaráð hefur sett upp reiknivél sem gerir öllum kleift að reikna sína ...
29. mar 2023