Hvar er vondi kallinn?

Eru fyrirtæki vond? Græðir einhver á því að fyrirtæki hagnist? Hvað gera fyrirtækin við peningana? Hvað gera hluthafarnir við arðgreiðslurnar sínar?

Viðskiptaráð Íslands auglýsir hér með eftir vonda kallinum í íslensku atvinnulífi.
Viðskiptaráð Íslands auglýsir hér með eftir vonda kallinum í íslenska atvinnulífinu.

Umræða um fyrirtækjarekstur og atvinnulíf á Íslandi er stundum sérstök. Íslensk fyrirtæki eru af öllum stærðum og gerðum og eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Flest þeirra eru lítil, oft í fjölskyldueigu, önnur eru stærri og nokkur þeirra eru stór á íslenskan mælikvarða, þótt öll séu þau agnarsmá í alþjóðlegu samhengi.

Það er alls konar fólk sem rekur, vinnur fyrir eða verslar við fyrirtæki. Í raun er þar allt samfélagið undir. Eins og gengur og gerist er þessi hópur að uppistöðu til gott fólk. Inn á milli eru samt fífl og svikahrappar.

Stundum er gefið í skyn, jafnvel haldið fram berum orðum, að hagsmunir fyrirtækja og almennings fari ekki saman. Þegar fyrirtæki græða peninga, tapi almenningur. Ekkert er jafn fjarri sanni. Hagsmunir atvinnulífsins og almennings í landinu eru algjörlega samofnir, í öllum skilningi. Hér ætlum við að skoða hvernig þessir hagsmunir tengjast.

Starfsfólk, hluthafar og viðskiptavinir eru, þegar allt kemur til alls, fyrirtækið.
Starfsfólk, hluthafar og viðskiptavinir eru, þegar allt kemur til alls, fyrirtækið.

Hvað er fyrirtæki?

Byrjum á byrjuninni. Að forminu til er fyrirtæki félag með kennitölu og heimilisfang. Í upphafi er fyrirtæki bara hugmynd. Í raun eru fyrirtæki, í sinni einföldustu mynd, samt ekki neitt nema fólk, hugmyndir, framleiðslutæki og afrakstur þessara þriggja meginstoða. Fyrirtæki er starfsfólkið, hluthafarnir og viðskiptavinirnir.

Fyrirtæki er starfsfólkið vegna þess að án þess kæmust hugmyndir aldrei til framkvæmda. Starfsfólkið býr til vörurnar og veitir þjónustuna sem viðskiptavinirnir kaupa. Starfsfólkið þróar líka áfram hugmyndir og býr til nýjar vörur á grunni þeirra sem fyrir eru.

Fyrirtæki er hluthafarnir sem marka stefnuna í upphafi og leggja til fjármagnið sem þarf til að breyta hugmyndum í verðmæti. Það er ekki hægt að kaupa hús eða færiband nema einhver borgi fyrir það í upphafi. Hluthafarnir veðja á að þörf sé á vöru eða þjónustu, ráða starfsfólkið og reyna að sannfæra viðskiptavini um að þetta tvennt fullnægi þörfum þeirra. Hluthafarnir geta hagnast ef allt gengur upp. Þeir geta líka tapað öllu ef illa gengur.

Fyrirtæki eru viðskiptavinir sem hafa þarfir sem þarf að fullnægja. Án viðskiptavina væru fyrirtæki ekki til. Viðskiptavinir eru bara hluti af fyrirtækjum vegna þess að þeir telja sig betur setta í viðskiptum við þau en án þeirra. Viðskiptavinir njóta góðs af fyrirtækinu vegna þess að það býður þeim eitthvað sem þeir geta, eða vilja, ekki vera án.

Hvað gera fyrirtæki við peninga?

Fyrirtæki gera alls konar við peninga. Að uppistöðu til eru þeir samt aðallega notaðir til þess að borga laun og launatengd gjöld, skatta og önnur opinber gjöld, leigu, fjárfesta í framleiðslutækjum, kaupa aðföng og þjónustu, í markaðssetningu og ef vel gengur til að greiða út arð.

Til þess að skilja þetta betur er gott að taka dæmi. Allir Íslendingar þekkja Bónus, Hagkaup og Olís. Þessi fyrirtæki eru í eigu Haga, sem á fleiri fyrirtæki. Hagar eru aðallega í smásölu og heilt yfir eru um 2.500 starfsmenn sem vinna fyrir Haga og fyrirtæki í þeirra eigu. Hagar eru mjög stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða.

Á rekstrarárinu 2020-2021 keyptu Hagar vörur (matvæli, eldsneyti o.fl.) af öðrum fyrirtækjum fyrir 93 milljarða og seldu til viðskiptavina fyrir 119,5 milljarða. Mismunurinn á þessu kallast framlegð. Hún var 26,5 milljarðar.

Fyrirtæki nota þessa framlegð til að borga kostnað. Ef kostnaðurinn er hærri en framlegð þurfa fyrirtæki að borga fyrir mismuninn úr varasjóðum ef þeir eru til, en annars þurfa hluthafar eða lánveitendur að borga það sem vantar upp á. Ef allt fer á versta veg verður fyrirtækið gjaldþrota og þarf að hætta starfsemi, segja upp starfsfólki og gera upp það sem það skuldar. Það gerist reglulega, enda er fyrirtækjarekstur áhættusamur.

En Hagar notuðu samtals tæpa 13 milljarða til að borga starfsfólki laun og afleidd gjöld. 10,5 milljarða beint í laun, 1,3 milljarða í lífeyrissjóðsiðgjöld og 1 milljarð í önnur launatengd gjöld. Hluti af þessu fór beint í tekjuskatt og útsvar.

Hagar borguðu 2,1 milljarð í húsaleigu og 3 milljarða í annan rekstarkostnað, t.d. rekstur á skrifstofum, verslunum og vöruhúsum. Undir þetta fellur ýmislegt, allt frá klósettpappír yfir í símreikninga. Hagar keyptu þessar vörur og þjónustu af öðrum fyrirtækjum og stofnunum.

Af hreinum rekstri högnuðust Hagar um 8,8 milljarða króna. Vel gert! Hér er þó ekki öll sagan sögð. Þegar fyrirtæki kaupa fasteignir, búnað og framleiðslutæki endast þau ekki að eilífu. Þau þarf að endurnýja með tímanum og þess vegna þarf að afskrifa þau á meðan þau endast. Á þessu ári þurftu Hagar að afskrifa 4,2 milljarða.

Þá voru eftir 4,5 milljarðar. Fyrirtæki eins og Hagar skulda yfirleitt öðrum peninga sem þeir hafa fengið lánaða til þess að gera ýmislegt. Stundum til að kaupa fasteignir, þróa vörur, opna nýjar eða betrumbæta eldri verslanir, kaupa ný tæki og tól og ef illa gengur til þess að halda rekstrinum gangandi.

Í þetta skiptið borguðu Hagar 1,5 milljarð í fjármagnsgjöld, aðallega vexti af lánum. Hlutdeildarfélög skiluðu svo 125 milljónum og þegar allt er tekið með í reikninginn, fyrir utan beina skatta, stóðu eftir 3,1 milljarður.

Hagar borguðu 600 milljónir í beinan tekjuskatt og heildarhagnaðurinn var samtals 2,5 milljarðar.

Fyrir utan reksturinn þá fjárfestu Hagar svo í fasteignum og framleiðslutækjum fyrir 4,6 milljarða.

Lífeyrissjóðir eiga mjög stóran hluta af íslensku atvinnulífi. Þegar þeir fá greiddan arð geta þeir borgað lífeyrisþegum um mánaðarmót og ávaxta til framtíðar fyrir þá sem eru ekki komnir á lífeyrisaldur.
Lífeyrissjóðir eiga mjög stóran hluta af íslensku atvinnulífi. Þegar þeir fá greiddan arð geta þeir borgað lífeyrisþegum um mánaðarmót og ávaxta til framtíðar fyrir þá sem eru ekki komnir á lífeyrisaldur.

Eru hluthafarnir vondu kallarnir?

Hluthafar Haga ákváðu að greiða út 1,5 milljarð í arð í þetta skiptið, fyrir skatt. Hver um sig fékk millifært í samræmi við sinn eignarhlut. Þetta eru auðvitað miklir peningar út af fyrir sig, fyrir flest venjulegt fólk.

Við nánari skoðun er þetta samt ekkert endilega svo mikið. Ef Hagar væru ekki stórt fyrirtæki heldur lítið fjölskyldufyrirtæki sem velti 60 milljónum árlega, væri arðgreiðslan bara um 750 þúsund krónur fyrir árið.

Í samhengi við það sem hluthafar Haga eru búnir að leggja undir, 25 milljarða í eigið fé, var ávöxtunin 6%. Verðbólgan var á sama tíma rúm 4%. Raunveruleg ávöxtun fyrir hluthafa í þetta skipti var því tæp 2%. Í öllu falli er ekki um ofurávöxtun að ræða þótt hún sé sem betur fer til staðar, sem bendir til þess að reksturinn sé í ágætu horfi miðað við aðstæður.

Hvað svo?

En þá er spurningin; hvað verður um peningana sem hluthafarnir fengu í arð? Hver hluthafi fyrir sig ræður hvað hann gerir við arðgreiðsluna. Sumir smíða pall í garðinum, aðrir nota peninginn til að fjárfesta í einhverju öðru. Í tilfelli Haga eiga íslenskir lífeyrissjóðir mest. Bara í hópi 20 stærstu hluthafa eiga lífeyrissjóðir samtals um 74%. 

Í öllu falli eru arðgreiðslupeningarnir ekki undir kodda hjá vondum lífeyrissjóðstjórum. Hver lífeyrissjóður er með sína fjárfestingastefnu, en í grunninn nota þeir arðgreiðsluna annars vegar til að borga lífeyrisþegum um hver mánaðarmót. Hins vegar til að ávaxta peningana okkar sem bíða þess að við komumst (vonandi) á lífeyrisaldur og förum að kaupa afmælisgjafir fyrir barnabörnin eða fara í jógasetur á Bali.

En til þess að svo megi verða þurfa hluthafar Haga og annarra fyrirtækja áfram að fá greiddan arð. Það gerist bara ef vel gengur.

Er vondi kallinn hér?
Er vondi kallinn hér?

En hvar er þá vondi kallinn?

Starfsfólkið græddi því það fékk launin sín greidd, mótframlag í lífeyrissjóðinn og vonandi fannst því gaman í vinnunni. Ef reksturinn gengur áfram þokkalega skapast til dæmis svigrúm til að hækka launin. Starfsfólkið er ekki vondi kallinn.

Viðskiptavinirnir græddu því þeir gátu keypt sér mat og bensín þar sem þeim hentaði, hvort sem er í hverfinu eða á ferðalagi. Það var líka ágætt fyrir viðskiptavinina að Hagar notuðu peninga til að opna á fleiri stöðum og betrumbæta eldri verslanir fyrir 4,6 milljarða. Viðskiptavinirnir hafa meira val. Ef viðskiptavinirnir eru óánægðir með Haga geta þeir farið í aðrar verslanir. Það þarf enginn að versla við Haga ef hann vill það ekki. Viðskiptavinurinn eru ekki vondi kallinn.

Hluthafarnir græddu því það var eitthvað eftir til skiptanna til að opna nýjar verslanir og fjárfesta til framtíðar. Pælingin er að bæta þjónustuna og reksturinn til lengri tíma, svo þeir geti fengið greiddan meiri arð seinna. Þeir nota síðan arðinn yfirleitt til að fjárfesta í einhverju öðru og geyma peninginn almennt séð ekki undir kodda. Kannski eru einhverjir vondir kallar hluthafar, en sem betur fer eru þeir það yfirleitt ekki.

Hið opinbera græddi því Hagar voru með 2.500 starfsmenn í vinnu og borguðum þeim laun. Af því voru dregnir skattar og gjöld. Á leiðinni keyptu Hagar alls konar vöru og þjónustu og af því tók hið opinbera líka sinn skerf. Vegna þess að reksturinn skilaði hagnaði borguðu Hagar svo 600 milljónir í beinan skatt í þetta skiptið. Hið opinbera er ekki vondi kallinn, þannig séð, þótt það megi fjalla um það í löngu máli hvort skattheimtan sé of há eða hvort peningarnir séu síðan notaðir rétt.

Síðan er það þannig að ef reksturinn gengur vel hafa fyrirtækin gjarnan veitt beina og óbeina styrki til samfélagslegra verkefna; björgunarsveita, íþróttafélaga, forvarna, góðgerðar- og menningarmála. Það er ágætt að fyrirtæki láti til sín kveða í víðara samhengi og sýni samfélagslega ábyrgð.

Vondi kallinn er ekki til

Íslenskt atvinnulíf er mjög fjölbreytt. Það eru til alls konar fyrirtæki sem veita alls konar þjónustu. Sumir sem taka þátt í atvinnulífinu eru bjánar og eflaust einhver illmenni inn á milli. En heilt yfir njóta allir góðs af því að það gangi vel í atvinnulífinu, líka ég og þú.

Við eigum því að gleðjast ef það gengur svo vel að fyrirtæki geti greitt út arð. Það segir okkur að fyrirtækið; starfsfólkið, viðskiptavinirnir og hluthafarnir fengu allir eitthvað út úr dæminu. Meira að segja hið opinbera fékk sinn skerf. Vonandi fáum við fleiri fréttir af arðgreiðslum.

Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

At­vinnu­rekstur er allra hagur

„Það er mikið hagsmunamál fyrir launafólk að til séu þeir sem bæði geta stofnað ...
23. feb 2024

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024