Hver var þessi týpa?

Það verður forvitnilegt að sjá hversu margir viðurkenna það eftir nokkur ár að hafa verið sjálfskipaðir sóttvarnaregluverðir.

Við könnumst flest við að hafa skoðað gamlar myndir af okkur og jesúsað okkur yfir þeim. Við nánari athugun kemur oft í ljós að svona var tíðarandinn bara. Bert á milli, þvottabjarnarstrípur og appelsínubrún húð þótti einfaldlega nokkuð töff. Eða þannig.

Nú er heimsfaraldur vissulega ekkert tískufyrirbrigði en maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvort öll viðbrögð við honum standist vel dóm sögunnar. Við vorum lengi vel býsna ánægð með okkur í samanburði við aðrar þjóðir, sem margar hverjar skelltu í lás og beittu mun harðari takmörkunum á almenning en hér var gert. Það er erfitt að skilja hvaða vit var í ýmsum reglum, eins og á Spáni, þar sem börn þurftu til dæmis að dúsa innandyra vikum saman en undanþága var veitt til að viðra hundinn - eða í langvinnum landamæralokunum andfætlinga okkar.

Eitt eru aðgerðir stjórnvalda en hitt eru viðbrögð almennings sjálfs. Hér á landi var orðið pestapó notað yfir ákveðna manngerð, sem tók það fullalvarlega að við værum öll almannavarnir. Þetta var týpan sem stillti sér upp fyrir utan stofugluggann hjá kunningjum mínum til að telja fólk í fjölskylduboði og konan sem pikkaði í öxlina á vinkonu minni í apóteki, þar sem þær voru tvær einar ásamt afgreiðslufólki, til að láta hana vita að hún væri ekki með grímuna rétt á sér. Þessi vinkona mín benti reyndar konunni til baka á að það væri ekki hægt að virða tveggja metra regluna um leið og maður pikkaði í annað fólk.

Myndirnar af hallæristímabilum okkar eru óræk sönnun þess að við föllum í gryfju hjarðhegðunar, en það verður forvitnilegt að sjá hversu margir viðurkenna það eftir nokkur ár að hafa verið sjálfskipaðir sóttvarnaregluverðir - í éghlýðivíðibol.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 10. febrúar 2022.

Tengt efni

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...

Lífstílsverðbólga stjórnvalda

Lækning lífstílsvanda stjórnvalda er tiltekt og forgangsröðun í útgjöldum ...
23. okt 2023

Lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...
21. mar 2023