Hvers vegna vill Viðskiptaráð sameina stofnanir?

Nýleg skoðun Viðskiptaráðs – „Sníðum stakk eftir vexti“ – kom út þann 17. desember síðastliðinn. Þar lögðum við fram 30 tillögur um fækkun ríkisstofnana úr ríflega 180 niður í 70. Í kjölfar útgáfunnar skapaðist töluverð umræða um æskilegt fyrirkomulag stofnanakerfisins hérlendis. Við hjá ráðinu fögnum því enda er stórt hagsmunamál fyrir Íslendinga að hið opinbera sé rekið með hagkvæmum hætti.

Í ljósi þeirra sjónarmiða sem komið hafa fram að undanförnu telur undirritaður rétt að koma tvennu á framfæri. Annars vegar hvernig örríki bera meiri kostnað af stofnanakerfum en þau fjölmennari og hins vegar í hverju faglegur og rekstrarlegur ávinningur sameininga er fólginn.

Örríki eins og Ísland ber hærri hlutfallslegan kostnað af því að halda uppi stofnanakerfi en fjölmennari ríki. Sem dæmi um það má nefna grundvallarstofnun sem öll vestræn ríki starfrækja: hagstofu (mynd 1). Hlutfallslegur kostnaður skattgreiðenda vegna rekstrar hennar er mun meiri á Íslandi en í fjölmennum ríkjum þrátt fyrir að stofnunin sé fámennari en annars staðar. Þannig standa um fjórum sinnum fleiri skattgreiðendur undir hverju stöðugildi hjá hagstofu Þýskalands en hjá Hagstofu Íslands.


Hér er brýnt að blanda ekki saman umræðu um hagkvæmni annars vegar og umfang þjónustu hins vegar. Þannig felst ekki gagnrýni á umsvif Hagstofu Íslands í þessu dæmi. Þvert á móti er hlutverk stofnunarinnar eitt af grunnhlutverkum hins opinbera – enda fullnægjandi hagskýrslugerð forsenda skynsamlegrar ákvarðanatöku í efnahagsmálum. Samræmdar alþjóðlegar skuldbindingar leiða hins vegar til þess að kostnaður Íslendinga af rekstri hagstofu verður óhjákvæmilega meiri en í fjölmennum ríkjum. Þetta er því fórnarkostnaður smæðarinnar.

Með sameiningum smærri stofnana í stærri rekstrareiningar má vinna gegn þessum áhrifum. Þannig kom ávinningur sameininga skýrt fram í úttekt verkefnisstjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld á íslenska stofnanaumhverfinu. Þar sýndu gögn fyrir íslenskar stofnanir að umtalsvert lægra hlutfall útgjalda fer í stoðþjónustu í stærri stofnunum (mynd 2). Þannig nýtast fjármunirnir í meiri mæli til að sinna þeim kjarnaverkefnum sem stofnunum er falið.


Reynslan sýnir að rétt útfærðar sameiningar skila ekki síður faglegum en fjárhagslegum ávinningi. Þegar lögregluembætti voru sameinuð árið 2007 jókst hlutfall upplýstra mála um 29%, eignaspjöllum fækkaði um 40% og ánægja með störf lögreglunnar jókst um 5%. Sameining skattembætta úr tíu í eitt árið 2010 skilaði einnig faglegum ávinningi: afgreiðslutími kæra styttist um 50%, afgreiðslutími erinda styttist um 62% og 98% starfsfólks voru ánægð með sameininguna. Þessi árangur náðist á sama tíma og fjárframlög til beggja stofnana drógust saman. Sameiningar snúast því jafn mikið um að bæta þjónustu eins og að auka hagkvæmni.

Mikilvægasta verkefni stjórnvalda er að skapa sem hagfelldasta umgjörð verðmætasköpunar þannig að lífskjör geti áfram batnað hérlendis. Í því felst meðal annars að fjármunir hins opinbera séu nýttir á skynsamlegan máta. Tillögum okkar um fækkun stofnana er ætlað að efla opinbera geirann og gera stofnunum betur kleift að veita sem besta þjónustu fyrir sem minnsta fjármuni. Um það ættu flestir að geta sameinast.

Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 12. janúar, bls. 18

Uppfært kl 14.00 þann 18. janúar 2016
Vegna athugasemda frá Hagstofu Íslands voru tölur á mynd 1 uppfærðar. Sjá nánari umfjöllun hér.

Tengt efni

Höfum við efni á þessu?

Í því efnahagsástandi sem nú ríkir er tímabært að ræða sívaxandi umsvif hins ...
23. jún 2023

Góðir stjórnar­hættir - hvernig og hvers vegna?

Tilnefningarnefndir er dæmi um viðfangsefni sem halda þarf áfram að móta til ...
8. mar 2023